13.04.1970
Efri deild: 68. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

48. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. til l. um eftirlit með skipum hefur sjútvn. þessarar hv. d. haft til athugunar um alllangan tíma. Eins og fram kemur í nál. um málið, eru viss tengsl milli þessa frv. og annars máls, sem hér hefur verið til umr., þ. e. frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins. Það varð því ekki hjá því komizt að fresta afgreiðslu þessa frv., þar til n. hafði lokið athugun sinni á frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins. Með hliðsjón af afgreiðslu n. varðandi það frv. og í samræmi við það eru m. a. brtt. n. við þetta mál.

Þar er fyrst lagt til, að í stað orðanna „Siglingamálastofnun ríkisins“ í þessu frv. komi: Skipaskoðun ríkisins.

Aðrar brtt., sem n. hefur leyft sér að flytja við frv. á sérstöku þskj., eru í fyrsta lagi, að lagt er til, að við 38. gr. komi nýr töluliður, sem verður 4. töluliður, svo hljóðandi: „Að birta árlega niðurstöður rannsókna á sjóslysum.“ Samhljóða ákvæði þessu var fellt niður úr frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins. Það var álit n., að þetta verkefni gæti farið saman við önnur verkefni siglingadóms, sem upp eru talin í 38. gr. frv.

Hin alvarlegu sjóslys, sem átt hafa sér stað á íslenzka bátaflotanum, kalla á, að eitthvað raunhæft sé gert til þess að upplýsa orsakir sjóslysanna. Það er álit margra reyndra sjómanna, að með auknu eftirliti, fræðslu og leiðbeiningum um slysavarnir mætti draga verulega úr sjóslysahættunni. Í þeim efnum má einskis láta ófreistað. Það er álit sjútvn. þessarar hv. þd., að sjódómurinn einn út af fyrir sig leysi ekki þann vanda, sem hér er á höndum. Fyrir því hefur n. leyft sér að bera fram brtt. við frv., sem fela það í sér, að ráðh. skipi sérstaka nefnd til 6 ára í senn, Rannsóknarnefnd sjóslysa. Hlutverk n. skal vera m. a. að safna upplýsingum, sem gætu skýrt eða upplýst orsakir sjóslysa, og miðla slíkum upplýsingum til þeirra, sem hér eiga mest í húfi. Þessar brtt. n. eru við 43. gr. frv. og hljóða svo, með leyfi forseta:

„44. gr. Ráðh. skipar 5 menn í Rannsóknarnefnd sjóslysa til 6 ára í senn, fjóra samkv. tilnefningu eftirtalinna aðila: Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Landssambands ísl. útvegsmanna, Sjómannasambands Íslands, Slysavarnafélags Íslands, og formann, sem ráðh. skipar án tilnefningar.

Hlutverk Rannsóknarnefndar sjóslysa er að fylgjast eftir föngum með starfi sjódóma, safna saman upplýsingum, sem skýrt geta eða upplýst orsakir sjóslysa, miðla slíkum upplýsingum til sjómannaskóla, sjómanna og útgerðarmanna og gera tillögur um ráðstafanir til að draga úr slysahættu á sjó.

45. gr. Rannsóknarnefnd sjóslysa ræður í þjónustu sína siglingafróðan mann, sem hefur það verkefni að upplýsa orsakir sjóslysa og koma á framfæri leiðbeiningum um slysavarnir og varúðarráðstafanir.

Ber starfsmanni n að mæta við sjópróf, ef um er að ræða manntjón eða veruleg meiðsli manna. Skal starfsmaður í samráði við n. og skólastjóra sjómannaskóla landsins skipuleggja meðal sjómannaefna kennslu í slysavörnum, er miðist við að skýra helztu orsakir sjóslysa hér við land og hvernig unnt sé að forðast þau. Verksvið starfsmanns Rannsóknarnefndar sjóslysa ákvarðast nánar með reglugerð, sem ráðh. setur að fengnum till. nefndarinnar.

46. gr. Ráðh. ákveður laun starfsmanns Rannsóknarnefndar sjóslysa að fengnum till. n. Ferðakostnaður starfsmanns og önnur nauðsynleg útgjöld Rannsóknarnefndar sjóslysa greiðast eftir reikningi, er ráðh. úrskurðar.“

N. taldi ekki rétt að kveða nánar á um laun starfsmanns Rannsóknarnefndarinnar. Það er eðlilegt, að reynslan skeri úr um það, að hve miklu leyti starfið samrýmist öðrum störfum, t. d. kennslu við sjómannaskóla eða annað þess háttar.

Í VI. kafla frv., 29. gr., eru ákvæði um hleðslumerki skipa. Er þar vitnað til þess, að þau íslenzk skip, sem hleðslumerkjasamþykkt, er gerð var í London 5. apríl 1966, nái til, skuli hafa alþjóðahleðslumerkjaskírteini samkv. fyrri samþykktum. Þessi alþjóðasamþykkt tók gildi hinn 21. júlí 1968. Hún hefur þegar verið undirrituð af Íslands hálfu, en ríkisstj. hefur enn ekki staðfest hana, þar sem slíkrar heimildar hefur ekki verið aflað fyrr. Verði þetta ákvæði frv. samþ., öðlast ríkisstj. heimild til að staðfesta þessa alþjóðasamþykkt um hleðslumerki, en síðasti frestur til þess mun renna út í ágústmánuði n. k.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál. Ég vænti, að hv. þdm. samþykki brtt. n. og að frv., þannig breyttu, verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.