25.04.1970
Neðri deild: 82. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

220. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Við 2. umr. málsins kom hér fram brtt., sem m.a. miðaði að því að hækka nokkuð persónufrádrátt. Sú till. var felld. Ég hygg þó, að það sé enginn vafi á því, að allir hv. þdm. viðurkenni, að persónufrádráttur sá, sem nú er miðað við í skattal. sé orðinn allt of lágur og algerlega óeðlilegur. Slíkt veldur því m.a., að þeir, sem hafa lágar tekjur eða miðlungstekjur, borga óeðlilega háa skatta til ríkisins af tekjum sínum miðað við það, sem áður var og grundvöllur var í rauninni lagður að með setningu skattal. á sínum tíma.

Ég leyfi mér því að flytja brtt. nú við 3. umr. málsins, sem fjallar um þetta sama atriði, en þó nokkuð á annan hátt en fyrri till. Ég miða till. mína eingöngu við það, að persónufrádráttur samkvæmt 16. gr. skattal. verði hækkaður. Sú till., sem ég flyt, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á undan I. gr. komi ný gr., svo hljóðandi:

Við álagningu tekjuskatts árið 1970 (tekjur árið 1969) skal hækka persónufrádrátt frá því, sem ákveðið er í 16. gr. l., um 60% og verða:

a. fyrir einstaklinga 128 þús. kr.

b. fyrir hjón 179 200 kr., telji þau fram sitt í hvoru lagi 89 600 kr. fyrir hvort.

c. fyrir hvert barn, sem er á framfæri skattþegns og ekki er fullra 16 ára í byrjun þess almanaksárs, þegar skatturinn er lagður á, 25 600 kr. Hér með teljast stjúpbörn, kjörbörn og fósturbörn, sem meðlag er ekki greitt með.“

Breytingin, sem raunverulega yrði með þessari till., er sú, að persónufrádrátturinn er hækkaður. Nú er persónufrádrátturinn eftir þeirri skattvísitölu, sem nú hefur verið ákveðin, fyrir einstakling 112 þús. kr., en ég geri tillögu um, að hann verði 128 þús. kr. Fyrir hjón er hann nú, eftir núverandi skattvísitölu, 156 800 kr., en ég geri tillögu um, að frádrátturinn verði 179 200 kr. Fyrir barn er persónufrádrátturinn nú 22 þús. kr., en ég geri tillögu um, að hann verði 25 600 kr.

Mér er fyllilega ljóst, að það hefði verið ástæða til að hafa þennan persónufrádrátt nokkru hærri en ég geri ráð fyrir í minni till. En þar sem búið er við 2. umr. málsins að fella till., sem gerði þar ráð fyrir nokkru hærri persónufrádrætti, þá þótti mér rétt að miða þessa till. við nokkru lægri upphæð. Ég tel mjög þýðingarmikið, að þetta verði ákveðið. Þetta mundi verða til þess, að lágtekjufólk og þeir, sem eru með miðlungstekjur, kæmu ekki til með að borga tekjuskatt til ríkisins, nema þá tiltölulega lágan, og ég álít, að þetta eigi að koma til framkvæmda einmitt nú við útreikning skatts á þessu ári, sem miðast við tekjurnar á s.l. ári.

Ég veit, að því er borið við, að það sé ekki orðið hægt um vik að samþykkja breytingu eins og þessa, vegna þess að hún kalli á aukavinnu hjá skattyfirvöldum, þar sem þau séu í ýmsum tilfellum búin að reikna með lægri persónufrádrætti, og því þurfi að fara í gegn um vel flest framtöl einstaklinga í landinu og breyta þar tölum. En hvort tveggja er, að ég dreg mjög í efa, að skattstofurnar séu allar búnar að vinna þetta verk, og þó að hér komi til nokkur aukavinna, þá álít ég, að hér sé um slíkt réttlætismál að ræða, að það sé ekki hægt að hafna því, eins og nú standa sakir.

Það hefur þegar komið fram hjá launafólki í landinu, sem nú býr við mjög ófullnægjandi launakjör og er óánægt með sinn hlut og gerir nú kröfu um verulegar launahækkanir, að það gerir einnig kröfu um það, að gildandi skattlagningarreglum verði breytt, því að það er augljóst mál, að eins og reglurnar eru nú, þá mundi kauphækkun verða tekin aftur til opinberra aðila að talsverðu leyti, ef persónufrádrátturinn verður ekki hærri en hann er nú í lögum með þeirri skattvísitölu, sem ákveðin hefur verið.

Þessi till. gerir því ráð fyrir bráðabirgðaráðstöfun í þessum efnum, aðeins við skattútreikning á þessu ári. Hins vegar hefur komið fram hjá hæstv. fjmrh., að hann gerir ráð fyrir nokkuð almennri endurskoðun á skattalöggjöfinni og að frv. um breyt. á skattal. verði lagt fyrir næsta þing, og þá er auðvitað opið að koma þar fram með till., sem varða persónufrádrátt, sem þá væri ætlað að standa til lengri tíma, en þessa bráðabirgðaráðstöfun tel ég rétt að gera, eins og nú standa sakir.

Ég verð að leggja fram þessa tillögu skriflega og óska því eftir því, að hæstv. forseti leiti eftir afbrigðum fyrir henni.