24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

220. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. frsm. n., mælir hún einróma með því frv., sem hér liggur fyrir. Hins vegar hefur n. orðið ósammála um ýmis önnur frv. um breyt. á skattal., sem hafa verið lögð fram á þessu þingi hér í hv. d., og rakti hv. frsm. ágreining þann, sem varð í n. um þessi mál. Ég sé ekki ástæðu til þess að gera öll þau frv. að umtalsefni, sem n. hefur fjallað um, en við tveir nm., ég og hv. 5. þm. Austf., höfum talið rétt að taka upp tvö af þessum frv. og flytja þau sem brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir. Mun ég gera í stuttu máli grein fyrir þessum till., en ég get stytt mál mitt með tilliti til þess, að ítarlega var um þessar till. rætt, þegar viðkomandi frv. voru hér til 1. umr.

Fyrri till. okkar fjallar um það, að tekið verði upp frv., sem er á þskj. 63 og flutt var af þeim Halldóri E. Sigurðssyni, Ingvari Gíslasyni og Helga Bergs. En þar er um þá brtt. að ræða, að á eftir 3. mgr. 42. gr. skattal. komi ný mgr., svo hljóðandi:

„Fram skal fara ítarleg rannsókn á framtölum 10% allra framtalsskyldra aðila. Skulu þau framtöl valin með útdrætti úr öllum framtölum landsins af Hagstofu Íslands samkv. reglum, sem hún setur. Framtöl þau, sem tekin eru til rannsóknar, skal athuga vandlega, rannsaka bókhald aðila og leita upplýsinga um hvað eina, sem máli skiptir.“

Það er nú svo ljóst, hvað vakir fyrir flm., að ég tel óþarft að ræða um það nema í stuttu máli. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að talið er og reyndar vitað, að ýmsir framteljendur koma verulegum tekjum og eignum undan skatti, og þrátt fyrir það að unnið hafi verið frá upphafi að því að bæta skattaeftirlitið, þá hefur þetta eigi að síður við haldizt. Það er álit flm. og okkar, sem að þessari till. stöndum, að með slíkum útdrætti og hér um ræðir og athugun á viðkomandi skattframtölum mundi skapast aðhald, sem yrði þess valdandi, að framtölin yrðu réttari, a.m.k. réttari en þau eru nú, og þannig mundi nást verulegt fé, sem ríkið á raunar rétt á, en næst ekki í nú. Vel má vera, að fleiri aðferðir komi hér til greina, sem mundu skapa aukið aðhald í þessum efnum, en þetta er áreiðanlega ein af aðferðunum, og ég held, að allir, sem til þessara mála þekkja, séu sammála um það, að hér sé um svo mikil undanbrögð að ræða, að ekki veiti af því að herða aðhaldið, og þess vegna á þessi till. tvímælalaust fullan rétt á sér og mundi koma að verulegum notum, ef hún næði fram að ganga. Ég tel svo ekki ástæðu til þess að ræða meira um þetta mál að sinni, enda var það mjög ítarlega rætt áður, er frv. var til 1. umr. hér í deildinni.

2. brtt. okkar hv. 5. þm. Austf. fjallar um 53. gr. I. og er í samræmi við frv., sem ég og nokkrir aðrir þm. fluttum snemma á þessu þingi á þskj. 48. Aðalefni þessarar brtt. er það, að í stað þess að skattvísitalan er nú ákveðin af fjmrh., án þess að hann sé bundinn af nokkrum sérstökum reglum, þá skuli hún vera látin fylgja framfærsluvísitölu til hækkunar eða lækkunar. Án þess að eyða of miklum tíma þingsins finnst mér rétt að rifja upp forsögu þessa máls í megindráttum.

