24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

50. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir hv. d. undir nafninu: Skipaskoðun ríkisins, er komið frá Ed., en það var lagt fram snemma á þessu þingi fyrir þá d. undir nafninu: Frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins.

Þetta mál hefur átt sér alllangan aðdraganda. Frv. um þetta sama efni var lagt fyrir Ed. á þinginu 1967–68, og var þá allmikið athugað í sjútvn. þeirrar hv. d. En vegna margra aths., sem fram komu við frv., lauk ekki afgreiðslu þess í það skiptið, heldur var því vísað til ríkisstj. Síðan hefur það gerzt, að viðkomandi rn. hefur falið þrem mönnum frá hagsmunasamtökum, er málið varðar, að yfirfara hið upphaflega frv. og kynna sér bæði það og fram komnar aths. Þessir þrír menn voru Sverrir Júlíusson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Jón Sigurðsson frá Sjómannasambandi Íslands og Guðmundur H. Oddsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Að lokinni athugun þessara manna á frv. var það síðan fengið aftur í hendur skipaskoðunarstjóra og dr. juris Þórði Eyjólfssyni fyrrv. hæstaréttardómara, og hafa þeir gengið frá frv., eins og það var lagt fyrir þetta þing. Einnig hafa þeir samið önnur frv., sem eru líka á dagskrá þessarar hv. d. og fylgja þessu frv., en það eru frv. til l. um skipamælingar, frv. til 1. um skráningu skipa og frv. til l. um eftirlit með skipum.

Ég hygg, að af því, sem ég hef nú rakið um aðdraganda þessa máls, verði það ljóst, að þetta frv. og fylgifrv. þess hafa hlotið mjög rækilegan undirbúning, enda er allur frágangur frv. þannig, að til fyrirmyndar er, bæði hvað uppsetningu snertir og ítarlegar skýringar, sem fylgja í aths. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að ræða þetta frv. í löngu máli, en mun reyna eftir föngum að grípa á því, sem mestu máli skiptir, og þá aðallega ræða um þau atriði, sem hefur verið breytt í meðferð þingsins, fyrst í hv. Ed. og svo síðan þær brtt., sem sjútvn. þessarar hv. d. er sammála um að bera fram. En í sjútvn. d. ríkir algert samkomulag um afgreiðslu málsins með þeim hætti, sem það liggur hér fyrir, þ. e. a. s. nefndin mælir eindregið með samþykkt frv. með þeim brtt., sem fram eru bornar á þskj. 632.

Þetta frv. til l. um heildarlög fyrir þá stofnun, sem í upphaflega frv. var kölluð „Siglingamálastofnun ríkisins“, er hugsað til þess að skilgreina verksvið og starfssvið hennar, en það verksvið er reyndar þegar til, þó að ekki séu til heildarlög um það. Stofnunin sem heild er orðin mjög fjölþætt, en nöfn hennar eru nú bæði Skipaskoðun ríkisins og Skipaskráningarstofa ríkisins, og gefa þau til kynna, hvert er aðalverksvið hennar. Auk þess hafa henni verið falin mörg önnur verkefni, eins og upp er talið í 2. gr. frv. Það er því orðin brýn þörf á að setja um stofnunina heildarlög og með heiti, sem sé í samræmi við verkefni hennar og tilgang, og að þar sé gerð grein fyrir heildarverkefni stofnunarinnar, eins og það er í reynd. Með frv. er ekki gert ráð fyrir að bæta neinum teljandi verkefnum við starfssvið stofnunarinnar, eins og það er nú, að öðru leyti en því, að í till. sjútvn. þessarar hv. d. er gert ráð fyrir, að við stofnunina verði ráðinn einn siglingafróður maður til þess að hafa með höndum athuganir á sjóslysum, eins og ég skal koma að síðar.

Þótt sett verði heildarlög um „Siglingamálastofnun ríkisins“, eins og sjútvn. þessarar hv. d. leggur til, að stofnunin nefnist, þá er eftir sem áður þörf fyrir sérstök lög um einstök verkefni hennar, sem mestu máli skipta. Þess vegna eru þau fylgifrv. borin fram, sem ég gat um áðan, að flutt væru með þessu frv. En verkefni eins og skipaskráning og skipamælingar eru mjög tæknilegs eðlis, og í þeim efnum getur oft þurft að breyta ýmsu, og þykir því þægilegra að hafa sérstök lög um þau heldur en fella þetta allt saman inn í ein heildarlög, eins og vissulega hefði getað komið til álita að gera. Það er talið vera til hægðarauka, vegna breytinga, sem síðar kynni að þurfa að gera, að hafa ákvæði um skipaskráningu og skipamælingar og skipaeftirlit í sérstökum lögum. En tilætlunin með þessu öllu er sú að gera skipulag þessara mála einfaldara en það er nú.

