30.04.1970
Efri deild: 87. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

220. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef enga tilhneigingu til þess að halda hér uppi málþófi um þetta mál og enn síður vegna þess, að höfuðröksemdir okkar í minni hl. n. hafa komið mjög greinilega fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, þar sem ég get undirstrikað flest eða allt, sem hann sagði um þetta.

Ég álít, að það sé rétt, að þetta frv. sé ekki á nokkurn hátt frambærilegt, og raunar var það viðurkennt af frsm. hv. meiri hl. fjhn., að svo væri, þar sem hann sagði, að það hefði engin athugun fengið að fara fram á því, hvaða fjárhagslegar afleiðingar þetta hefði fyrir hið opinbera, ríki eða bæjarfélög, og engar slíkar upplýsingar væru tiltækar í rn. Hins vegar sló hann því föstu út í loftið, að hér væri um mjög óverulega hluti að ræða, sem nánast þýddu ekkert fyrir ríkið, en hefðu samt verulega þýðingu fyrir fyrirtækin. Ég verð nú að segja það, að þetta hefði nú þótt, bæði áður fyrr og á síðari tímum, heldur léleg rök hjá okkur stjórnarandstæðingum, því að þess eru ófá dæmin, að til þess sé vitnað, að við álitum ríkissjóðinn einhverja hít, sem aldrei verði þurrausin og ekkert þurfi að koma í staðinn. Auðvitað gefur það alveg auga leið, að hvort sem um minni eða stærri upphæðir er að ræða, verður eitthvað að koma í staðinn. Og samkv. þeirri reynslu, sem við höfum af skattastefnu ríkisstj., þá getur ekki verið um annað að ræða en auknar álögur á almenning í útsvörum eða öðrum beinum gjöldum, eða þá að áfram er haldið á söluskattsbrautinni, svo varhugaverð sem hún er að mörgu leyti.

Það er sagt, að þetta frv. sé einn liður í því að bæta samkeppnisaðstöðu fyrirtækja í sambandi við EFTAaðild, og auðvitað er það nauðsynlegur og fallegur tilgangur út af fyrir sig, því að við vitum, að þann aðstöðumun, sem þar kann að vera á milli, verður að jafna. Við getum ekki búizt við því, að íslenzk fyrirtæki búi við verri almenn kjör í heild en þau fyrirtæki, sem við okkur keppa á samkeppnismörkuðum.

En þá álít ég líka, að nauðsyn beri til að athuga ýmsa aðra þætti þessa máls. Í fyrsta lagi yrðu þá að liggja fyrir alveg óyggjandi upplýsingar um það, hvernig skattakjör fyrirtækjanna eru í samkeppnislöndunum. Það liggur ekki fyrir, og ég man ekki betur en ég hafi heyrt upplýst núna alveg einhvern síðustu dagana, að engin slík athugun lægi fyrir, þannig að út frá þessu sjónarmiði einnig er um það að ræða, að till. til stórbreytinga á skattaálagningu fyrirtækja er algerlega út í bláinn. Það kann að vera misminni í mér, en einhvern veginn situr það fast í mér, að í bók prófessors Guðmundar Magnússonar sé það mjög dregið í efa, að skattar á fyrirtækjum á Íslandi séu hærri en í nágrannalöndum.

Þetta kann að vera rangt, og þetta kann líka að vera misjafnt eftir löndum. Ég geri ráð fyrir því, en samt er talað um það, að um þetta atriði þurfi auðvitað, ef á að byggja á því sem aðaltilgangi frv. sem þessa eða annarra slíkra frv., að liggja fyrir alveg óyggjandi tölur, töflur og upplýsingar. Annars er ekki hægt að bera fram slík mál á þeim grundvelli.

