05.03.1970
Neðri deild: 55. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það mun mega kalla upphaf þessa frv., að hæstv. þáv. félmrh. skipaði hinn 27. maí 1966 níu manna n. Hlutverk n. skyldi vera samkv. erindisbréfinu að endurskoða skiptingu landsins í sveitarfélög með það fyrir augum að sameina sveitarfélögin, einkum hin smærri þeirra, og stækka þau þannig. Og jafnframt var n. samkv. sama erindisbréfi ætlað að athuga, hvort ekki væri rétt að breyta sýsluskipuninni með það fyrir augum að taka upp stærri lögbundin sambönd sveitarfélaga en sýslufélögin eru nú.

Eftir því, sem fram kemur í skýrslu n., sem kölluð hefur verið sameiningarnefnd sveitarfélaga, að ég ætla, þá hefur n. lítinn gaum gefið öðrum meginhluta verkefnisins, þ. e. a. s. að gera athuganir á sýsluskipuninni með það fyrir augum að taka upp stærri lögbundin sambönd sveitarfélaga en sýslufélögin eru nú, og ekki skilað um það efni neinum till., svo að ég hafi orðið var við. Hins vegar hefur hún samið frv. það um sameiningu sveitarfélaga, sem hér liggur nú fyrir til 1. umr. í þessari hv. d., en hefur áður hlotið meðferð í hv. Ed.

Það hefur mjög verið haft á orði í sambandi við skipun n., sem ég gat um áðan, og nú síðast í framsöguræðu hæstv. félmrh., að sameining sveitarfélaga hér á landi sé talin æskileg, sérstaklega vegna hinna minnstu sveitarfélaga. Þeim sé í raun og veru ofraun að vera sjálfstæð, einkum fjárhagslega, á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í sveitarstjórnarl., og þess vegna þurfi vegna þessara sveitarfélaga alveg sérstaklega að gera hér breytingu á.

Nú veit ég ekki, hvort stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga eða félmrn. hafa borizt einhverjar raddir í þessa átt frá hinum minni sveitarfélögum eða frá sýslunefndum, sem þau eru þátttakendur í, en hitt kom mörgum einkennilega fyrir sjónir, þegar þessi níu manna n. var skipuð árið 1966, að í henni skyldi enginn fulltrúi vera frá þessum sveitarfélögum, minnstu sveitarfélögunum í landinu, þar sem þó var látið í veðri vaka, að unnið væri að þessu máli sérstaklega þeirra vegna. Það hefði þó sýnzt eðlilegt, að t. d. einhverjir sveitarstjórnarmenn úr þessum sveitarfélögum, sem talið var, að væru svona illa stödd, yrðu til kvaddir til þess að segja frá sínum erfiðleikum og vera með í ráðum um breytingarnar.

Þessi níu manna n. var skipuð á þann hátt, að í henni voru, og eru víst enn, í fyrsta lagi fjórir embættismenn úr Reykjavík. Í öðru lagi voru þarna tveir bæjarfulltrúar úr einum kaupstað á Vesturlandi, og mér er ekki kunnugt um það þó, að í þessum kaupstað sé sérstakur áhugi á þessu sameiningarmáli, og mér er nær að halda, að í þeim till., sem hér liggja fyrir, nál., sé ekki gert ráð fyrir sameiningu hreppa við þennan kaupstað. Ég bið afsökunar, ef mig misminnir um þetta. En úr þessum kaupstað voru tveir bæjarfulltrúar skipaðir til þess að athuga þetta sameiningarmál, þetta nauðsynjamál hinna fámennu sveitarfélaga, sem talið var. Í þriðja lagi var í n. skipaður einn sýslumaður, sem búsettur er í fjölmennu kauptúni hér nærlendis, og bæjarstjóri í kaupstað á Austurlandi og loks einn oddviti úr sveitarhreppi, en sá hreppur er engan veginn einn af minnstu sveitarhreppunum, ekki einu sinni einn af hinum minni, heldur a. m. k. meðalhreppur, og ég hygg ekki, að í þeim hreppi, sem er á Suðurlandi, hafi menn verið í neinum vandræðum fjárhagslega eða átt erfitt með að vera sjálfstætt sveitarfélag. Ég hef ekki heyrt þess getið.