Sú mikla verðbólga, sem var hér á fyrstu árunum eftir stríðið, hafði það í för með sér, að laun hækkuðu, án þess að þar væri um raunverulega aukningu á raungildi þeirra að ræða. Þetta leiddi til sívaxandi skattahækkana, án þess að raunverulegar launahækkanir hefðu átt sér stað. Þess vegna var það, að tveir ungir og vaskir þm. Sjálfstfl., sem höfðu nýlega tekið sæti á þingi, hv. núv. fjmrh. og hv. núv. iðnrh., tóku sér fyrir hendur á árinu 1952 ásamt núv. ríkisskattstjóra að semja frv. um breyt. á skattal., sem þá voru í gildi. Segja má, að aðalefni þess frv. og það, sem var langsamlega veigamest, fæli það í sér, að tekin væri upp skattvísitala, sem fylgdi framfærsluvísitölu. Það hafði gerzt á sama tíma, að sú ríkisstj., sem þá var, hafði skipað sérstaka n. til þess að endurskoða skattal., og hún komst að sömu niðurstöðu, að þessi breyting ætti rétt á sér, og fyrir forgöngu þáv. fjmrh., Eysteins Jónssonar, var þessi skattvísitala lögfest á þinginu 1953. Það er mjög athyglisvert að lesa umr. frá Alþ. 1952, þegar t.d. Jóhann Hafstein, hæstv. núv. iðnrh., er að lýsa því, hvernig skattarnir hafa alltaf verið að hækka og hækka, án þess að raungildi launanna hafi nokkuð aukizt, sökum verðbólgunnar og þeirra óraunhæfu launahækkana, sem af henni hlutust. Þessi skattvísitala, sem var miðuð við framfærsluvísitölu, hélzt svo allan þann tíma, sem Eysteinn Jónsson var fjmrh., eða frá 1953-1958, og urðu breytingar á skattstigum og frádrætti samkv. því.

Það gerðist svo árið 1960, þegar viðreisnarstjórnin kom til valda, að fram var látin fara endurskoðun á skattal., enda var því lofað, og það var eitt aðalatriðið í hinni svokölluðu viðreisn að undanþiggja venjulegar launatekjur tekjuskatti. Samkv. því var skattstigum breytt mjög verulega, þannig að segja mátti, þegar þau lög tóku gildi, að meðallaun væru nokkurn veginn undanþegin tekjuskatti. En sú stjórn taldi sig hafa ráðið niðurlögum verðbólgunnar og þess vegna ekki lengur þörf á neinni skattvísitölu, og því felldi hún það ákvæði niður úr lögum.

En þetta fór ekki á þá leið, að þessi hæstv. ríkisstj. væri búin að ráða niðurlögum verðbólgunnar, vegna þess að hún óx aldrei meir en á næstu árum á eftir. Þetta hafði þær afleiðingar, að þótt skattarnir hefðu verið nokkurn veginn eðlilegir, þegar skattal. voru sett 1960, þá var svo komið 1964, að hér var komin alveg gífurleg skattabyrði, án þess að þar hefði orðið nokkur breyting á skattal., því að verðbólgan hafði aukizt stórlega og launin samkv. því, án þess að rauntekjur þeirra hefðu vaxið, svo að verulegu máli skipti a.m.k. Svo gífurlegir voru skattarnir orðnir sumarið 1964, hygg ég, að það hafi verið, að ríkisstj. setti sérstaka n. til að athuga, hvernig skattgreiðendur ættu að fara að því að borga skattana, og hún komst að þeirri niðurstöðu, að í sumum tilfellum væri það nauðsynlegt að láta skattgreiðendur eiga kost á 2–3 ára láni til þess að greiða skattana. Ég veit nú ekki, hvort að þessu ráði hefur verið horfið, en þetta sýnir, í hvert gífurlegt öngþveiti var hér komið, sökum þess að ekki hafði verið fylgt skattvísitölu, sem byggðist á framfærsluvísitölunni.

Þetta varð svo til þess, að á þingi 1964 voru skattal. tekin til nýrrar endurskoðunar, og stigunum verulega breytt til samræmis við það ástand, sem þá var orðið og skattarnir þannig lækkaðir, og jafnframt var tekin upp skattvísitala að nýju, en þá með þeim hætti, að í staðinn fyrir það, að miðað væri við framfærsluvísitölu, þá var ákveðið, að fjmrh. skyldi ákveða skattvísitöluna, að fengnum till. hagstofustjóra, kauplagsnefndar og ríkisskattstjóra. Fyrstu árin á eftir var þetta mjög heiðarlega framkvæmt af fjmrh., þannig að árin 1965, 1966 og 1967 var skattvísitalan ákveðin í samræmi við það, sem framfærslukostnaður hafði aukizt, og jafnvel ríflega það.

