30.04.1970
Efri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð til þess að skýra hv. þd. frá því, að í Nd. voru gerðar smávægilegar breyt. á frv. Þetta frv. hefur, eins og mjög vel er kunnugt þm. í þessari hv. d., legið hér áður fyrir á tveimur þingum, og hv. Nd. fannst vera nokkuð naumur tími fyrir sig til þess að athuga málið, af því að það hefði legið í bæði þessi skiptin fyrir hv. Ed. og fengið hér mjög vandlega íhugun og athugun, eins og öllum hv. dm. hér er mætavel kunnugt um, og var hér samstaða um málið, þegar það var afgr.

Engu að síður féllst Nd. á það á tiltölulega skömmum tíma að afgreiða málið, og var það einnig með samstöðu fjhn. þeirrar d., en með nokkrum breyt., sem að vísu eru sjö að tölu, en í þeim var ekki fólgin nein grundvallarbreyting á þeim atriðum, sem máli skipta. Þar er yfirleitt um orðalag að ræða, og má kannske segja, að í fljótu bragði virðist veigamest fyrsta breyt., en þar er tekið skýrt fram, að flokkun framkvæmda, svo sem segir í 4. gr., skuli ekki vera tekin inn í fjárlagafrv. sjálft, þegar það kemur frá rn., heldur fylgja með í fskj. Það var sannast sagna aldrei ætlunin að taka það beint inn í fjárlagafrv., heldur láta það fylgja með í fskj., svo sem hefur verið með till. á undanförnum árum og mönnum er vel kunnugt um, bæði varðandi skólamál hafnir og sjúkrahús. Það hefur aldrei verið ætlunin, að það komi röðun á því frá rn., og ég tók fram í Nd. og var margítrekað hér, að með þessu frv. væri ekki verið að taka vald af Alþ. á einn eða annan hátt, heldur aðeins að tryggja það, að rétt hefði verið að undirbúningi þessara mála unnið, en allir, er létu skoðun í ljós um þetta mál hér í þessari hv. d., töldu, að það væri til bóta að koma á slíkum skipulagsvinnubrögðum.

Hinar brtt. skipta engu máli efnislega um það kerfi, sem hér er lagt til að taka upp, og hafa þær allar verið athugaðar, þannig að hér er á fullt samræmi við það, sem felst í meginhugsun frv.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram, en sé ekki ástæðu til þess að orðlengja meira um þessar till., þar sem þær, eins og ég sagði, hagga í engu þeirri meginstefnu, sem mörkuð var hér í þessari hv. d., þegar frv. var afgr. hér.