24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

6. mál, skráning skipa

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og áður hefur fram komið, er þetta frv. fylgifrv. með frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins. Skráning skipa samkv. gildandi lögum er talin óþarflega þunglamaleg og flókin í framkvæmd, og miða breytingarnar, sem frv. gerir ráð fyrir, að því að auðvelda skráninguna og gera hana einfaldari. Samkv. gildandi lögum eru nú haldnar tvær skipaskrár um sama efni, þ. e. a. s. skipaskrár í héruðum, eða umdæmisskipaskrár, og aðalskipaskrá á skráningarstofu fyrir allt landið.

Fullyrða má, að frá því að skipaskráning íslenzkra skipa var tekin upp fyrir réttum 100 árum, hafi aðstæður gerbreytzt svo, að full ástæða sé til endurskoðunar á grundvallaratriðum. Með tilliti til greiðra samgangna og fjarskiptasambanda er ekki lengur ástæða til þessa tvíverknaðar. Núverandi tilhögun hefur í för með sér aukinn kostnað bæði fyrir einstaklinga og hið opinbera og margs konar óþarfa fyrirhöfn fyrir lögreglustjórana og skráningarstofuna, m. a. vegna stöðugra bréfaskrifta, símtala og skeytasendinga. Þess vegna er með frv. gerð sú breyting, að skráningarstarfsemin verði á einum stað fyrir allt landið, hvar sem skip eða eigandi þess á heimili.

Um þinglýsingarskrár og samræmingu þeirra við aðalskipaskrá er rætt nánar í grg. með frv., og sé ég ekki ástæðu til að rekja það hér fyrir hv. þd., þar sem það er gerð mjög ítarleg og skilmerkileg grein fyrir þeim þætti málsins.

Sjútvn. hv. d. mælir einróma með samþykkt þessa frv. með þeim breyt., sem n. flytur á þskj. 628. Þar er eingöngu um að ræða brtt., sem leiðir af þeirri nafnbreytingu á stofnuninni, sem hv. d. hefur þegar samþ.