10.03.1970
Efri deild: 53. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta mál er mjög yfirgripsmikið, og mætti að sjálfsögðu tala um það langt mál, en það er ekki ætlun mín að gera það og ekki a. m. k. að svo stöddu að mæla fyrir sérstakri brtt., heldur aðeins með fáum orðum að leyfa mér að benda aðallega á eitt atriði, sem ég vænti, að hv. n., sem fjallar um þetta frv., taki til athugunar milli umr.

Frv. um þetta efni hafa legið fyrir þessari hv. d. á einu eða tveimur þingum áður a. m. k., og ég tel, að við meðferð málsins á undirbúningsstigi hafi þetta frv. tekið breyt. til bóta frá því, að málið var upphaflega sýnt hér á hv. Alþ.

Mér skilst, að meginstefnan í þessu frv. sé sú að taka skipulega á þeim verkefnum, sem ríkið leggur fram fé til og hefur á sínum vegum með það fyrir augum, að það fjármagn, sem varið er til þeirra verka, nýtist sem bezt. Þetta er vitanlega jákvætt og eðlileg og góð viðleitni.

Á hinn bóginn virðist mér, að sum ákvæði þessa frv. séu svo víðtæk og að ýmsu leyti óljós, að það muni verða reynslan, sem sker úr því, hvernig til tekst á þessu sviði. Og ég tel, að í þessu frv. megi finna ákvæði, sem jafnvel verði erfitt fyrir rn. að standa við eða gera ákvörðun um, svo að bindandi sé. Nefni ég þar t. d. 3. tölul. 12. gr. Þar segir í upphafi gr., að verklega framkvæmd, sem greiða skal eingöngu af ríkisfé, sé óheimilt að hefja, fyrr en fyrir liggur það, sem talið er í greininni, 3. tölul., þ. e. „staðfesting fjmrn. á því, að fjármagn verði handbært í samræmi við greiðsluáætlun samkv. 7. gr.

Nú vil ég víkja að því, að fjárveitingavaldið er hjá Alþ., og á því verður vitanlega ekki röskun eða breyting með þeirri lagasetningu, sem hér er fjallað um. Og þess vegna leiðir það af eðli málsins, að Alþ. hlýtur hverju sinni að endurskoða áætlanir, sem fyrir liggja, og ákveða fjárveitingar til þeirra verkefna, sem unnið er að. Nú er gert ráð fyrir, að tímaáætlun um framkvæmd geti tekið til nokkurra ára, við skulum segja þriggja, fjögurra eða fimm ára, og á því tímabili geta orðið alþingiskosningar, komið nýir þm. og meira að segja ný ríkisstj., þannig að ég tel hæpið, að fjmrh. geti á einum tíma bundið það, að allt áætlunartímabil framkvæmdarinnar skuli fé vera handbært í samræmi við greiðsluáætlun.

Fjárlög eru fyrirmæli Alþ. um það, að verja skuli tiltekinni fjárhæð í ákveðnu skyni, og ef það er ekki gert á fjárlagaárinu, þá er það fé, sem til þess er ætlað, lagt til hliðar. En í fjárl. er að jafnaði ein grein, sem kölluð er heimildagrein, og hún hefur annað gildi að því leyti, að þar er það lagt á vald ríkisstj., hvort það fé, sem þar er tiltekið, er greitt eða sú framkvæmd, sem þar er ráðgerð, skuli koma til framkvæmda eða ekki.

Þá kem ég að því, sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á, að í 12. gr. frv. segir berum orðum, að verklega framkvæmd, sem greiða skal eingöngu af ríkisfé, er óheimilt að hefja fyrr en fyrir liggur heimild í fjárl. Ég tel, að þetta sé ekki í samræmi við málvenju hér á þingi, og ekki í samræmi við hið raunverulega gildi, sem fjárl. hafa, því að þau eru fyrirmæli af hálfu Alþ. til ríkisstj. eins og önnur lög og fela í sér fyrirmæli til ríkisstj. og þegnanna. Ég vil því benda hv. n. á, hvort hún telur ekki ástæðu til að breyta þessu orðalagi þannig, að í staðinn fyrir heimild í fjárl. komi: fjárveiting. Það er hið venjulega og eðlilega orð yfir þetta. Þá kæmi til samræmis við þetta í 2.,tölul., þar sem stendur: „ákvörðun hlutaðeigandi rn. um að nota þá heimild“, einungis: ákvörðun hlutaðeigandi rn. um, að verkið skuli hafið.

Ég hef ekki í hyggju að bera fram, a. m. k. við þessa umr., brtt. við frv., en ég vek máls á þessu n. til athugunar, og ég endurtek það, ég tel betur fara, að þessi orðalagsbreyting verði gerð. Ég tel það vera bæði í samræmi við málvenju hér á þingi og segja betur til um það gildi, sem fjárl. hverju sinni hafa, en það orðalag, sem í frv. er.