16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

217. mál, alþjóðasamningur um fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi

Meginefni síðustu bókunarinnar frá því í okt. s.l. er fyrst og fremst þetta:

Samningssvæði því, sem samningurinn tekur til, er skipt í deilisvæði, og yfirstjórn rannsókna á hverju svæði er í höndum svonefndrar svæðisnefndar. Í þessari nýju bókun er kveðið svo á, að aðild að svæðisnefnd skuli endurskoðuð árlega af aðalnefndinni, sem skapar vald til þess í samráði við þá svæðisnefnd, sem hér á hlut að máli, að ákveða aðild að hverri svæðisnefnd á grundvelli verulegra fiskveiða á því deilisvæði, sem um er að ræða, eða á grundvelli verulegra veiða á blöðrusel á samningssvæðinu.

Í öðru lagi felst það í bókuninni, að sérhver svæðisnefnd getur á grundvelli vísindarannsókna og haffræðilegra og tæknilegra sjónarmiða samið álit um það til n. um sameiginlegar aðgerðir samningsríkjanna varðandi viss atriði.

Í þriðja og síðasta lagi felst það í bókuninni, að aðalnefndin, sem fer með yfirstjórn allra mála samkv. samningnum, geti samkv. ályktunum einnar eða fleiri svæðisnefndar og á grundvelli vísindalegra rannsókna og haffræðilegra, tæknilegra sjónarmiða sent því ríki, sem við á og geymir samninginn, viðeigandi till. um sameiginlegar aðgerðir samningsríkjanna, sem miða að því að stofnar fisktegunda, sem alþjóðlegar fiskveiðar á samningssvæðinu byggjast á, séu til staðar í því magni, sem gerir stöðugan hámarksafla mögulegan.

Ég vona, að ekki þurfi að koma nú frekar en áður til ágreinings hér á hinu háa Alþ. um það, að þessi bókun eins og hinar fyrri svo og samningurinn sjálfur stefni í rétta átt og stuðli að verndun fiskstofna í Norðvestur-Atlantshafi.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.