Í þessu sambandi er auðvitað um margt fleira að ræða. Það er t.d. launakostnaðurinn, sem er hærri í öllum samkeppnislöndum okkar í EFTA en á Íslandi, nema ef vera skyldi Portúgal og Austurríki. Í öðrum löndum er launakostnaðurinn miklu hærri. Á þessu hefur ekki farið fram ítarleg athugun, svo að ég viti, en ég teldi alveg nauðsynlegt, að í sambandi við skattamálin og yfirleitt alla þessa samkeppni á milli EFTA-landanna og okkar í þessum efnum lægi fyrir fleiri en eitt athugunarsvið, áður en farið er að grípa inn í og breyta einu þeirra. Raunverulega má telja margt fleira en launakostnaðinn, þó að ég nefni ekki fleira.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það yrði nauðsynlegt að endurskoða fyrningarreglurnar, þó að engin EFTAaðild hefði komið til, þó að það væri að vísu aðalástæðan. Það væri vegna gengisbreytingarinnar. Nú væri endurkaupsverð tækja og húsbúnaðar og annars slíks miklu hærra, og þess vegna þyrfti að leyfa meiri afskriftir. Þetta kann að vera rétt, svo langt sem það nær, en við skulum þá um leið muna eftir því, að hér hafa verið gengisfellingar eftir gengisfellingar, án þess að nokkru væri þar um breytt. Í annan stað verður maður svo að gera sér grein fyrir því, hvað gengisfelling er. Höfuðtilgangur gengisfellinga er að færa til fjármuni og eignir í þjóðfélaginu, og þær miklu sviptingar, sem verða í sambandi við þær, koma auðvitað ákaflega misjafnt niður, og ef allir eiga að heimta sinn fulla rétt, fullar bætur fyrir þá tilfærslu, sem gengisfellingin leiðir af sér, þá sjá náttúrlega allir, að hún væri með öllu tilgangslaus. Það er eins og hver annar hlutur, að þeir fjárhagsaðilar, sem þar koma til og talið er nauðsynlegt að sé látið blæða, beri sitt tjón, en komi ekki til annarra og segi: „Ég vil fá allt mitt aftur.“ Hvaða áhrif hefði þetta t.d. á kaupgjaldið, ef verkalýðshreyfingin væri alltaf reiðubúin til þess og hefði til þess afl að heimta til sín alltaf jafnhátt kaupgjald, þrátt fyrir það, að genginu væri breytt. Og gildir þá ekki hið sama líka um aðra?

Ég held þess vegna, að þessi breyting verði ekki afsökuð sérstaklega með gengisfellingunum, þó að ég viðurkenni það hins vegar, að auðvitað er endurnýjunarkostnaður meiri núna en hann var fyrir þær.

Þá sagði frsm. meiri hl., að einn tilgangurinn væri sá að safna fé í sjóði, og verð ég nú þá að segja, þegar til þeirrar fullyrðingar hans er litið, að þetta munaði engu fyrir hið opinbera, en þetta eigi samt að stórbæta samkeppnisaðstöðu okkar við EFTA, bæta fyrir gengisfellinguna og gera fyrirtækjunum kleift að safna í sjóði, að við þær gagnstæðu röksemdir hljóti að vera eitthvað meira en lítið bogið.

