27.04.1970
Efri deild: 80. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

174. mál, lax- og silungsveiði

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég ræddi nokkuð um þetta frv. við 1. umr., og ég viðurkenndi, að margt hefði áunnizt miðað við það, sem var í frv., sem hæstv. landbrh. flutti á síðasta þingi. Hins vegar lét ég í ljós þá von, að tekjur fiskræktarsjóðs yrðu tryggðar nokkru betur. Það hefur ekki náðst samstaða um það, og ég hef heldur ekki séð ástæðu til þess að flytja sérstaka brtt. í því sambandi. Um það má alltaf deila. En ég varð þó svo bjartsýnn, að ég taldi, að grundvöllur væri fyrir því að fá samstöðu í landbn. um að gera stærra átak í þessu efni en frv. gerði ráð fyrir, en svo virðist ekki hafa verið.

Ég nefndi hér einn möguleika, og það var í frv., er ég flutti ásamt tveimur öðrum hv. þdm., en það hefur ekki verið hlustað á það - sú till. var líka felld í Nd. — að stofna til sérstakra veiðikorta. Fyrirmynd að þessu er frá öðrum löndum. Í Noregi voru sett lög um þetta árið 1964. Þar eru gefin út sérstök kort, en tekjur af þeim eru 10 kr. norskar á Norðmann, en fyrir útlending, sem kemur til veiða í landinu, eru það 25 kr. Tekjur af þessari sölu fara til að styrkja laxeldi í landinu og aðra starfsemi við lax og silung, og ég hefði gert mér vonir um, að slík hugmynd fengi hér jákvæðar undirtektir, en það virðist ekki vera. Í Noregi og Svíþjóð hafa þessi kort gefið góðar tekjur í fiskræktarsjóðina þar. En það getur vel verið, að þetta sé of nýtt hér á landi, til þess að menn átti sig á því, að þetta er til bóta. En ég vildi þó láta það koma skýrt fram, að við vorum hér nokkrir í d. á því, að rétt væri að taka þetta skref strax til eflingar almennu laxeldi í landinu og fiskrækt. Hvað um það þá virðist ekki vera hljómgrunnur fyrir þessu í landbn., og við það verður að sitja í bili.

Hins vegar vil ég taka undir þær brtt., sem n. gerir á þskj. 689, og tel hér um réttlætis- og sanngirnismál að ræða, enda lagði hæstv. landbrh. þessu máli lið í framsögu, og sýnast góð rök fyrir því, að hér sé tekin upp skipun fimm manna n. í stað þriggja manna áður.