30.04.1970
Sameinað þing: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

50. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Jón Árnason:

Herra forseti. Mál þetta, frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins, sem nú kemur til endanlegrar afgreiðslu í Sþ., hefur áður í hvorri þd. verið tekið til umr. og afgreiðslu. Það er ekki ætlun mín við þetta tækifæri að taka upp á ný efnislegar umr. um þann málefnalega ágreining, sem fyrir hendi hefur verið milli hv. sjútvn. þd. Ég tel, að málum sé nú þannig komið, að báðir aðilar ættu eftir atvikum að geta fellt sig við afgreiðslu málsins.

Ein þýðingarmesta breyt., sem á frv. verður og öðrum þeim frv., sem eru fylgimál við þetta frv., er ákvæðið um rannsóknarnefnd sjóslysa, starfssvið hennar og heimild til ráðningar á sérstökum starfsmanni. Á þetta lögðum við í sjútvn. Ed. megináherzlu, þegar málið var þar til umr. og afgreiðslu. Við teljum, að sjóslysamálin eða sjóslysin, sem átt hafa sér stað hér við land á undanförnum árum, séu svo mikilsverð, að það megi ekki láta neins ófreistað til þess að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ráða þar bót á, eftir því sem við verður komið.

Varðandi 6. gr. frv. var það till. sjútvn. Ed., að siglingamálastjóri eða aðrir þeir starfsmenn, sem eru í fullu starfi hjá stofnuninni, megi ekki hafa á hendi störf, sem eru ósamrýmanleg stöðum þeirra. Þannig er þeim ekki heimilt að vinna nein þau störf fyrir einkaaðila, félög eða opinberar stofnanir, sem háð kunna að verða þeirra eigin mati sem starfsmanna Siglingamálastofnunarinnar. Þetta orðalag, sem ég hef nú greint frá, er óbreytt frá því, sem er í gildandi lögum. Við síðustu umr. í hv. Nd. um málið voru felld niður úr síðasta málsl. 6. gr. orðin „félög og opinberar stofnanir“. Nú vil ég, herra forseti, leyfa mér að lýsa skriflegri brtt., sem við hv. 5. þm. Vestf., formaður sjútvn. Nd., flytjum, og till. hljóðar svo, með leyfi forseta, — það er brtt. við frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins: „Við 6. gr. Á eftir orðunum „fyrir einkaaðila“ í síðustu mgr. komi: eða félög.“ Þannig verður það þá, að aðeins opinberar stofnanir vantar þá í frv. frá því, sem Ed. lagði til.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál. Nafnbreytingin, á frv. tel ég ekki að sé svo mikils virði eða skipti svo miklu máli, að það sé hægt til lengdar að gera sérstakan ágreining út af því, og leyfi mér því að biðja hæstv. forseta um að leita afbrigða fyrir brtt.