Hv. ræðumaður sagði, að árið 1969 hefði ekki verið neitt veltiár, og hann sagði einnig, að hér væri um sáralitla fjármuni að ræða. Ég held þvert á móti, að árið 1969 hafi verið fyrir fyrirtækin almennt í landinu eitthvert mesta veltiár, sem upp hefur runnið. Ég hef um það fulla vissu, að t.d. einstök fyrirtæki í fiskiðnaði og þau ekki svo fá hafa skilað tugmilljóna gróða á þessu síðasta ári, sem varð þó þyngra fyrir launamenn en flest önnur. Það eru einmitt þau fyrirtæki, sem njóta núna alveg sérstaklega rúmra fyrningarreglna, sem ég tel alveg óraunhæfar. Hér þyrfti að breyta í öfuga átt við það, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, a.m.k. að einhverju leyti, og á ég sérstaklega við þau fyrirtæki í fiskiðnaði, flutningum á sjó og í lofti, þar sem fyrna má um 20%. Ég tel engan vafa á því, að einmitt þessar fyrningarreglur hafa átt sinn þátt, og hann ekki svo lítinn, í því að örva hér óraunhæfa og óhagkvæma fjárfestingu. Fyrirtækin hafa bókstaflega verið á spani við að kaupa nýjar eignir, þenja út eignir sínar, jafnvel algerlega að ástæðulausu, til þess að flýja undan sköttunum. Ég held, að miklu raunsærra væri að miða við raunverulegan endingartíma tækjanna, jafna þessu og dreifa fyrningunni á lengra og raunhæfara tímabil, en taka þá jafnframt, eins og oft hefur verið hér talað um sem stefnu hæstv. ríkisstj., meira tillit til raunverulegs endurkaupsverðs, þó að einnig í því efni telji ég, að fara verði með fullri gát, sérstaklega þegar um stórfyrirtæki er að ræða, sem hafa mjög mikinn endingartíma, eins og t.d. rafvirkjanir. Ég held, að ef farið væri eftir einhverjum venjulegum fyrningarreglum í þeim efnum og ætlazt til þess, að þau fyrirtæki söfnuðu sífellt í sjóði til þess að geta byggt upp ný orkuver t.d., þá værum við komnir út á hála braut, a.m.k. miðað við það fjármagn, sem þjóðin hefur yfir að ráða nú.

En þetta frv. er einfalt út af fyrir sig og ekki ástæða til þess að fara um það mörgum orðum. Það á að skera þvert yfir og leyfa 20–40% lækkun á öllum fyrningum, hvernig sem þær eru, hvort sem um er að ræða þau fyrirtæki, sem nú njóta algerra sérréttinda eins og sá atvinnurekstur, sem ég nefndi, eða önnur, sem áreiðanlega hefur verið mismunað og þyrfti sérstaklega að bæta, og á ég þar einkanlega við iðnaðinn. Ég hefði litið allt öðrum augum á þetta frv., ef það hefði eingöngu verið miðað við fyrningarreglur iðnaðarins, því að það er enginn vafi á því, að einmitt EFTA-aðildin krefst miklu meiri endurnýjunar, miklu meiri breytinga í vélakosti og búnaði í iðnaði en áður, og þar hefði verið sérstök ástæða til þess að gera ráðstafanir, jafnvel þótt ekki hefði verið unnt að framkvæma heildarendurskoðun. En það er ekki gert, heldur er forréttindaatvinnureksturinn látinn fá alveg nákvæmlega sömu lækkun.

Hv. frsm. minni hl. gerði svo hins vegar glögga grein fyrir því, hvernig þetta horfir við út frá sjónarmiði almennings, og ég vil bara segja, þó að maður fari nú ekki lengra út í þá sálma en hvaða sálræn áhrif það hefur á almenning, sem nú stendur í harðri launabaráttu, þegar það sýnir sig, að hæstv. ríkisstj. og Alþ. telja sérstakar ástæður til þess að hlynna að þeim fyrirtækjum í landinu, sem hafa haft mjög gott ár, eitt bezta veltiár síðari ára, en skattar og gjöld eru þyngd með næstum því hverri vikunni sem líður, á öllum almenningi. Slíkt hlýtur að hefna sín, og alveg tel ég óvíst, að þegar til þess er litið, verði nokkur hagnaður af þessu fyrir atvinnureksturinn í landinu.

Ég varð sannast að segja undrandi, þegar ég sá það og heyrði, að í hv. Nd. höfðu aðeins tveir þm., annar úr flokki Frjálslyndra og vinstri manna og hinn úr Alþb., greitt atkv. gegn þessu frv., sem sagt allir flokkarnir með tölu, svo að segja, greitt atkv. með því. Ég fagna því vissulega, að mér virðist, að hér sé annar bragur á í þessari d., og það teldi ég þó a.m.k. vera mannlegra, að einhverjir sýndu sig í stjórnarandstöðunni aðrir en þessir tveir Nd: menn, sem vildu ekki una því óréttlæti, sem hér á að framkvæma.