Þær till., sem fram eru bornar í þessum frv., stefna í sömu átt og sú þróun, sem átt hefur sér stað í þessu efni á undanförnum árum annars staðar á Norðurlöndum, t. d. í Noregi, þar sem mál, er varða skip og siglingar, hafa verið sameinuð í einni siglingamálastofnun, „Sjöfarts direktoratet“ undir forstöðu sérstaks siglingamálastjóra: „sjöfartsdirektören“. En einni deild innan þeirrar stofnunar er falið eftirlit með skipasmíðum, „skibskontrollen“, og hún hefur með höndum opinbera skoðun skipa í Noregi.

Sú stofnun, sem hér er fjallað um, hefur oftast gengið undir nafninu Skipaskoðun ríkisins, en stundum Skipaskráning ríkisins, þegar um skráningaratriði er að ræða sérstaklega. En jafnvel bæði þessi heiti til samans ná ekki yfir allt verksviðið og heitið Skipaskoðun ríkisins, eitt út af fyrir sig, er beinlínis villandi. Reynslan hefur þegar margoft sýnt, að þeir, sem ekki þekkja verksvið stofnunarinnar í heild, villast á heitinu Skipaskoðun ríkisins, misskilja verksvið hennar og telja, að stofnunin fáist eingöngu við skoðun skipa í þrengstu merkingu.

Það verkefni, sem stofnunin hefur nú með höndum, er í aðalatriðum þetta, eins og sjá má af upptalningunni í 2. gr. frv.: Auk sjálfrar skoðunar skipa er það skráning skipa, útgáfa skipsskjala, statistik yfir skipastólinn, árleg útgáfa skipaskrár, mæling skipa, útreikningur á brúttó- og nettórúmlestatölu skipa samkv. alþjóðamælireglum, útgáfa alþjóðamælibréfa og útreikningur á hleðslumerkjum eða fríborði skipa samkv. alþjóðasamþykkt og útgáfu hleðslumerkjaskírteina, framkvæmd alþjóðasamþykkta um öryggi mannslífa á hafinu og útgáfa alþjóðaskipsskjala fyrir íslenzk skip samkv. þeim, að fylgjast með rannsókn sjóslysa hjá siglingadómi og sjódómi og rita umsögn um sjópróf til saksóknara ríkisins, umsagnir til fjmrn. um tollendurgreiðslur efnis og tækja vegna nýsmíðaðra skipa og stórviðgerða, framkvæmd laga um varnir gegn óhreinkun sjávar af völdum olíu samkv. reglugerð og alþjóðasamþykkt, samstarf við Alþjóðasiglingamálastofnunina (IMCO), þ. á m. alþjóðasiglingareglur, mengun sjávar, alþjóðasiglingaleiðir, öryggi á olíustöðvum á úthafinu, stöðugleikaútreikningar og stöðugleiki skipa og ísing, samræming á „container“-flutningum skipa, sjálfvirkni í skipum og áhafnir í því sambandi.

Þó að ég hafi ekki í þessari upptalningu nefnt allt, sem Siglingamálastofnun ríkisins hefur með að gera, þá er greinilegt, að heitið Skipaskoðun nær ekki til þeirra verksviða allra, og er því villandi. Rótgróið íslenzkt orð yfir það, sem á skandinavísku er kallað „sjöfart“, er orðið sigling, og utanrrn. hefur þegar notað það orð í þýðingu á skammstöfuninni IMCO, þ. e. a. s. Alþjóðasiglingamálastofnunin. Auk þess eru heitin siglingamálaráðherra, siglingalög, siglingaöryggi og siglingadómur þegar í notkun í málinu, og því ekkert eðlilegra en að stofnun sú, sem með upptalin mál fer í umboði ráðh. þess, er fer með siglingamál, heiti Siglingamálastofnun ríkisins. Þetta heiti samrýmist auk þess eðlilega heitum annarra íslenzkra stofnana, t. d. hafnamála-, vegamála-, orkumála- og flugmála-, svo að nokkrar séu nefndar. Þótt segja megi, að heitið sé ekkert meginatriði, þá er þó mjög bagalegt, að það sé villandi og nái ekki að lýsa því verksviði, sem stofnunin hefur með höndum.

Það gildir um þetta frv. og fylgifrv. þess, að nauðsynlegt er, að það nái fram að ganga hið allra bráðasta, og er málið reyndar þegar að sumu leyti komið í eindaga. Á grundvelli þessara lagabreytinga er nauðsyn breytinga og endurbóta á reglugerðum, sem þarf að hraða eftir föngum, ef það mætti verða til aukins öryggis íslenskra sjófarenda. Reglugerðarbreytingar hafa þegar tafizt vegna tafa á lagasetningu, en ábyrgðarhluti er, að frekari dráttur verði á þessum málum. Þeir aðilar, sem hafa kynnt sér þessi mál, virðast sammála um nauðsyn lagabreytinganna, sem eru undirbúnar af dr. Þórði Eyjólfssyni fyrrv. hæstaréttardómara, eins og ég gat um áðan. Það eitt mun geta talizt nokkuð örugg trygging fyrir því, að lagafrv. hafi verið unnin af samvizkusemi og séu í fullu samræmi við aðra lagasetningu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara miklu fleiri orðum um efni sjálfs frv., nema sérstakt tilefni gefist til, en vil aðeins víkja með nokkrum orðum að brtt. sjútvn.

