21.10.1969
Efri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Eftir að hafa kynnt mér það frv., sem hér liggur fyrir, vil ég lýsa ánægju minni yfir því, að það skuli vera lagt fram í því formi, sem það er, og í því skuli vera sá andi, sem hér má finna.

Þær umr., sem orðið hafa um stækkun og eflingu sveitarfélaganna í landinu, hafa löngum verið á þá lund, að ýmsir hafa viljað ganga til verks í því með valdboði og talið, að þessi breyting á sveitarfélögunum væri svo mikilsverð og sjálfsögð, að ekki væri í það horfandi, þó að hin ýmsu sveitarfélög í landinu kynnu að vera því andvíg.

Ég vil lýsa því strax sem minni skoðun, og er hún byggð á reynslu minni á sveitarstjórnarmálum úti í dreifbýlinu um langan tíma, að ég hef ekki þá trú á stækkun sveitarfélaganna, sem ýmsir virðast hafa. Og það, sem mér þykir eftirtektarverðast í öllum þeim umr., sem um stækkun sveitarfélaganna hafa orðið, þá virðist allt frumkvæði og tillögugerð til þess að stækka sveitarfélögin vera komin frá þeim sveitarstjórnarmönnum, sem starfa við stóru sveitarfélögin, en ekki þau litlu, sem á þó að bjarga með stækkuninni. Ég geri ráð fyrir því, að það, sem þarna hafi sitt að segja og valdi þarna miklu um skoðanir manna, sé spurningin um, hvað sé stórt sveitarfélag, því að það er fleira en eitt, sem verkar á það, hvort sveitarfélag er stórt eða smátt. Það er fleira en íbúatalan og útsvarsupphæðin. Það er líka hin landfræðilega stærð, og hún hefur geysimikið að segja. Það, sem ég hef óttazt í sambandi við það, ef einhliða ákvörðun væri tekin um sameiningu sveitarfélaga er það, að til yrðu ýmsir staðir í landinu, sem smám saman vantaði þá brjóstvörn, sem minni hrepparnir og sveitarstjórnir þeirra hafa verið þeim og munu verða, á meðan ekki verður breyting á.

Á sama hátt og ég lýsi ánægju minni yfir því, að frv. er úr garði gert eins og ég hef nú lýst, þá vil ég einnig geta þess, að mér sýnist, að það sé eðlilegt, að í frv. sé einmitt heimildarákvæði um það, að það megi sameina þá hreppa öðrum sveitarfélögum, sem maður getur ætlað eftir íbúatölunni, að naumast séu færir um að sinna venjulegum sveitarstjórnarmálum.

Þá er eitt, sem ég þykist hafa orðið var við og ég hef haft kunnugleika af í sambandi við starf mitt sem endurskoðandi sveitarsjóðsreikninga í mínu sýslufélagi, að það má heita alveg viðtekin regla, að í minni sveitarfélögunum er innheimtan miklu betri á sveitargjöldum en í þeim stærri. Ég segi ekki, að það standi nákvæmlega í sambandi við eða sé í hlutfalli við útsvarsupphæðirnar, en það liggur mjög nærri því, að svo sé. Ýmsir hafa talið, að það væri auðveldara með föstum skrifstofum og betri vélum á sveitarstjórnarskrifstofum að standa þannig að hlutunum, að innheimtan væri betri og fjárreiður í betra formi, en ég dreg mjög í efa, að þetta séu rök, sem mæli með þessu. Það er, að ég hygg, aðeins ein innheimta, sem hefur gengið betur hjá stærsta sveitarfélagi landsins en hjá hinum minni, og það er innheimta á barnsmeðlögum. Ég hygg, að það hafi verið í betra lagi hjá stærsta sveitarfélaginu en í hinum minni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða svo mjög um þetta frv, á þessu stigi, en ég vildi láta þessa skoðun mína koma hér fram við 1. umr. málsins. Ég er sannfærður um það, að ef horfið er að því ráði að stækka sveitarfélögin skilyrðislaust, gera t.d. hverja sýslu að einu sveitarfélagi, eins og alveg eins mætti láta sér detta í hug eins og aðra skiptingu, þá er ég sannfærður um það, að við þurfum á augabragði að deildarskipta því sveitarfélagi vegna ýmissa sérmálaflokka, og þess vegna hefur það alltaf verið nokkur spurning í mínum huga, hvort heldur á að hafa samvinnu á milli smærri sveitarfélaga um tiltekin stórmálefni eða deildarskipta stórum sveitarfélögum um þau málefni, sem hljóta að verða sérmál á takmörkuðum svæðum.