20.04.1970
Efri deild: 74. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

203. mál, tryggingadeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og ég drap á, þegar ég mælti fyrir frv. um útflutningslánasjóð, má líta á þetta frv. sem fylgifrv. þess, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara um það mörgum orðum.

Frv. gerir ráð fyrir því, að við ríkisábyrgðasjóð verði stofnuð sérstök tryggingardeild útflutningslána, sem gegni því hlutverki, eins og það er orðað í 2. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta, „að taka að sér að tryggja lán, sem bankar eða aðrar lánastofnanir veita innlendum útflytjendum til fjármögnunar á útflutningslánum, sem þeir veita eða útvega erlendum kaupendum. Enn fremur er tryggingardeild heimilt að tryggja aðrar kröfur íslenskra útflytjenda á hendur erlendum kaupendum, enda hafi þær orðið til vegna útflutnings á íslenzkum vörum.“

Þannig hefur verið litið á og n. á það fallizt, að frv. um útflutningslánasjóð nái ekki fullkomlega tilgangi sínum, nema stofnað væri til slíkrar ábyrgðatryggingar. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessu frv., að hin svokölluðu samkeppnislán, sem um er rætt í frv. um útflutningslánasjóð, verði slíkrar ábyrgðar aðnjótandi. En ég vil geta þess, að við 3. umr. málsins er von á brtt. frá n., þar sem heimilað verður í vissum tilvikum að stofna til slíkrar ábyrgðar. En annar hv. nm. mun mæla fyrir þeirri till. og hliðstæðri brtt. við frv. um útflutningssjóðinn, þegar þar að kemur.

Herra forseti. Að öðru leyti leggur n. til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt til 3. umr.