22.01.1970
Efri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þær aths., sem fram hafa komið frá talsmönnum minni hl. í sambandi við þetta mál.

4. þm. Norðurl. e. taldi eðlilegast að fella frv. Ég tók það fram í framsöguræðu minni, að meira að segja sveitarstjórnarmenn, hvað þá aðra, greini stórlega á um það, hvort gera eigi tilraunir til breytinga á þeirri sveitarstjórnarumdæmaskipun, sem í landinu er, og þar af leiðandi hlusta ég á raddir allra sveitarstjórnarmanna sem annarra í því efni og veit, að hver og einn getur fært fram fyrir því nokkur rök.

Hvort það verður lesið út úr frv., að það sé trúboðsstefna þeirrar n., sem það samdi, að fækka og stækka sveitarfélögum, það vil ég nú ekki taka undir, þó að þar séu settar fram vissar hugmyndir af þeirra hálfu. Ég tók fram í framsöguræðu minni, að ég er algerlega andvígur allri lögþvingun í því efni. Áhugi á sameiningu sveitarfélaga þarf að koma innan frá. Ég nefndi dæmi máli mínu til sönnunar um það, að með auknu samstarfi sveitarfélaga, sem enn hefur ekki leitt til samruna þeirra, hefur náðst meiri árangur en áður var, og eins og ég tók fram, hvort það mundi síðan leiða til enn frekari samvinnu og að lokum sameiningar, því á reynslan eftir að skera úr.

Þeim varð og báðum, 4. þm. Norðurl. e. og 4. þm. Sunnl., tíðrætt um, að ákvæði varðandi erindrekann væri ekki skýrt markað, þ. e. að félmrn. eftir till. okkar, meiri hl. heilbr.- og félmn., ræður fyrst um sinn sérstakan erindreka. Hv. 3. landsk, hefur skýrt það mál frekar, að það væri mjög óeðlilegt að setja inn í lagafrv. ákvæði um það, að þetta skyldi vera eitthvert framtíðarstarf. Það væri einnig óeðlilegt að binda það við tiltekinn árafjölda. Við, sem höfum trú á því, að það sé nauðsynlegt að fórna í það nokkrum fjármunum og tíma að gera ítarlega athugun á aukinni samvinnu sveitarfélaga og jafnvel hugsanlegri sameiningu sveitarfélaga, viljum láta rn. vinna að því um nokkur ár, og það er a. m. k. mín persónulega skoðun og ég hygg, að ég tali þar fyrir munn allrar n. að það sé miklu vænlegra til árangurs í málinu, að það sé einn og sami maður, sem að því vinni, en ekki einn eða annar starfsmaður rn. Allt mundi það taka tíma jafnvel þótt einhverjir aðrir tilteknir starfsmenn rn. gerðu það í áhuga- og sjálfboðavinnu, þannig að ef menn á annað borð vilja láta þessa athugun fara fram til þess að kanna, hvort frekari samskipti, samvinna og hugsanlegur samruni sveitarfélaga geti átt sér stað, þá er eðlilegt að ráða til þess í tiltekinn tíma ákveðinn og sérstakan starfsmann.

Ég vék einmitt að þessu atriði í framsöguræðu minni, og það er grundvöllur þess, að inn í er sett brtt. um, að rn. verði heimilað fyrst um sinn að ráða í þetta sérstakan mann, vegna þess að við leggjum ríka áherzlu á það, að þannig náist meiri árangur í starfinu vegna þess, að það er okkar skoðun, og ég endurtek það enn á ný, herra forseti, að þetta mál sé svo stórt og þýðingarmikið, en hins vegar mjög vandasamt, að það sé nauðsynlegt að láta fara fram á þessu nokkra athugun enn um sinn.