Nú vil ég ekki kasta neinni rýrð á þá ágætu menn, sem skipaðir voru í þessa n. og hafa unnið þar störf. En mér og mörgum öðrum kom þetta ákaflega einkennilega fyrir sjónir. Í fyrsta lagi, að því skyldi vera haldið fram, að aðalrökin fyrir því starfi, sem þarna átti að vinna, væru erfiðleikar hinna fámennari sveitarfélaga í landinu, og að svo skyldi n. vera skipuð þannig, að enginn maður, sem er sérstaklega viðriðinn stjórn þessara sveitarfélaga, skyldi vera látinn taka sæti í n. Mér hefði ekki þótt það óeðlilegt, að þarna hefði verið a. m. k. einn fulltrúi úr einhverju því sveitarfélagi, sem nú er sérstaklega gert ráð fyrir með frv. að leggja niður með valdi. Ég veit ekki, hvernig á því stendur, að n. er svona skipuð. Og ég vil ekki varpa sök af því á hæstv. félmrh., sízt á núv. félmrh., sem ekki var félmrh., þegar þetta gerðist, og ekki sérstaklega á félmrn., sem skipaði n. samkv. tilnefningum að mestu leyti. En þarna hefur e. t. v. ekki tekizt vel til hjá félmrn., að það skyldi haga tilnefningum þannig, eins og það gerði, þar sem aðilar vissu yfirleitt ekki hver af annars tilnefningu, og ekki hefur heldur tekizt vel til hjá þeim, sem tilnefningarnar önnuðust.

Mér virðist, að þetta sýni það, að þeim, sem að þessari nefndarskipan hafa staðið, hafi ekki verið eins rík í huga vandræði hinna minnstu sveitarfélaga og látið hefur verið í veðri vaka, heldur komi hér eitthvað annað til, og í umr. í fyrradag var vakin athygli á því af einhverjum ræðumanni, að náttúrlega gæti þetta verið hagræði fyrir embættismenn að sameina sveitarfélögin, sýslumenn e. t. v. og fyrir félmrn. e. t. v., kannske fyrir Samband ísl. sveitarfélaga og embættismenn þess, og það má auðvitað á það líta, hvað sé hagræði fyrir þá. En ef er um að ræða að koma hér á ákveðinni hagræðingu fyrir embættismenn, þá á að segja það og láta það uppi sem meginástæðu þessa máls, en ekki segja, að hér sé verið að vinna að þessu fyrir fámennustu sveitarfélögin, ef þau hafa ekki óskað þess, og úr því að ekki þótti ástæða til þess að láta þau eiga neina sérstaka fulltrúa í þessari n., sem þó átti að fjalla um vandamál þeirra. En ég get fullvissað hæstv. félmrh. og hv. þm. um það, að þessi nefndarskipun árið 1966 kom mörgum mjög undarlega fyrir sjónir, sérstaklega í þessum sveitarfélögum, ekki af því, að menn hefðu eitthvað út á mennina að setja persónulega, sem skipaðir voru, heldur aðferðina, hvernig þeir voru valdir.

Núgildandi sveitarstjórnarlög, sem kveða á um skiptingu landsins í sveitarfélög, eru frá árinu 1961, e. t. v. með einhverjum viðbótum, sem ekki skipta máli hér. Og í þessum lögum eru ákvæði um sameiningu sveitarfélaga. Í 4. gr.l. segir:

„Rn. skal sameina hreppa, þegar þess er óskað af hlutaðeigandi hreppsnefndum, ef sýslunefndin mælir með því. Með sömu skilyrðum er rn. heimilt að breyta hreppamörkum, sbr. þó 7. gr.

En 7. gr. fjallar um skiptingu hreppa og hljóðar svo: „Rn. getur skipt hreppi samkv. beiðni hreppsnefndar, að fengnum meðmælum sýslunefndar, enda verði íbúatala hvors hrepps, eftir að skipt hefur verið, eigi lægri en 200. Rn. ákveður hreppamörk, þegar skipt er samkv. 1. mgr. þessarar gr.

Ég ætla, að þessi ákvæði, sem nú standa í lögum frá 1961, hafi fyrr verið í lögum, séu eldri en það, og sömuleiðis ákvæðin í 7. gr. um skiptingu hreppa. Enn fremur eru í lögum ákvæði, sem hér var minnzt á í fyrradag, þess efnis, að rn. geti lagt niður eða sameinað öðrum fámennustu hreppana, en að tilskildu samþykki sýslunefnda.

