27.04.1970
Efri deild: 80. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

217. mál, alþjóðasamningur um fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Alþjóðasamningur um fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi, sem Ísland er aðili að, var fyrst undirritaður af Íslands hálfu hinn 8. febr. 1949. Síðan hafa á árunum 1956, 1961, 1963, 1965 og núna síðast hinn 1. okt. 1969 verið gerðar við samninginn sérstakar bókanir með samþykki allra aðildarríkjanna. Með frv. þessu veitist ríkisstj. heimild til þess að setja reglur um framkvæmd samningsins í samræmi við efni þeirra bókana, sem við samninginn hafa verið gerðar. Aðilar að þessum samningi eru allar þær þjóðir, sem hafa verulegra hagsmuna að gæta varðandi viðhald og nýtingu þeirra fiskstofna, sem í hafsvæðinu eru og fiskveiðar viðkomandi þjóða byggjast á.

Bókun sú, sem við samninginn var gerð 1. okt. 1969, er fyrst og fremst um sérstaka skipan svæðisnefnda og verndarreglur. Með bókuninni er kveðið svo á, að sérhver svæðisn. geti á grundvelli vísindarannsókna og haffræðilegra og tæknilegra sjónarmiða samþ. ályktanir til n. um sameiginlegar aðgerðir til þess að fyrirbyggja rányrkju, en í því sambandi er að dómi n. um ýmsar leiðir að velja. Getur aðalnefndin þannig samkvæmt ályktunum einnar eða fleiri svæðisnefnda, sent aðildarríkjunum tillögur um sameiginlegar aðgerðir, sem miða að því, að stofnar þeirra fisktegunda, sem alþjóðlegar fiskveiðar á samningssvæðinu byggjast á, séu til staðar í því magni, sem gerir stöðugan hámarksafla mögulegan. Fáar þjóðir eiga meira undir því komið en vér Íslendingar, að skynsamleg hagnýting fiskstofnanna eigi sér stað. Slík alþjóðleg samvinna sem hér um ræðir getur vissulega orðið að góðu liði í þessum efnum.

Ég vil því leyfa mér fyrir hönd hv. sjútvn., sem einróma mælir með samþykkt þessa frv., að vænta þess, að frv. verði samþ. og því að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.