Þetta breyttist hins vegar á árinu 1968. Þá var skattvísitalan látin standa óbreytt, þótt orðið hefði nokkur hækkun á launum, en þó ekki raunveruleg hækkun á launum, heldur höfðu rauntekjurnar raunverulega lækkað. Þetta ákvað ráðh., að því er ég bezt veit, að ákveða skattvísitöluna óbreytta, án þess að leita nokkuð eftir till. frá hagstofustjóra, kauplagsnefnd eða ríkisskattstjóra, eins og lög gera ráð fyrir. A.m.k. var ekki leitað eftir neinum till. frá hagstofustjóra og kauplagsnefnd.

Hið sama gerðist svo aftur, þegar skattvísitalan var ákveðin 1969. Þá var hún ákveðin án alls samráðs við þessa aðila, eins og lögin gerðu þó ráð fyrir, og látin standa nokkurn veginn óbreytt þrátt fyrir hina gífurlegu kjaraskerðingu, sem hafði hlotizt af gengisfellingunum, og þær óraunverulegu launahækkanir, sem höfðu átt sér stað á þessum tíma. Þetta varð þess valdandi, að skattar hækkuðu verulega á seinasta ári, bæði tekjuskatturinn og útsvörin, án þess að nokkur launahækkun hefði átt sér stað, heldur höfðu launin raunverulega lækkað á þessum tíma, og þess vegna hefðu skattarnir, ef allt væri með eðlilegum hætti, átt að lækka. Hæstv. menntmrh. sagði hér fyrir nokkrum dögum, að það hefði orðið 15–20% kjaraskerðing á þessum tíma. En þrátt fyrir það, vegna þess hvernig hæstv. fjmrh. beitti skattvísitölunni, hefur átt sér stað samtímis stórfelld skattahækkun.

Nú er fyrir nokkru búið að ákveða skattvísitöluna fyrir þetta ár. Hún mun vera 140 stig, en ef fylgt hefði verið framfærsluvísitölu í samræmi við till. þeirra Magnúsar Jónssonar og Jóhanns Hafstein frá 1952, þá ætti skattvísitalan núna að vera a.m.k. 173 stig. Hljóta allir að sjá, hve gífurleg áhrif þetta hefur á skattana og hve þeir verða miklu þyngri en þeir mundu verða og ættu að verða, ef framfærsluvísitölu yrði fylgt. Afleiðingin af þessu hlýtur að sjálfsögðu að verða sú, að á þessu ári munu skattar enn hækka verulega frá því, sem var á síðasta ári, án þess þó að rauntekjurnar hafi nokkuð aukizt, vegna þess að menn hafa fengið verulega auknar dýrtíðarbætur á þessu ári, en þar er að sjálfsögðu ekki um neina aukningu á rauntekjum að ræða.

Frv. á þskj. 48, sem við hv. 5. þm. Austf. höfum tekið upp sem brtt. við þetta frv., felur í sér leiðréttingu á þessum efnum. Ég held, að það væri hyggilegt og skynsamlegt af hæstv. ríkisstj. að fallast á þessa till., þótt það væri ekki vegna annars en þess, að nú eru framundan nýir kaupsamningar, og ef þannig horfir, þegar til þeirra samninga verður gengið, að launþegar sjá fram á, að þeir þurfa að borga verulega aukna skatta á þessu ári, þá hljóta þeir eðlilega að taka tillit til þess í sambandi við kaupsamningana og krefjast meiri kauphækkana en ella vegna þess. Áreiðanlega væri í alla staði farsælla að veita launþegum kjarabætur með lækkun skattanna í samræmi við þá till., sem hér liggur fyrir, en veita þeim kjarabætur í formi tilsvarandi kauphækkunar, því að kauphækkanirnar munu koma aftur út í verðlagið og síðan aftur inn í kaupgjaldið og svo koll af kolli. En hjá því yrði komizt, ef þessar kjarabætur yrðu veittar í formi skattalækkunar, eins og þessi till. gerir ráð fyrir.