Hver hefur svo orðið framkvæmd þessara lagaákvæða um sameiningu hreppa og um skiptingu hreppa eða yfirleitt framkvæmdin í þeim málum, hvort sem það var fyrir eða eftir setningu þessara ákvæða? Í stuttu máli sú, að mörg hreppsfélög hafa á síðustu áratugum notað skiptingarheimildina, þ. e. a. s. hreppum hefur verið skipt í tvo hreppa og jafnvel í þrjá hreppa. Ég held ég muni það rétt, að einum hreppi í Rangárvallasýslu hafi fyrir nokkuð löngu verið skipt í þrjá hreppa. Þessi skipting hefur einkum átt sér stað, þegar svo stóð á, að í sama hreppi var annars vegar kauptún, hins vegar sveit. Þá hefur kauptúnið verið gert að sérstökum hreppi.

Þessi þróun er ekki út í bláinn. Þessi skipting er til komin vegna þess, að það sýndi sig á ýmsum stöðum, að það gat valdið ágreiningi milli kauptúnsins og sveitarinnar í sama hreppi, að sveitarstjórnin, hin sameiginlega sveitarstjórn, þurfti að fjalla um mál, sem annaðhvort voru eingöngu mál kauptúnsins eða eingöngu mál sveitarinnar. Og þegar þorpin fóru að vaxa, eins og þau hafa verið að gera á þessari öld, komust menn að raun um, að það væri heppilegra, að kauptúnin væru hreppar út af fyrir sig. Ég held, að yfirleitt, a. m. k. þar sem ég þekki til, þá hafi reynslan orðið sú, að sambúðin milli kauptúns og sveitar hafi batnað við það, að hreppunum var skipt. Hreppsnefnd sveitarhreppsins fjallar um þau sérstöku mál, sem fyrir koma í sveitum. Hreppsnefnd kauptúnsins fjallar um þau mál, sem hér aðallega varða kauptúnið eða þorpið. Þarna þurfa þá engir árekstrar að verða, hver sér um sitt. Þetta er meginástæðan til þess, að svo mörgum hreppum hefur verið skipt, þótt það hafi ekki alls staðar verið svo, því að það hefur líka komið fyrir, að sveitarhreppum hafi verið skipt, a. m. k. í því tilfelli, sem ég nefndi áðan.

En hafa menn þá ekki líka notað þá heimild, sem er búin að vera í lögum síðan 1961 og raunar lengur, til þess að sameina hreppa? Nei, það hafa menn ekki gert. Ég man í svipinn ekki eftir neinu dæmi um það, að hreppar og sýslunefnd hafi notað sameiningarheimildina, nema einu nýju dæmi af Vestfjörðum, þar sem nú mun standa til eða a. m. k. vera í ráði að sameina Ísafjarðarkaupstað og Eyrarhrepp og atkvgr. hefur farið fram um það á báðum stöðunum, en ég veit ekki, hvort af sameiningu verður. Það hefur verið það mikið á dagskrá, að þarna hefur verið látin fara fram atkvgr.

Nú segja margir, að sveitarfélögin séu óeðlilega mörg, og ýmis rök færð fram fyrir því, að það geti verið hagkvæmt að sameina sveitarfélög, sérstaklega hin fámennari, og við fyrstu yfirsýn kann mönnum að virðast, ekki sízt þeim, sem eru ókunnugir rekstri sveitarfélaganna, að þetta sé mjög eðlilegt. Og ég vil ekki neita því, að það kunni að verða eðlilegt í framtíðinni, að einhver sveitarfélög sameinist. Ég skal engan dóm á það leggja. En hvers vegna hafa sveitarfélögin ekki viljað sameinast? Hvers vegna hafa hreppsfélögin ekki notað sér þær sameiningarheimildir, sem verið hafa í lögum um áratugi? Og hvers vegna hafa sýslunefndir ekki notað lagarétt sinn til að mæla með því við félmrn., að sveitarfélög, sem hafa um eða yfir 100 íbúa, verði sameinuð öðrum sveitarfélögum? Hvers vegna? Það er langt síðan farið var að ræða um þetta sameiningarmál, eins og lagaákvæðin gefa til kynna, gildandi lagaákvæði, og síðan n. var skipuð á árinu 1966, hefur þetta verið stöðugt á dagskrá. Á þessum fjórum eða fimm árum, sem sameiningarnefndin hefur starfað, hefur hún staðið í bréfaskiptum við sýslunefndir og haldið fundi með sveitarstjórnum hér og þar, eins og skýrslan ber með sér, en samt hefur ekki heldur á þessu tímabili eitt einasta sveitarfélag, nema þá þessi tvö sveitarfélög fyrir vestan, ef úr verður, óskað eftir sameiningu á grundvelli gildandi laga.

