24.03.1970
Neðri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég tek undir það með hæstv. fjmrh., að það er áhugamál allra hv. þm., að það fjármagn, sem gengur til verklegra framkvæmda í þessu landi, nýtist sem bezt. Ég get líka tekið undir það með honum, að mér sýnist við athugun á þessu máli, að stefnt sé í rétta átt að þessu marki. Ég hef áður látið í ljós þá skoðun hér á hv. Alþ., að nauðsyn bæri til að sameina ýmsar stofnanir, sem fást við sömu verkefni, og hér er gerð tilraun til þess að sameina byggingaeftirlitið, sem nú er hjá hinum ýmsu stofnunum og er kannske bundið við verk hverju sinni. Ég held, að það muni skapast meiri festa í framkvæmd málsins við það, að sameining eigi sér stað og sérstökum aðilum er falið eftirlit með ríkisbyggingum almennt. Ég vil t. d. í því sambandi nefna hús, sem er búið að vera lengi í byggingu og miklu fjármagni er búið að verja til, þ. e. Landsspítalabygginguna. Ég er sannfærður um það, að þar hefði verið þörf á meira eftirliti en verið hefur, og ég tel, að með þeirri stofnun, sem hér er lagt til að lögfesta, þá muni þetta takast. Og þess vegna get ég sagt það við þessa umr., nema annað eigi eftir að koma upp síðar, að mér sýnist, að hér sé stefnt í rétta átt, og ber að fagna því.

Ég vil líka segja það, að það gleður mig í sambandi við þetta frv., að þar er fullkomlega tekið tillit til sveitarfélaganna sem annars aðilans að þeim framkvæmdum, sem eru sameiginlegar. Ég hafði nokkuð óttazt það, að hlutur þeirra væri fyrir borð borinn, en ég sé, að eins og frv. er nú, þá er það ekki, og alveg ástæðulaust að óttast um það, því að einnig þar þarf að hafa festu í framkvæmdum og fullkomið eftirlit með því fjármagni, sem til framkvæmdanna fer.

Við höfum framkvæmt mikið á síðari árum, en þurfum þó að framkvæma meira, og við megum gæta okkar í því, t. d. eins og verið hefur í skólabyggingunum, að það sé ekki um of dýrar tilraunir að ræða í sambandi við framkvæmdir einstakra mannvirkja, eins og mér virðist stundum hafa verið.

Ég vil líka segja það, að ég tel það mjög mikilsvert að birta niðurstöður um verkin, þegar þeim er lokið. Það er mikið aðhald fólgið í því, og það er mjög gott til þess að fá samanburð á milli verka, sem er mikils virði.

Ég vil því segja það um þetta mál við þessa umr., að mér sýnist það stefna í rétta átt, og nauðsyn beri til að skapa þá festu, sem ég vonast til, að verði, ef þetta frv. nær fram að ganga, sem ég geri ráð fyrir.