22.01.1970
Efri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég tala nú raunar hér sem 2. minni hl. í hv. þd., sem um þessi mál fjallaði, enda þótt ég hafi vanrækt að bera fram sérstakt nál. Ég tel þess vegna nauðsynlegt, að ég skýri afstöðu mína til málsins með örfáum orðum. Ég get að vísu sparað mér langa ræðu, vegna þess að ég get út af fyrir sig samþykkt flest af því, sem hv. frsm. fyrri minni hl. sagði hér um þetta mál.

En það, sem skilur á milli okkar, er það, að ég dreg þær ályktanir af því, sem við erum þá sammála um, að fella beri þetta frv., en hv. 1. minni hl. hefur hins vegar farið þá leið að flytja svo víðtækar brtt. um málið, að raunverulega stendur þar ekkert eftir, ef þær ná samþykki. Þetta er meginmunurinn á okkar afstöðu.

Það, sem ég tel, að sé meginefni þessa frv., og er reyndar auðsætt, er það, að hér á að fara þá óvenjulegu leið að lögfesta skyldu tiltekins rn. til þess að ráða mann í tiltekið starf, sem undir öllum eðlilegum kringumstæðum tilheyrir rn. og því ber að sinna samkv. gildandi lögum, eins og hv. frsm. 1. minni hl. n. benti hér á. Meginefnið er sem sagt það að stofna nýtt embætti sérstaks erindreka á vegum félmrn., sem eigi að hafa það verksvið að eiga frumkvæði um athugun á skilyrðum fyrir sameiningu sveitarfélaga um land allt. Þessi erindreki á síðan bæði að vera eins konar ráðunautur sveitarfélaganna um margt, sem að þessum málum snýr, og jafnframt á hann að vera fulltrúi m. gagnvart sveitarfélögunum. Hann á sýnilega að þjóna þarna algerlega tveimur herrum, sem kannske kemur ekki svo mjög að sök, en játa verður þó, að hér er um mjög óvenjulega skilgreiningu á fulltrúastarfi að ræða, því að auðvitað getur það komið fyrir, að sveitarfélög þurfi að sækja mál á hendur rn. og öfugt, og virðist þá vera ákaflega einkennilegur háttur, að ekki sé dýpra tekið í árinni, að sami maðurinn eigi að vera fulltrúi beggja aðilanna.

Enn fremur er það svo í frv., að gert er ráð fyrir því, að komið sé upp heilmiklu nefndabákni, sem sveitarstjórnum er skylt að setja á fót, hvort sem þær hafa áhuga á því eða ekki, þ. e. a. s. ef þessum tiltekna sérstaka erindreka þóknast að eiga að því frumkvæðið.

En það er ýmislegt fleira, sem manni þykir alleinkennilegt í þessu frv., eins og það, sem hér hefur verið komið inn á áður, að þessi sérstaki erindreki geti ákveðið á eigin spýtur að láta fara fram atkvgr. í sveitarfélagi um sameiningu, þó að till. um sameiningu hafi engan stuðning hlotið frá neinum hlutaðeigandi sveitarstjórnarmanna. Og þá er honum gefið vald til þess að ákveða einn stað og stund til slíkrar atkvgr.

En þrátt fyrir það, að honum sé nú í þessu efni gefið mikið vald, ef hægt er að sjá fyrir, hvað af leiddi, þá verður þó ekki sagt, að valdsvið hans að öðru leyti sé ýkjamikið og raunar ekki líklegt, að þessi skipan mála valdi sérstaklega miklum breytingum. Mér sýnist, að hér sé raunverulega um það að ræða að lögfesta eins konar trúboðsstarfsemi til framdráttar þeirri skoðun höfunda frv., að sem víðtækust sameining sveitarfélaga horfi til hagsbóta og umbóta, væntanlega fyrir íbúa sveitarfélaganna alfarið. Í grg., sem frv. fylgir, er hins vegar engan rökstuðning að finna fyrir þessari skoðun, þó að ég telji nú að vafalaust megi finna fullyrðingu í þá átt einhvern stað í einstökum tilvikum. En það hefur a. m. k. ekki verið séð nein ástæða til þess af hálfu n. að kynna a. m. k. í grg. þau rök, sem hún þarf þó að hafa í fórum sínum varðandi þetta atriði.

