24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

231. mál, Alþýðubankinn

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ekki er ég því andvígur, að hér á landi verði á komandi tímum starfandi bankastofnun, sem beri nafnið Alþýðubanki, hvernig sem því verður nú fyrir komið, og vel skil ég það, að hv. þm. og hæstv. ráðh. vilji efna vilyrði, sem þeir hafa gefið eða telja sig hafa gefið. En ég vil leyfa mér að beina þeim tilmælum til þeirrar hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún athugi gaumgæfilega, hvort ekki muni þegar vera starfandi nógu margir bankar hér á landi og hvort útþensla bankakerfisins muni í seinni tíð ekki hafa orðið helzt til mikil miðað við fjármagnið í landinu. Ég vil vekja athygli á því, sem ég hef reyndar gert í sambandi við aðra bankastofnun, sem hefur verið hér til meðferðar, að á einum áratug hefur starfsliði bankakerfisins hér á landi verið fjölgað um 100% eða því sem næst, og eru þá ekki teknir með sparisjóðir landsins, sem eru á milli 50 og 60 talsins, né fjárfestingarsjóðir þeir, sem starfandi eru og ekki njóta starfskrafta hjá bönkum, sem eru með í þessari tölu. Samkeppnin milli bankanna er orðin mjög mikil, og af því hefur m.a. leitt það, að fjárfesting í bankakerfinu hefur orðið mikil og áberandi, og var það mál rætt hér á þingi í sambandi við fsp. að ég ætla fyrir einu eða tveimur árum. Ég held, að margir hafi áhyggjur af þessari miklu útþenslu bankakerfisins og þá ekki sízt hinir eldri bankar í landinu, sem hafa orðið fyrir því, að starfsemi þeirra er miklu örðugri og tilkostnaður tiltölulega meiri en áður var, þegar bankarnir voru færri.

Ég hef yfirleitt nú í seinni tíð ekki greitt atkv. með stofnun og setningu laga um nýja banka hér. Ég greiddi ekki atkv. með stofnun Verzlunarbankans og hefði ekki greitt atkv. með stofnun þeirra banka, sem verið hefur á döfinni að stofna hér síðar. Mér virðist, að það þurfi að taka það til mjög alvarlegrar athugunar, ef óhjákvæmilegt þykir að bæta við nýjum bönkum, hvort ekki þurfi að endurskoða bankakerfið í heild frá rótum með tilliti til þess, að það verði við hæfi okkar litla þjóðfélags.