24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

220. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það er gott að eiga von á því, að heildarendurskoðun skattal. haldi áfram og að frv. byggt á þeirri endurskoðun verði lagt fyrir næsta Alþ. svo tímanlega, að það geti þá fengið afgreiðslu. Ekki er þetta nú kannske alveg víst. En hitt er víst, að þm. hafa séð ástæðu til að flytja hér brtt. um að ákveða lagfæringu á sjómannafrádrættinum nú þegar. Þeir hv. þm., sem það gera, telja það vissara, þrátt fyrir þessar yfirlýsingar um endurskoðun l., að fá þetta ákvæði tekið inn nú.

Við erum alveg á sömu skoðun, hv. 5. þm. Norðurl. e. og ég, að það sé vissara að fá inn nú, ef auðið er, leiðréttingu, sem segja má, að sé alveg sjálfsögð, en þó hefur dregizt árum saman, já meira en áratug. Við hv. 5. þm. Norðurl. e. fluttum hér snemma á þessu þingi frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, um það að hækka þá hámarksfjárhæð, sem hjónum er heimilt að draga frá skattskyldum tekjum sínum vegna tekna, sem eiginkonan aflar við atvinnurekstur hjónanna. Í l. um tekju- og eignarskatt eru ákvæði, sem heimila hjónum að draga frá skattskyldum tekjum sínum 50% þeirra tekna, er konan vinnur fyrir, enda sé teknanna ekki aflað hjá fyrirtæki, sem hjónin, annað hvort eða bæði, eiga eða reka að verulegu leyti. En vinni kona við eigin atvinnurekstur hjóna, þá eiga þau rétt á því, að metinn sé hlutur konunnar af sameiginlegum hreinum tekjum hjónanna, miðað við hreint vinnuframlag hennar við öflun teknanna og 50% dregin frá hlut hennar, áður en skattgjaldið er lagt á, alveg eins og í hinu tilfellinu. En þarna fylgir sá böggull skammrifi, að þessi upphæð má aldrei vera meiri en 15000.00 kr. Sú mismunun, sem hér á sér stað, er að okkar dómi í eðli sínu ákaflega hæpin og a.m.k. engin ástæða til þess að gera svo stórkostlegan mismun á, eftir því hvort konan aflar teknanna við atvinnurekstur alveg utan fjölskyldunnar, ellegar atvinnurekstur, sem að einhverju leyti er á vegum fjölskyldunnar.

Það er eftirtektarvert, hvað þetta ákvæði er búið að standa lengi. Þessi krónutala hefur staðið óbreytt í 11 ár, svo að það sjá nú allir, hversu fráleit hún er þá orðin nú. Það er líka athyglisvert, hvernig þetta ákvæði kom inn á sínum tíma, því að þá sagði í l., árið 1958, að frádráttarupphæð mætti aldrei vera hærri en tvöfaldur persónufrádráttur konunnar. Á þessu sést, að það hefur verið ætlun löggjafans að þetta væri hreyfanlegt, þegar þetta var tekið upp, þó að seinna æxlaðist svo til, að upphæðin hefur orðið óhreyfanleg og staðið óbreytt svo lengi.

Við hv. 5. þm. Norðurl. e. viljum leyfa okkur að flytja brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir, og hún er á þá leið fyrst, að á undan 1. gr. frv. komi ný gr. svo hljóðandi: „Síðasti málsliður 3. málsgr. 3. gr. l. orðist svo: Aldrei kemur þó hærri upphæð til frádráttar en 50000 kr.“ Og annað: 2. gr. (verður 3. gr.) orðist svo: „L. þessi öðlast þegar gildi, og skulu ákvæði 1. gr. koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts fyrir skattárið 1970, en ákvæði 2. gr. við álagningu tekjuskatts og eignarskatts fyrir skattárið 1969.“

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en af því að brtt. er skrifleg, þá leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta hana með ósk um, að leitað verði afbrigða.