27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er sammála hv. 4. þm. Norðurl. v., sem hér talaði áðan um, að það er mikilsvert, að fram er komin brtt: frá n. við 13. gr., og fleira er þar, sem miðar í rétta átt.

Hins vegar leyfi ég mér að vekja athygli á þeirri yfirlýsingu, sem hv. frsm. n. gat um áðan, þegar hann sagði, að meginatriði frv., eins og það yrði, ef brtt. yrðu samþ., sé stefnuyfirlýsing um, að haldið verði áfram að vinna að málinu eins og hingað til. Að málinu hefur verið unnið hingað til alla tíð, síðan sameiningarnefndin var skipuð, þannig, að send hafa verið út áróðursrit af ýmsu tagi fyrir því, að sveitarfélög verði sameinuð, og það hafa verið menn á ferð til að kalla saman sveitarstjórnir og íbúa hinna minni hreppa til þess að reyna að sannfæra þá um, að sameining sé sjálfsögð. Þetta er það, sem gert hefur verið. Og mér sýnist þessi yfirlýsing benda til þess, að þetta eigi að halda áfram. Ég er ekki andvígur því, að sveitarfélög séu sameinuð, ef það er vilji þeirra sjálfra að sameinast og hann kemur glögglega fram, almannavilji í sveitarfélögunum. En ég hef verið því mótfallinn, að ríkisvaldið haldi uppi áróðri fyrir þessu og reyni með slíkum áróðri að beygja lítilsmegandi sveitarfélög til hlýðni, ef svo mætti segja, við þá kenningu, sem hér er um að ræða, að sveitarfélög eigi að vera stór. Ef sveitarfélögin sannfærast um þetta, án þess að rekinn sé áróður af slíku tagi, þá er ég því fylgjandi, að þau ráði því að sameinast, þeim sé það heimilt, og að þau fái fyrirgreiðslu. Ef setja hefði átt ný lög um þessi efni, virðist mér, að þau hefðu fyrst og fremst átt að fjalla um form þeirrar fyrirgreiðslu, sem veitt væri af hálfu rn., þegar sveitarfélög hafa ákveðið að sameinast, en ekki um þessa áróðursstarfsemi, sem þrátt fyrir allt felst enn þá í þeim till., sem n. lætur frá sér fara. Hins vegar skil ég það vel, sem hv. frsm. sagði hér í byrjun, að hér hefur verið um einhvers konar samkomulag að ræða í n., og till. bera vott um það.