25.04.1970
Neðri deild: 82. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

220. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég er þeirrar skoðunar, að skattabyrðin hvíli nú þegar að allt of miklu leyti á herðum einstaklinganna sem skattþegna og að það sé miklu ríkari þörf á því að gera breyt. á tekju- og eignarskattsl. til þess að létta byrðar einstaklinganna en að hækka afskriftarreglur og auka þannig fríðindi þeirra félaga og fyrirtækja, sem eiga að greiða skatt. Ég tel alveg fráleitt að taka það eitt út úr tekju- og eignarskattsl. að létta enn á félögum og fyrirtækjum í landinu, vafalaust með það fyrir augum, að skattabyrðin verði þá enn þyngd og færð að meira leyti en áður yfir á herðar einstaklinganna. Ég held, að hér stefni alveg í öfuga átt, og ekki sé ástæða til þess að létta nú á félögum og fyrirtækjum með breyt. á l. um tekju- og eignarskatt í slíku góðæri sem við nú búum við. Þau hefðu vel mátt bera sinn hlut óskertan án þess, að það væri flutt sérstakt frv. um að taka þau ein út úr og létta á þeim, sem hlýtur að leiða til þess, að það verði enn þyngt á einstaklingunum.

Ég er því samþykkur þeirri till., sem hér var lýst, um að hækka persónufrádrátt hjá einstaklingum, því að það er sannfæring mín, að lágtekjumennirnir beri nú þegar allt of mikinn hluta af skattabyrðinni. Ég mæli með samþykkt þessarar till., en mun greiða atkvæði á móti þessu frv. að till. felldri.