Hv. 4. þm. Suðurl. ræddi um réttindi erindreka samkvæmt 5. gr. og komst efnislega þannig að orði, að heimamenn hafi áreiðanlega bezta þekkingu á málefnum héraða sinna og þar eigi meiri hl. að ráða. Ég tek undir allt í þessu, og þetta styður einungis það, sem ég hef haft sem rauðan þráð í gegnum ummæli mín í þessu, að áhuginn þarf að koma innan frá. En ég benti einnig á af biturri reynslu úr mínu nágrannasveitarfélagi, sem ég er vel kunnugur, að eitt lítið, — það er hægt að segja núna, — lítið deilumál, bygging eins félagsheimilis, var næstum því búið að kljúfa þann hrepp, en það tókst að afstýra því fyrir tilstuðlan friðsemdarmanna, að kæmi til hörkuatkvgr. innan þessa tiltölulega litla hrepps. Og ég vil segja, að það hefði verið hörmulegt, á hvorn veginn sem sú atkvgr. hefði farið, og endalokin síðan orðið þau, að meiri hl., hver sem hann hefði orðið, hefði ráðið í því máli. Nokkrum árum síðar, þegar nokkur kynslóðaskipti hafa átt sér stað í stjórn þessa hreppsfélags eins og annarra, þá er þetta mál sem betur fer að mestu gleymt og heyrir sögunni til, og allir geta verið sáttir núna. En ég nefni aðeins þetta sem eitt lítið dæmi um, að tiltölulega smá mál heima í héraði geta valdið, því miður, slíkum ágreiningi og deilum. Þó að það verði hins vegar aldrei á móti því mælt, að það sé eðlilegt, að meiri hl. ráði, getur vissulega komið til vissra vandræða í þessum efnum, þegar til þess þarf að taka.

Ég tók fram fyrr á fundi í þessari hv. d., að ég var fjarstaddur, þegar það mál var rætt, sem þá var til atkvgr., en ég vil, herra forseti, leyfa mér þó aðeins að víkja að því, því að málið er skylt. Það er sveitarstjórnarmál einnig. Það er varðandi sýslunefndir. Ég tel, að skipan sýslunefnda nú þjóni ekki þeim tilgangi, sem upphaflega var til ætlazt, og þjóni ekki þeim kröfum, sem til þeirra stofnana eru gerðar. Þetta er ekkert óeðlilegt. Með þeim breytingum, sem átt hafa sér stað í þjóðfélagi okkar, er ekki óeðlilegt að taka einmitt þessa skipan mála til endurskoðunar eins og margt annað. En ég endurtek einnig, að þessi mál eru byggð á margra alda skipan og ég vil segja á vissan hátt helg hefð komin hér á, þannig að málið er vandmeðfarið, og því þarf að leggja í þetta nokkra vinnu og einmitt sérstaklega fá að þessu mann, sem helgar því starfskrafta sína um stundar sakir, til þess að laða fram þær niðurstöður, sem líklegastar virðast vera, og síðan er þá að taka ákvörðun um það, hvort þar verði látið staðar numið og beðið um ár og áratugi ellegar ekki, eða hvort af því starfi leiðir samvinnu tiltekinna sveitarfélaga um einn eða annan málaflokk, eða hvort af þessu leiði samruna tveggja eða fleiri sveitarfélaga. Þessu á reynslan eftir að skera úr, en ég endurtek: Málið er svo þýðingarmikið, að það er sjálfsagt að sinna því, eyða til þess nokkrum fjármunum og tíma og gera á því ítarlegar athuganir.

Varðandi þau réttindi, sem erindreka eru af sumum talin færð upp í hendur varðandi það frv., sem hér er til umr., þá geta menn um það að vissu leyti deilt og haldið fram mismunandi skoðunum og skilningi í því. Hvað sem öllu því líður, treysti ég fyrst og fremst á það, að til þessa starfs veljist hæfur maður, og því aðeins nær hann nokkrum árangri í því starfi, sem hér er um að ræða, að hann hafi skilning á því málefni, sem við er að eiga.

Herra forseti. Að lokum vil ég aðeins vitna til 31. gr. sveitarstjórnarlaga, en þar segir svo í upphafi gr., ég hef hana því miður ekki alla:

„Rétt er hreppsnefnd að boða til almenns sveitarfundar um málefni sveitarfélagsins, og skylt,“ — ég endurtek: „og skylt, ef 1/4 hluti atkvæðisbærra manna í hreppnum óskar þess.“

Þannig að sem betur fer eru þó í sveitarstjórnarlögum minni hl. tryggð nokkur réttindi til þess að geta knúið hreppsnefnd, þó að hún vilji það ekki, til þess að halda fund og koma þá sínum málum á framfæri, og ég vildi sjá framan í þá sveitarstjórnarmenn, sem eftir sem áður gengju gegn vilja hreppsbúa, sem þannig væri augljóslega fram færður.