18.12.1969
Efri deild: 28. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

106. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um breyt. á l. um Bjargráðasjóð Íslands, sem liggur fyrir til 2. umr., hefur heilbr.– og félmn. haft til athugunar og mælir einróma með, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem n. flytur á þskj. 195. Ég sé raunar á nál., að þau mistök hafa orðið, að fallið hefur niður nafn eins nm., Axels Jónssonar, en hann hafði tekið sömu afstöðu til málsins og við aðrir nm.

Um frv. sjálft þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Hæstv. félmrh. kynnti efni þess rækilega, þegar frv. var lagt fram í þessari hv. d. og þarf ég engu við það að bæta. Hins vegar er rétt að skýra í stuttu máli þá brtt., sem n. flytur, en hún gerir ráð fyrir því, að þau lán, sem Bjargráðasjóður Íslands tekur til þess að endurlána vaxtalaust, skuli undanþegin stimpilgjöldum og ríkisábyrgðargjöldum. Þau lán, sem svo stendur á um, eru jafnan veitt aðilum, sveitarfélögum eða einstaklingum, sem orðið hafa fyrir áföllum af völdum náttúruhamfara, sem tryggingar taka ekki til og væri því með öllu óeðlilegt að hafa gjöld af slíkum lánum tekjuaukandi fyrir ríkissjóð og um leið til kostnaðarauka fyrir þá aðila, sem aðstoðarinnar þurfa við. Það er rétt að geta þess um leið, að þessi breyt. er ráðgerð í samráði við þær stjórnardeildir, sem málið snertir. Brtt. er flutt af heilbr.– og félmn., sem eins og áður sagði leggur einróma til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem er að finna á þskj. 195.