Og þá er ástæða til þess, að við spyrjum okkur sjálf: Hver er ástæðan til þess, að óskir um sameiningu koma ekki fram, þá sameiningu, sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum? Ég get auðvitað ekki svarað þessu fyrir hönd sveitarfélaganna. Það getur enginn nema þau sjálf. En ég geri mér í hugarlund, að ástæðurnar kunni að vera fleiri en ein. Ég þykist hafa orðið þess var, að mörg sveitarfélög telji það a. m. k. ekki liggja í augum uppi, að sameining verði þeim til framdráttar, jafnvel þó að þau séu fámenn.

Ríkisvaldið sjálft hefur fyrir löngu gefið sveitarfélögunum fyrirmæli um að fara aðra leið, þ. e. a. s. leið samstarfs, en ekki sameiningar. Það hefur verið gert t. d. í sambandi við byggingu tæknisbústaða og sjúkraskýla í tæknishéruðum. Það hefur verið gert í sambandi við héraðssjúkrasamlög, sem nú er búið að lögbjóða, og í gildandi lögum stendur, að tvö eða fleiri sveitarfélög, sem hafa sameiginlega tilskilinn mannfjölda, geti sameinazt um sveitarstjóra. Sjálf hafa sveitarfélögin, þ. e. a. s. mörg þeirra, valið samstarfsleiðina til að koma upp skólahúsum og félagsheimilum, án þess að það hafi út af fyrir sig verið lögboðið. En hitt er lögboðið, sem ég nefndi áðan. Bændur í sveitum hafa komið upp samstarfsheildum hreppabúnaðarfélaga, þ. e. a. s. búnaðarsamböndum og ræktunarsamböndum, sem oft taka yfir marga hreppa. Slíkt samstarf virðist ganga nokkuð greiðlega, og ég hef ekki heyrt menn kvarta yfir því, að hið takmarkaða sjálfstæði sveitarfélaganna innan þessara samstarfsheilda sé til trafala. Þetta er félagsleg þróun byggð á nauðsyn, sem mönnum er ljós eða hefur orðið ljós, þegar tímar liðu.

Þau verkefni, sem eftir eru, sýnist mér, að hinir fámennu hreppar í sveitunum telji sig geta innt af hendi, og gæti þó þurft meira samstarf um fjallskilin, þar sem þau eru örðugust vegna fámennis. Þess er þá að gæta, að síðan almannatryggingar og ríkisframfærsla fólks með langvinna sjúkdóma var lögleidd, er hin eiginlega fátækraframfærsla miklu léttari fyrir sveitarfélögin en áður var, og sú fyrirhöfn hreppsnefndanna og oddvitanna, sem af henni leiddi, hefur mjög minnkað. Ég held, að fullyrða megi, að mikill fjöldi núverandi sveitarfélaga og þá ekki sízt hin fámennustu meti sjálfstæði sitt mjög mikils og að það hvetji menn til dáða og samhjálpar. Ég veit, að margir sveitarstjórnarmenn og þá ekki sízt oddvitar hreppsnefndanna leggja oft á sig mikla fyrirhöfn fyrir litla þóknun í þágu sveitarfélaga sinna eða sveitunga, og hin mörgu sveitarfélög hér á landi eru félagsmálaskóli á þann hátt, félagsmálaskóli, sem ekki ber að vanmeta, þar sem ábyrgð og reynsla lífsins eru skólameistari, sem ekki lætur að sér hæða. Þjóðfélagið hefur eignazt marga nýta menn úr þeim skóla fyrr og síðar, og geri þeir félagsmálaskólar, sem síðar kunna að verða stofnaðir, betur.

