29.04.1970
Neðri deild: 90. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að lengja þessar umr., en vildi aðeins láta það koma fram, að ég hef ekkert við þær brtt. að athuga, sem hv. fjhn. hefur gert við frv. Ég sé jafnframt ástæðu til þess að þakka n. fyrir vinnu hennar, því að miðað við það, hvað þetta frv. hefur legið hér lengi fyrir Alþ., — þetta er í þriðja skiptið, sem það er lagt fyrir þingið, og hefur, að ég hygg, jafnan verið lagt fyrir Ed., — þá er auðvitað ekki annars að vænta en fjhn. í þessari hv. d. hafi haft ýmislegt við einstök atriði þess að athuga og ekki haft kannske svigrúm sem skyldi til þess að kynna sér allar þær mörgu og margvíslegu umsagnir, sem hafa legið fyrir hv. Ed.

Þær brtt., sem hér eru gerðar af hv. fjhn., raska í engu þeirri meginhugsun, sem frv. er byggt á, og því tel ég þær á engan hátt verða til þess að breyta frv. til hins verra, nema síður sé. Varðandi aðalbrtt., sem sennilega táknar nú hið helzta, sem fjhn. hefur haft við frv. að athuga, þ. e. að 4. gr. var skilin svo, að það væri ætlunin, að fyrir fram væri raðað niður fjárveitingu til allra einstakra framkvæmda í fjárlagafrv., þannig að erfitt yrði um vik fyrir Alþ. að breyta til, þá hefur það aldrei verið hugsað svo, að þetta yrði með þeim hætti, þannig að brtt. hv. fjhn. raskar í engu þeim grundvelli, sem gert var ráð fyrir.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til annars en að þakka hv. n. og fagna því, að frv. hefur fengið svo almennan stuðning hér á Alþ. sem raun ber vitni um, því að það skiptir að sjálfsögðu meginmáli, að um þessar skipulagsbreytingar, sem eru vissulega mjög mikilvægar, séu ekki flokkadrættir og menn geti verið sammála um það, hverjir sem fara með stjórn landsins á hverjum tíma, að vinna að þeim umbótum, sem frv. gerir ráð fyrir.