Það er líka athyglisvert, að grundvallarhugsunin í þessu frv. á að vera sú að efla sveitarfélög. En hins vegar hafa þeir, sem um það hafa fjallað, ekki komið auga á neina aðra leið en stækka umdæmin landfræðilega og íbúafjöldann. Það er sem sagt mjög trúarkennt, sýnist mér, allt, sem að þessu lýtur, og lítið reynt að finna því stað í raunveruleikanum. En stefnan, sem kemur í ljós af grg., er þó sú, að það eigi að gerbreyta sveitarstjórnarkerfinu í landinu og í svo ríkum mæli, að sveitarfélögunum verði fækkað úr nokkuð á þriðja hundrað, sem þau nú eru, og aðeins í rúmlega 60. Þetta telja frv: höfundarnir, n., sem að þessu vann, — ég vil segja án rökstuðnings, — að muni reynast til mikilla bóta, en n. telur á hinn bóginn ekki rétt að lögfesta þessa nýju og góðu skipan, sem hún stefnir að, heldur á að láta þessa trúboðsstarfsemi, sem ég svo nefni, þessa sérstöku erindreka nægja a. m. k. í bili.

N. kemst að þeirri niðurstöðu, að kostnaður af þessu verði ekki umtalsverður, og því ætti engum að vaxa hann í augum. En ég tel þó, að hér sé alveg vafalaust um að ræða milljóna- eða jafnvel milljónatugakostnað, a. m. k. ef litið er til lengri tíma, enda kemur sú skoðun greinilega fram í nál., að árangur muni verða mjög torsóttur með starfi þessa erindreka. Þar segir, að það muni vera e. t. v. hægt að sjá það á tveimur til þremur árum, hvort eitthvað miði í þá átt, sem stefna skal í.

Ég vil nú endurtaka spurningu hv. frsm. 1. minni hl.: Hvað er „fyrst um sinn“ í þessu efni? Hlýtur það ekki að vera nokkuð langur tími, jafnvel áratugir? Og er þá ekki alveg óþarfi að vera að hafa þetta „fyrst um sinn“, gefst þá ekki löggjafarsamkomunni nægur tími til þess, ef henni sýnist, að breyta þessu ákvæði og fella þetta niður? Er þetta „fyrst um sinn“ tvö til þrjú ár eða kannske bara nokkrir mánuðir, eða er það t. d. hálfur áratugur eða einn áratugur? Þessi brtt. er auðvitað ákaflega hjákátleg í alla staði og tæpast frambærileg af þeirri einföldu ástæðu, að þessu er auðvitað hægt að breyta. Það er aðalatriði málsins. Hvort á að breyta eða hvaða háttur verður hafður á eftir mörg ár, ráðum við kannske minnst um, sem hér erum staddir nú.

Hvað kostnaðinn áhrærir, sem ég tel, að sé nokkurt atriði, þar sem ekki eru meiri vonir í sambandi við frv. ákvæðið en hér er sagt af höfundum frv., þá sýnist mér, að hann skipti nokkru máli. En í því sambandi vil ég álíta, að samstarfsnefndirnar muni líka kosta eitthvað, og loks gerir frv. ráð fyrir því, að heimilaðar verði greiðslur úr jöfnunarsjóði sveitarfélaganna sameiningarmálunum til framdráttar. Það kann að vísu að vera, að sá kostnaður mundi ekki standa í sambandi við sameininguna. En vafalaust gætu sameiningarmálin, ef þau væru fast sótt af félmrn. og erindreka þess, beinlínis valdið því, að þarna þyrftu að koma til mjög verulegar greiðslur. Mér þykir þess vegna sýnt, að hér geti verið um að tefla stórar fjárupphæðir, sem e. t. v. væru betur komnar annars staðar í nytsöm málefni en í alls óvísan árangur tilrauna af því tagi, sem hér ræðir um og enginn gæti fullyrt um, að yrðu til bóta á nokkurn hátt.