Tengsl fólksins við sveitirnar sínar eru sterk, jafnvel þeirra, sem eru farnir þaðan. Og ég held, að sumar fámennar sveitir haldist í byggð enn þá af því, ekki þrátt fyrir, heldur af því, að þær eru sérstakir hreppar, og ég hef heyrt á mönnum, sem eiga heima í fámennum hreppum, ótta um það, að sveitin þeirra yrði að líkindum hornreka í nýjum og stærri hreppi. Það er skiljanlegt, að menn hugsi svo. Gömlu sveitarfélögin eiga sína sögu og sínar minjar, sínar sameiginlegu minningar, sem tengdar eru við sveitarfélögin. Þau hafa þraukað af hallæri og þau hafa blómgazt í góðærum. Þau hafa unnið stórvirki á tækniöld, og þó að nú syrti í álinn, ala þau líka sínar vonir um, að þróunin geti breytzt þeim í hag og fólkinu fjölgað á ný. Ég er þeirrar trúar, að margar slíkar vonir muni rætast fyrr eða síðar, ef Ísland heldur áfram að vera sjálfstætt ríki. Ég held, að í margra augum tákni niðurlagning fámennra sveitarfélaga ótímabæra uppgjöf. Hagfræðilegar lausnir eru hér ekki einhlítar, þó að þær séu víða góðar. Tölvan, sem reiknar á við þúsund menn, er undursamleg. En hana skortir mannvit. Hún er tilfinningalaus hlutur. Það getur verið ábyrgðarhluti að brjóta niður hina mannlegu aflvaka í þjóðfélaginu, hvort sem það eru vonir eða vilji, ef það miðar til réttrar áttar.

Ég er, eins og ég sagði áðan, ekki að halda því fram, að ekki megi undir neinum kringumstæðum sameina sveitarfélög, en ákvörðun um það á að mínu viti að koma frá þeim sjálfum. Þegar þau biðja um hjálp til þess að losna við sjálfstæði sitt, mundi vera rétt að veita hana. En ég hef ekki komið auga á nauðsyn þess að knýja þessa sameiningu fram með valdboði ríkisins eða áróðri stjórnarvalda. Það var það, sem einhver ræðumaður sagði hér í gær, að þetta frv. væri í raun og veru ríkisáróður fyrir sameiningu sveitarfélaga, og það er það, sem það er, en í vissum tilfellum um heimild handa ráðh. til að sameina sveitarfélög móti vilja þeirra og móti vilja sýslunefnda. En við vitum það, að einhliða ríkisáróður er sterkur. Við vitum það af reynslu, innlendri og erlendri, og það er kannske hægt að buga andstöðu fámennra sveitarfélaga með slíkum áróðri, sem kostaður er af ríkisfé og haganlega undirbúinn af kunnáttumönnum. En ef menn fara út í það að beita slíkum áróðri með lagasetningu, verða menn að vera alveg vissir um, að nauðsyn beri til þess.

Ég skal nú ekki hafa um þetta miklu fleiri orð. En nú þegar við 1. umr. vildi ég mæla þessi almennu varnaðarorð í sambandi við þetta mál í heild. Ég ætla ekki að ræða mikið um frv. sjálft, eins og það liggur fyrir, enda hafa aðrir gert það, og get ég tekið undir sumt af því, sem þeir hafa sagt, hv. ræðumenn, sem tóku til máls í gær.