Ég skal ekki tefja tímann meira, þó að ástæða væri til þess að gera grein fyrir þessari till. Ég vil aðeins til viðbótar þó segja það, að ég álít það enga ástæðu til þess að fresta þessari till. eða fella hana, að nú er nokkuð langt komið með framtölin, og þess vegna þyrftu ýmsar skattanefndir að leiðrétta þau með tilliti til þessarar breytingar. En sú breyting er ekki svo fyrirhafnarmikil, að það sé ekki vel hægt að framkvæma hana, þó að þetta sé orðið áliðið, og ég álít hins vegar, að sú breyting væri svo mikilvæg, m.a. með tilliti til væntanlegra kaupsamninga, að sú skriffinnska, sem yrði í sambandi við það, mundi margborga sig.

Ég sé, að hv. meiri hl. fjhn. hefur gert brtt. við 53. gr., sem fjallar um skattvísitöluna, en mér sýnist, að þar sé gert ráð fyrir því, að skattvísitalan verði ákveðin með nokkuð sama hætti og nú er, þannig að þar er ekki um neina breytingu að ræða. En mér finnst rétt að vekja athygli hv. meiri hl. á því, að eins og þessi brtt. er fram sett, er hún nánast óskiljanleg, vegna þess að hún vísar til alveg rangrar lagagreinar. Það er t.d. talað hér um í brtt. að hækka eða lækka þær fjárhæðir, sem um ræðir í 1. gr. skattalaganna og 1. mgr. 2. gr. En það er engar fjárhæðir að finna, hvorki í 1. gr. eða 1. mgr. 2. gr., eins og ég get sýnt bara með því að lesa þessar greinar upp, en þær eru örstuttar. 1. gr. hljóðar svo:

„Hver maður heimilisfastur hér á landi er skyldur til með þeim takmörkunum, sem settar eru í 1. þessum, að greiða skatt í ríkissjóð af tekjum sínum og eignum. Nú dvelst maður erlendis um stundar sakir, en bregður eigi heimilisfangi sínu hér á landi, og skal hann þá gjalda skatt eins og hann dveldist að staðaldri í landinu.“

Hér er ekki nein fjárhæð nefnd og þess vegna ekki hægt að vitna til hennar.

1. mgr. 2. gr. hljóðar á þessa leið:

„Nú er maður eigi heimilisfastur hér á landi, en á hér fasteignir og hefur tekjur af þeim eða atvinnu eða af sýslan, sem hér eða héðan er rekin, svo sem sjómenn á íslenzkum skipum, sem eigi greiða skatta í öðru ríki, og skal hann þá gjalda skatt af tekjum þessum og tilnefna fyrir hlutaðeigandi skattheimtumanni, hver greiðir skattgjald hans, enda sé sá maður búsettur á skattsvæði skattheimtumanns.“

Hér er ekki nein fjárhæð nefnd. Þá er í brtt. talað um að breyta þrepunum í skattstiga þeim, sem ræðir í 4. gr. l., en 4. gr. l. fjallar ekki um nein skattþrep, heldur það, hvernig eigi að skattleggja tekjur barna innan 16 ára.

Mér skilst, að þessi galli á brtt. stafi af því, að breyt. á skattal., sem voru samþ. á þingi 1965, voru felldar inn í eldri lög, lög frá 1964, og sú innfærsla hefur gerzt með þeim hætti, að 53. gr., eins og hún er nú, sem meiri hl. n. mun hafa farið eftir, er nánast sagt alveg óskiljanleg, vegna þess að þar er vitnað í allt aðrar gr. en eru í l. sjálfum, eftir að búið er að fella þetta saman. Þar er nefnilega vitnað í gr. í l. frá 1965, sem að sjálfsögðu áttu að breytast, eftir að búið var að fella þá breyt. inn í eldri lög. Ég segi þetta með tilliti til þess, að ég held, að það væri æskilegra, fyrst hv. meiri hl. flytur þessa till., að henni yrði breytt til samræmis við l., þannig að það væri vitnað í réttar lagagr. En það er ekki gert nú.

Ég skal svo ekki ræða þetta frekar, þó að ástæða væri til, vegna þess að menn eru almennt orðnir sammála um það að reyna að stytta mál sitt.