07.04.1970
Efri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

50. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins hefur sjútvn. þessarar hv. d. haft til athugunar um alllangan tíma. N. hefur rætt málið á nokkrum fundum sínum, leitað umsagnar um málið til ýmissa þeirra aðila, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta, en auk þess átt viðræður við suma þeirra um málið, og kem ég nánar að því síðar. Frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins var einnig flutt á 88. löggjafarþingi, 1967–1968, og náði þá ekki fram að ganga, en var með rökstuddri dagskrá vísað til ríkisstj. með ósk um að láta fara fram á því nánari athugun sérfróðra manna og aðila, sem hér eiga hagsmuna að gæta, og leggja síðan endurskoðað frv. fyrir Alþ. á ný.

Svo sem fram kemur í aths. með frv. þessu, fól ríkisstj. dr. Þórði Eyjólfssyni, fyrrv. hæstaréttardómara, að endurskoða umrætt frv., en auk þess óskaði hæstv. samgmrh. umsagna um frv. frá þeim Guðmundi H. Oddssyni, þáv. forseta Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Jóni Sigurðssyni, formanni Sjómannasambands Íslands, og Sverri Júlíussyni, formanni Landssambands ísl. útvegsmanna. Gerðu þessir þrír aðilar sameiginlegt álit um málið, sem er fylgirit með frv. þessu. Í grg, þremenninganna kemur fram, að þeir telja, að við endurskoðun frv. hafi verið tekið tillit til þeirra ábendinga, sem þeir gerðu um málið, og að þeirra dómi sé frv. nú þannig úr garði gert, að æskilegt sé, að það nái fram að ganga.

Svo sem ég hef gert grein fyrir, átti n. viðræður við nokkra aðila um málið. Þeir, sem n. ræddi sérstaklega við, voru í fyrsta lagi Þórður Eyjólfsson, sem, eins og fyrr segir, samdi frv. Einnig ræddi n. við Ingimar Einarsson lögfræðing, en hann var til aðstoðar fyrrgreindum þremenningum við gagnasöfnun og samningu álitsgerðarinnar, sem þeir gerðu um málið. Veittu þessir aðilar n. margvíslegar upplýsingar. Þá átti n. viðræður við Hjálmar Bárðarson skipaskoðunarstjóra um málið. Gerði n. honum grein fyrir þeirri gagnrýni, sem komið hafði fram með frv., og óskaði jafnframt grg. hans um þær aths. Þá kom einnig fram í umsögnunum, að hið nýja nafn stofnunarinnar væri of víðtækt og næði yfir meira starfssvið en hlutverk Skipaskoðunar ríkisins ætti raunverulega að vera. Á fund n. kom einnig n. frá Verkfræðingafélagi Íslands, en frá þeim aðilum hafði n. borizt hvað hörðust gagnrýni og mótmæli gegn þessu frv. Því hefur verið haldið fram, að með frv. þessu væri verið að færa út og auka starfsemi og starfssvið Skipaskoðunar ríkisins og Skipaskráningarstofu ríkisins. Loks er þess að geta, að fram komu staðhæfingar um það, að einstakir starfsmenn Skipaskoðunar ríkisins hefðu með höndum störf varðandi teikningar skipa o. fl., sem ekki samrýmdust sýslunarstörfum þeirra.

Sjútvn. hefur eftir föngum reynt að gera sér grein fyrir málinu í heild og meta jafnframt þá gagnrýni, sem fram hefur komið við frv. Með hliðsjón af því, sem ég hef nú greint, hefur sjútvn. leyft sér að bera fram brtt. við frv., og.eru þær fluttar á sérstöku þskj. Kemur þar fram, að n. leggur til, að nafnið Skipaskoðun ríkisins haldist óbreytt. Af því leiðir, að lagt er til, að nafnið Siglingamálastofnun ríkisins falli burt úr frv. og að í staðinn komi: Skipaskoðun ríkisins, og í stað orðsins „siglingamál“ komi: öryggismál skipa.

Við 2. gr. leggur n. til, að gerð verði sú breyt. á 6. tölul., að aðeins 1. málsl. haldist, þ. e. „að fylgjast með rannsókn sjóslysa hjá siglingadómi og sjódómi.“ Aðrir málsl. 6. tölul. 2. gr., um „að rita umsögn um sjópróf til saksóknara ríkisins“ og „að birta árlega niðurstöður rannsókna á sjóslysum,“ telur n., að sé eðlilegra að falli undir starfssvið VIII. kafla í frv. til l. um eftirlit með skipum, en það er um siglingadóm og rannsókn sjóslysa. Það frv. hefur einnig verið til athugunar hjá sjútvn., og mun n. bera fram við það frv. brtt., sem m. a. fela þetta í sér.

Þá er einnig lagt til að umorða 10. tölul. 2. gr., svo sem segir á þskj. 488, en það er „að annast af Íslands hálfu samstarf við alþjóðastofnanir varðandi þau mál, sem eru í verkahring stofnunarinnar.“ N. telur þetta orðalag eðlilegra en taka sérstaklega til eina stofnun og telur, að með þessu orðalagi nái ákvæðið yfir allt það, sem til er ætlazt og nauðsynlegt er.

Við 6. gr. frv. leggur n. til, að gr. verði umorðuð, svo sem fram kemur á þskj. 488. Sú breyt., sem n. leggur til að gerð verði á frv., er í fyrsta lagi í því fólgin, sem fram kemur í niðurlagi gr., en þar segir:

„Eigi má skipaskoðunarstjóri eða aðrir, sem eru í fullu starfi hjá Skipaskoðun ríkisins, hafa á hendi störf, sem eru ósamræmanleg stöðum þeirra og háð kunna að verða þeirra eigin mati sem starfsmanna Skipaskoðunar ríkisins, svo sem eftirlit með skipum eða vélum fyrir einstaklinga, félög eða opinberar stofnanir.“

Samkv. frv. nær þessi takmörkun á störfum starfsmanna Skipaskoðunarinnar aðeins til umræddra þarfa fyrir einstaklinga, en svo sem hér er lagt til, helzt þetta ákvæði svo til óbreytt, eins og það er í gildandi lögum, varðandi starf skipaskoðunarstjóra, og telur n., að svo eigi að vera og ná þá einnig til annarra starfsmanna stofnunarinnar, sem eru í fullu starfi.

Við 7. gr. flytur n. loks brtt., þar sem lagt er til, að öll sú upptalning starfsmanna og sérfræðinga, sem í frv. er greind, falli niður, en í stað þess orðist gr. svo, með leyfi forseta: „Skipaskoðunarstjóri skal hafa sérfróða starfsmenn, eftir nánari ákvörðun í reglugerð, sem ráðh. setur.“ Við teljum eðlilegra, að þessi háttur sé á hafður, enda varla unnt, að hér geti verið um tæmandi upptalningu að ræða, og því eðlilegra, að starfslið sé ákveðið, eftir að nákvæm endurskoðun hefur átt sér stað um starfsmannaþörfina.

Herra forseti. Ég hef nú í stuttu máli gert grein fyrir þeim brtt., sem sjútvn. hefur leyft sér að bera fram við þetta frv. Ég vænti þess, að till. hljóti samþykki hv. þd. og frv., þannig breytt, verði samþ. og því að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.