10.03.1970
Neðri deild: 57. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Ásberg Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. var að gera svar mitt til sameiningarnefndar sveitarfélaga 1966 tortryggilegt með því að lesa upp úr því og benda þar á, að ég lýsi þar yfir, að ég hafi ekki haft aðstöðu til þess að bera þetta mál undir viðkomandi sveitarstjórnir.

Bréfið barst á miðju sumri, eftir að sýslufundum var lokið, en ég vildi ekki bíða næsta vors með svar á þessu bréfi, af því að mér þótti málið forvitnilegt og merkilegt. Ég hafði átt þess kost að kynnast þróun sveitarstjórnarmála í Danmörku nokkru áður, og þar hafði raunin orðið sú, að í upphafi voru sveitarstjórnarmenn almennt mjög andvígir því að breyta sveitarstjórnarskipuninni, en innan 5–6 ára frá því þessum málum var hreyft, var það þannig, að það voru sveitarstjórnarmennirnir sjálfir, sem sóttu hvað mest á um það að mynda sífellt stærri og stærri einingar sveitarfélaganna. Ég svaraði þess vegna bréfinu, eftir að ég hafði talað við nokkra oddvita og heyrt í þeim hljóðið, og það var svona upp og ofan að vísu. T. d. í tveimur næstu hreppum við Patreksfjörð sögðu sveitarstjórnarmennirnir: „Við höfum ekkert á móti því að sameinast Patrekshreppi, en að sameina Rauðasandshrepp og Barðastrandarhrepp kemur ekki til mála.“ Þannig er sveitarígurinn. Hreppapólitíkin var svo mögnuð, að þeir vildu miklu frekar vera í samfélagi með kaupstaðnum en saman innbyrðis. En ég sé, að það hefur orðið þróun í þessum málum, því að ég hef hér fyrir framan mig skýrslu sameiningarnefndar af fundarhöldum fyrir vestan, og ætla mér — með leyfi forseta að lesa örstuttan kafla hér, það er fundur með hreppsnefndum Barðastrandarhrepps, Rauðasandshrepps, Patrekshrepps og Tálknafjarðarhrepps: Ritari lagði fram vélritaða frásögn af fundum með sveitarstjórnum á Vestfjörðum í ágúst. Í fyrsta tagi frá fundi á Patreksfirði fimmtudaginn 14. ágúst, kl. 16. Eftirtaldir hreppar áttu aðild að fundinum, og sátu hann allir hreppsnefndarmenn í viðkomandi hreppum. Tilgreind er íbúatala hreppanna 1. des. 1967: Barðastrandarhreppur 195 íbúar, Rauðasandshreppur 131 íbúi, Patrekshreppur 1027 og Tálknafjarðarhreppur 247, samtals 1600 íbúar. Fundinum stjórnaði sýslumaður Barðastrandarsýslu, Jóhannes Árnason. Till. um athugun á sameiningu hreppanna var samþ. með 16 shlj. atkv., einn sat hjá.

Hv. 1. þm. Vestf. var að gefa það í skyn, að ég vissi ekkert um hug manna fyrir vestan í þessum málum, og eins og ég hefði skrifað 1966, hefði ég ekki kynnt mér það. En ég sé a. m. k. af þessari samþykkt, að allir hreppsnefndarmenn þarna í fjórum hreppum í vestursýslunni tjá sig samþykka því að athuga þessi mál. Mér hefði sjálfum aldrei dottið í hug, að um svo víðtæka sameiningu gæti verið að ræða, og tel hana meira að segja hæpna. En ég hefði haldið, að það væri ekki óeðlilegt, og ég held, að ég hafi getið þess í skýrslu minni frá 1966, að Rauðasandshreppur og Patrekshreppur yrðu sameinaðir, Múlahreppur og Barðastrandarhreppur, eða hrepparnir sunnan og vestan við Klettsháls, og e. t. v. Flatey og þrír austustu hrepparnir, Geiradalshreppur, Reykhólahreppur og Gufudalshreppur. Ég var raunar á fundi með þessum hreppum í austursýslunni. Þar var einnig tekið undir það, að vísu ekki með neinum fögnuði eða stemmningu, að ræða þessi mál, en það eru þrjú ár síðan, en ég veit ekki, hvað hefur síðan gerzt. Hins vegar sé ég á þessari fundargerð, sem ég hef hérna lesið upp, að það er miklu meiri vaxandi skilningur á þessu en mig hefði nokkurn tíma grunað. Ég fagna því, og ég skammast mín ekkert fyrir að hafa sagt í þessu bréfi mínu 1966, að það þyrfti víðtækan áróður til þess að sannfæra menn um gildi stærri sveitarfélaga. Það er það, sem koma mun, og ég veit, að innan 5–6 ára munu sveitarstjórnarmennirnir vera þeir, sem telja, að mest hafi áunnizt, og mest munu fagna þeirri þróun.