28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

174. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, að það er orðið nokkuð sjaldan, sem ég og hv. 2. þm. Sunnl. tölum saman hér í þinginu, og úr því að það er svona sjaldan, þá er kannske eðlilegt, að það lengist nokkuð í þetta sinn.

Ég minnist þess, að í blaðinu Þjóðólfi, sem er málgagn sunnlenzkra framsóknarmanna, var um það skrifað, að landbrh. og Ágúst Þorvaldsson hefðu unnið gott verk með því að vinna að þessu frv. og koma því inn í Alþ. Framsóknarmenn á Suðurlandi virðast a.m.k. halda, að hv. 2. þm. Sunnl. eigi stóran þátt í frv. Þegar frv. var lagt fram, þá var gert ráð fyrir fimm manna veiðimálanefnd, eins og hér er gert, og Þjóðólfur taldi þetta frv. ágætt og sá ástæðu til þess að þakka mér, sem hann gerir nú sjaldan, og náttúrlega hv. 2. þm. Sunnl. fyrir það, hvað hann hefði lagt mikið fram til þessa máls. Ég hef alls ekki borið á móti því, að hv. 2. þm. Sunnl. eigi hlut í þessu frv., og ætla ekkert að ræða um það — látum það vera. En frv. var ágætt, þegar það var lagt fram með fimm mönnum í veiðimálanefnd, alveg prýðilegt. Hv. 2. þm. Sunnl. treystir mér ekki til þess að skipa góðan og réttlátan mann formann og vill nú helzt fá yfirlýsingu frá mér um, hver hann muni verða. Ég held, að ég verði ekki við ósk hv. þm. um það og hann verði með þolinmæði að bíða eftir því, hver hann verður. Það verður þá að hafa það, ef hann trúir því, að ég setji einhvern mann í það, sem er fjandsamlegur bændum. Það getur hann sagt hér í hv. Alþ., hann getur sagt það annars staðar, en ég hygg, að bændur trúi því ekki.