Sveitarfélögin hér á Íslandi eru nú 227 talsins, ef ég fer rétt með, kaupstaðirnir eru 14 og hrepparnir 213. Það er nú sitthvað, sem manni kemur í hug, þegar maður fer yfir manntalið og lítur yfir þessi 227 sveitarfélög, fólkstölurnar og fleira. Það kemur t. d. fram, að sumir staðir, sem teljast enn þá kauptún, eru fjölmennari en aðrir, sem hafa kaupstaðarréttindi og skal ég ekki ræða nánar um það. En í riti því, sem sameiningarn. sveitarfélaga hefur látið frá sér fara, er alllöng skýrsla um það, sem kallað er athugunarsvæði, en þessi skýrsla um athugunarsvæði er hugmyndir, sem settar eru fram um væntanlega skiptingu landsins í sveitarfélög, þ. e. að sveitarfélögunum verði fækkað úr 227 í 66. Mér er ekki alveg ljóst af skýrslunni, hvort n. gerir þessar till. eða hvort þær hafa verið gerðar af starfsmanni á hennar vegum sem tilraun eða hugmynd eingöngu, án þess að hana beri að skoða sem till. En ef úr því ætti að verða að sameina sveitarfélög, þá held ég, að það þyrfti að gera það á töluvert annan hátt og eftir öðrum reglum en þarna er gerð tilraun til. Ég held, að menn ættu t. d. ekki í löggjöf eða við skiptingu sveitarfélaga að brjóta alveg í bága við þá þróun, sem menn hafa séð fyrir sér á undanförnum áratugum. Við eigum ekki að gera till. um það, að sveitir og þorp verði sameinuð í hreppa, heldur miklu frekar, ef það telst nauðsynlegt, að sveitarhrepparnir sameinist innbyrðis, en að þorpin séu út af fyrir sig, því að reynslan sýndi þetta, að það var heppilegra fyrirkomulag, að þorpin væru sveitarfélög út af fyrir sig, þar sem þau voru talin vera nægilega fjölmenn til þess, og það er von mín að þorpin víðs vegar um land eigi fyrir sér að eflast að mannfjölda og á annan hátt.

Þetta sem fram kemur í grg., held ég að verði að teljast mjög athugaverð leið, og segi ég það til athugunar fyrir þá, sem að þessum málum kunna að vinna áfram, að áróðursvinnu á vegum ríkisins. Menn tala um það á ýmsum vettvangi, og m. a. minntist hæstv. félmrh. á það í framsöguræðu sinni, ef ég man rétt, að sveitarfélög í útlöndum væru fjölmenn og að í Danmörku eða annars staðar á Norðurlöndum væri nýlega búið að gera mikla skipulagsbreytingu í þessum efnum, þar sem sveitarfélögum hefði verið mjög fækkað. Það mun vera rétt. En það er ekkert gagn að því að vera að bera Ísland að þessu leyti og ýmsu öðru saman við önnur lönd, sem eru mörgum sinnum, jafnvel mörgum tugum sinnum fjölmennari en Ísland og þar sem staðhættir eru allt aðrir, lönd, þar sem ekki er til eitt einasta fjall, ekki einn einasti fjallvegur, sem skilur að byggðarlög, lönd, þar sem ekki er til nein stórá, sem aðskilur byggðir, og lönd, sem hafa samgöngur, sem eru allt annað en okkar samgöngur, þó að við teljum þær nú góðar, miðað við það sem áður var, steinsteypta eða malbikaða þjóðvegi og jafnvel hreppavegi. Við megum vara okkur á því að vera að fara út í slíkan samanburð. Hvaða stofnanir megum við hafa hér á Íslandi, ef við ættum að fara að miða við aðrar þjóðir og ef hér á að vera svipaður mannfjöldi á bak við hverja þjónustustofnun og þar er? Ég ætla ekki að nefna neitt dæmi, en ég held, að við verðum að líta á þessi mál út frá okkar eigin aðstöðu, út frá staðháttunum í okkar landi.

Eins og hv. þm. geta ráðið af þessu, sem ég hef nú sagt hér, hef ég ekki áhuga á því, að þetta frv. nái fram að ganga. Það er að vísu rétt, að það er ekki nema í fáum tilfellum, sem gert er ráð fyrir því, að sveitarfélögin verði sameinuð með valdboði, en það er þó til, og ef byrjað er á því, þá getur fleira komið í framhaldi af byrjuninni. Ef sveitarfélögin verða illa úti, vegna þess að þau eru sjálfstæð, svo illa úti, að þeim þyki það ekki viðunandi miðað við alla aðstöðu, þá geri ég ráð fyrir, að þau hafi frumkvæði um það sjálf að sameinast í stærri hreppa, alveg eins og þau hafa haft frumkvæði um að sameinast um stærri skólahverfi en þau, sem áður voru, og hér liggur ekki mjög mikið á.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að áróðurinn er sterkur. Áróður, sem ríkið sjálft stendur á bak við, er sterkur. Í ýmsum tilfellum getur hann nálgazt það að vera valdboð, enda ýmsar aðferðir, sem þá geta komið til greina til þess að sýna fátækum og fámennum sveitarfélögum fram á, að það sé hagstætt fyrir þau að hlusta á þennan áróður, sem ég efast ekki um að sé af góðum hug fram kominn, en mér fellur samt ekki í geð.