29.04.1970
Neðri deild: 89. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

50. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir til einnar umr., er komið öðru sinni til hv. d. frá hv. Ed. Ég býst við, að hv. alþm. sé öllum kunnugt um, hvaða málsmeðferð þetta frv.-hefur hlotið til þessa, og þarf því ekki að fara um það mörgum orðum.

Í sjútvn. þessarar d. var frv. breytt í upphaflegt horf, eins og það hafði verið lagt fyrir Ed. snemma á þinginu. Þetta var gert vegna þess, að í sjútvn. var alger samstaða um það, að þær breyt., sem gerðar höfðu verið á frv. í Ed., væru ekki til bóta. Það hefur síðan gerzt, að hv. Ed. endursendir nú þessari hv. d. frv., og er hún búin að færa það að mestu leyti í það horf, sem það var, þegar það kom fyrst til þessarar d., að öðru leyti en því, að nú hefur verið búið til nýtt nafn á frv., og nú er það kallað: Frv. til l. um Skipamálastofnun ríkisins: Sjútvn. þessarar hv. d. ræddi þetta frv. og fylgifrv. þess, sem eru á dagskrá þessa fundar undir dagskrárliðunum 12, 13 og 14, og við í n. reyndum, eftir því sem við töldum okkur fært, að koma til móts við þær breyt., sem Ed. hefur nú gert á frv. Þó vildi sjútvn. d. ekki fella sig við hið nýja nafn á frv., sem segja má, að sé nýyrði í málinu: Skipamálastofnun ríkisins. Nefndin leggur því til, að því heiti verði breytt í upprunalegt horf, þ. e. Siglingamálastofnun ríkisins, og að heiti þess embættismanns, sem Ed. vill kalla skipamálastjóra, verði siglingamálastjóri, eins og var í upphaflega frv.

Þá leggur n. í annan stað til, að 6. tölul. 2. gr. frv., þar sem fjallað er um eitt af verkefnum Skipamálastofnunarinnar, orðist svo:

„Að fylgjast með rannsókn sjóslysa hjá siglingadómi og sjódómi.

Rita umsögn um sjópróf til saksóknara ríkisins. Birta niðurstöður rannsókna á sjóslysum árlega eða oftar, þegar sérstök ástæða þykir til, í samstarfi við rannsóknarnefnd sjóslysa.“

Í sambandi við þessa brtt., sem sjútvn. þessarar hv. d. flytur nú við frv., vil ég gefa þá skýringu, að þegar málið fór á milli d., felldi Ed. niður úr þessari grg. allt nema fyrstu setninguna: „Að fylgjast með rannsókn sjóslysa hjá siglingadómi og sjódómi.“

En í frv. til l. um eftirlit með skipum, sem hér liggur einnig fyrir, er gert ráð fyrir, að sett verði á laggirnar sérstök rannsóknarnefnd sjóslysa, er ráði sérstakan starfsmann til þess að annast þau verkefni, sem nánar eru skilgreind í því frv. Okkur hefur fundizt í sjútvn. þessarar hv. d. á það skorta í till. varðandi þetta, eins og þær hafa komið frá Ed., að nægilega skýrt væri fram tekið, hvert ætti að vera samband milli Skipaskoðunar ríkisins annars vegar og þessarar rannsóknarnefndar hins vegar. Við breytum ekki verulega till. hv. Ed. um rannsóknarnefndina, eins og hún er nú í frv. um eftirlit með skipum, en n. vill, bæði þar og einnig í þessu frv., sem fjallar um Siglingamálastofnunina, kveða nánar á um þessi tengsl. Það gerir n. í sambandi við 6. tölulið 2. gr. með því að taka aftur upp þessi orð: „Rita umsögn um sjópróf til saksóknara ríkisins. Birta niðurstöður rannsókna á sjóslysum árlega eða oftar, þegar sérstök ástæða þykir til, í samstarfi við rannsóknarnefnd sjóslysa.“ N. telur sem sé, að þessi atriði eigi að vera sameiginlegt verkefni Skipaskoðunar ríkisins og rannsóknarnefndar sjóslysa, en í till. hv. Ed. er gert ráð fyrir, að siglingadómur eigi að hafa það verkefni að birta niðurstöður rannsókna sjóslysa. N. er ekki sammála því og leggur til, að það ákvæði, sem um það fjallar og er í 38. gr., 4. tölul., frv. til l. um eftirlit með skipum, falli niður, að því er siglingadóm varðar. N. telur, að þetta verkefni sé miklu betur komið sameiginlega hjá Siglingastofnun ríkisins og rannsóknarnefndinni.

Þá leggur n. til í sambandi við 4. gr. frv., að í stað orðsins „skipamálastjóri“ í gr. og hvarvetna annars staðar í frv. komi, í viðeigandi beygingarföllum, siglingamálastjóri.

Loks leggur n. til í sambandi við þetta frv., að 6. gr. breytist þannig, að síðasta mgr. orðist svo:

„Ekki má siglingamálastjóri eða aðrir, sem eru í fullu starfi hjá Siglingamálastofnuninni, hafa á hendi störf, sem ósamrýmanleg eru stöðum þeirra. Þannig er þeim ekki heimilt að vinna nein þau störf fyrir einkaaðila, sem háð kunna að verða þeirra eigin mati sem starfsmanna Siglingamálastofnunarinnar.“

Um þetta atriði ríkir ágreiningur milli d. þingsins. Ed. er tvívegis búin að samþykkja þessa gr. með því orðalagi, að þarna komi til viðbótar, að viðkomandi starfsmönnum sé ekki heimilt að taka að sér þau störf, sem þarna ræðir um, fyrir félög eða opinberar stofnanir. Eins og ég skýrði frá við 2. umr. þessa máls í hv. d., þá er sjútvn. þessarar hv. d. á þeirri skoðun, að með því orðalagi sé starfssvið þessara aðila allt of mikið þrengt, og n. flytur þess vegna þessa brtt.

Loks leggur n. til, að fyrirsögn frv. verði: Frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins.

Þessar till. sjútvn. munu enn þá vera í prentun. Ég hef ekki orðið var við, að þær væru komnar á borð hv. þm. Ég verð þess vegna að leggja þær fram skriflega og fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir þeim.