Það er skoðun mín, eins og reyndar þeirra, sem hér hafa talað á undan mér, að það sé rétt, að fámenni sveitarfélaga geti að sjálfsögðu verið ýmsum vandkvæðum bundið, a. m. k. í vissum tilvikum, og það geti orðið til örðugleika í starfi sveitarstjórna. En þá verður jafnframt að benda á það, að gildandi lög um sveitarstjórnarmál opna alla möguleika á sameiningu sveitarfélaga, þegar til slíkra vandræða dregur, og þar þarf auðvitað ekkert um að efast, að slíkt rekur til frumkvæðisréttar aðila til sameiningar í stærri heildum, þegar slíkt ástand skapast. Sá möguleiki, að löggjafarvaldið grípi hér inn í, er svo að sjálfsögðu alltaf fyrir hendi, eins og við höfum dæmi um og þau ekki gömul. En ég tel alveg jafnaugljóst, að mikil eða jafnvel stórfelld landfræðileg stækkun sveitarfélaga geti engu síður valdið miklum erfiðleikum og sérstaklega, að því er varðar samskipti íbúa sveitarfélaga við sveitarstjórnir og stofnanir þeirra. Er það að mínu viti bæði gömul og ný saga, að dreifbýlisfólki reynist oft löng leið til keisarans, og alveg er ástæðulaust að bæta þar á. Það eru tálmanir á þeirri leið, sem margir verða að brjóta, og ég álít líka, að það sé mála sannast, að stærð og íbúafjöldi sveitarfélaganna hafi í raun og veru ekki reynzt neinn mælikvarði á það, hvernig störf sveitarstjórnarmanna fara þeim úr hendi. Það er að vísu vafalaust, að í fámennum sveitarfélögum getur orðið tilfinnanlegur skortur á hæfri félagslegri forustu, en það þarf ekki alltaf að vera. Þess í stað geta slík störf verið og eru leyst prýðilega af hendi í mjög fámennum sveitarfélögum, þar sem nægileg og góð félagsleg forusta er fyrir hendi. En ef hún brestur, þá skapast auðvitað vandkvæði, sem taka ber tillit til.

Niðurstaða mín er því sú í stuttu máli, að allt of veikar stoðir haldi uppi því frv.-efni, sem hér er á ferðum, til þess að veruleg útgjöld því til framdráttar verði réttlætt, allra sízt nú, þegar fjármálaástandið er örðugt og fjöldi knýjandi framfara- og framkvæmdamála liggur í láginni vegna fjárskorts. Ég tel enn fremur, að óbreytt skipan þeirra mála, sem hér ræðir um, megi að ósekju haldast um sinn, a. m. k. þar sem einhver áhugi og vilji þeirra sveitarstjórna, sem í örðugleikum kunna að vera vegna fólksfæðar, leiði til sameiningarfrumkvæðis af hálfu þeirra sjálfra. Ég held, að það sé alveg hárrétt, sem hv. frsm. 1. minni hl. n. sagði hér, að íbúar hreppsfélaganna vita bezt sjálfir, hvar skórinn kreppir.

Það er viðurkennt af þeim, sem flytja þetta frv., að þessi áhugi sé óvíða eða jafnvel hvergi fyrir hendi, eins og nú standa sakir, og sýnist mér það vera glögg sönnun þess, að engin ástæða sé til þess að samþykkja þetta frv.

Ég vil svo að lokum segja það, að út af fyrir sig gæti ég fallizt á að samþykkja allar brtt. hv. 1. minni hl., en tel, að þar sé í raun og veru um sjálft frv.-efnið að ræða, og mér finnst þess vegna hreinlegra að taka þá afstöðu að vera hreinlega á móti frv., en tel það hins vegar skipta höfuðmáli, hvort frv. er fellt eða till. hv. 1. minni hl. samþ.