1. brtt. n. varðar heiti stofnunarinnar. Hef ég þegar gert það að umræðuefni og sé ekki ástæðu til að bæta þar meiru við að öðru leyti en því, að ég vil benda á, að það heiti, sem n. leggur til, er svo víðtækt, að þótt stofnuninni verði síðar falin fleiri skyld verkefni, þá þarf ekki um leið að fylgja því nafnbreyting. Það er æskilegt, að stofnuninni sé nú valið heiti, sem fleiri málaflokkar á þessu sviði geti fallið undir síðar.

Fyrir utan nafnbreytinguna eru það í raun og veru tvær meginbreytingar, sem sjútvn. leggur til, frá því, sem hv. Ed. breytti frv. Það er þá fyrst við 6. gr. frv. Í þeirri gr. hefur Ed. breytt orðalagi þannig, að verksvið siglingamálastjóra er þrengt til mikilla muna. Með því orðalagi, sem er á gr. núna, er honum gert mjög erfitt fyrir um að taka að sér verkefni önnur en þau, sem eru upp talin í frv. Það er skoðun sjútvn. þessarar hv. d., að það sé sjálfsagt, að ef ríkið hefur í þjónustu sinni færan og starfhæfan sérfræðing, þá eigi ekki að reisa skorður við því, að ríkið geti falið honum önnur verk en þau, sem honum eru beinlínis ætluð samkv. lögunum. Það má tilfæra dæmi um þetta um núverandi skipaskoðunarstjóra. Ég vil leyfa mér að segja, að hann sé brautryðjandi í stálskipasmíði hér á landi og allra helzti sérfræðingur okkar á því sviði. Við álítum, að með orðalaginu á 6. gr., eða niðurlagi hennar eins og það er nú, sé útilokað, að hægt sé að fela skipaskoðunarstjóra þátttöku í nefnd eins og t. d. byggingarnefnd Bjarna Sæmundssonar og í byggingarnefnd strandferðaskipanna. Í báðum þessum n. hefur núverandi skipaskoðunarstjóri starfað og innt af hendi mjög mikið og gott starf. Þess vegna leggjum við til, að orðalag þessa ákvæðis verði þannig, þar sem takmarkað er, hvaða verkefni skipaskoðunarstjóri megi taka að sér, þá sé það við það bundið, að hann megi ekki taka slík verkefni að sér fyrir einstaklinga, en á hinn bóginn geti ríkið falið honum verkefni á borð við þau, sem ég nefndi áðan, eins og það hefur vissulega gert og sennilega í fleiri tilfellum en þeim, sem ég gat um.

Önnur meginbrtt. okkar við frv., eins og það kom frá Ed., snertir rannsókn sjóslysa. Sú till. kemur aftur til umr. í sambandi við frv. til l. um eftirlit með skipum, og mun ég þá gera nánari grein fyrir henni. N. leggur til, að í d-lið 2. gr., þar sem talin eru upp verkefni Siglingamálastofnunarinnar, orðist liðurinn þannig:

„Að fylgjast með rannsókn sjóslysa hjá siglingadómi og sjódómi. Rita umsögn um sjópróf til saksóknara ríkisins. Birta niðurstöður rannsókna á sjóslysum árlega eða oftar, þegar sérstök ástæða þykir til.“

Ég skal ekki ræða þetta ítarlegar í sambandi við þetta frv. Þessi ákvæði eru nánar tiltekin í frv. um eftirlit með skipum, en ég skal aðeins geta þess, að samkv. áliti Hákonar Guðmundssonar, formanns siglingadóms, er æskilegasta fyrirkomulagið á því, hvernig fylgzt skuli með rannsókn sjóslysa, og síðan unnið úr þeim gögnum, sem fram koma við rannsókn þeirra, það, að við embætti skipaskoðunarstjóra starfi maður, er geti verið viðstaddur sjópróf, hvar sem er á landinu, og hafi að lögum aðstöðu til þess að bera fram spurningar og beina rannsókninni inn á þær brautir, að ítarlegar og alhliða skýrslur séu gefnar um þau atriði, sem sjódómurinn og skipaskoðunarstjóri telja máli skipta. Till. n. um d-lið 6. gr. þessa frv., sem síðar koma nánar útfærðar í frv. um eftirlit með skipum, eru algerlega, að ég hygg, í samræmi við þetta álit Hákonar Guðmundssonar, formanns siglingadóms.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vil að endingu láta það í ljós, að ég tel, að hv. Alþ. hafi haft frv. svo lengi til athugunar, að því beri að ljúka afgreiðslu þess á þessu þingi, og vænti ég, að ekki verði nein fyrirstaða fyrir því í þessari hv. deild.