14.04.1970
Neðri deild: 72. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

13. mál, hægri handar umferð

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta frv. til athugunar og leitað um það umsagnar hjá allmörgum aðilum, og hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Minni hl. n. er andvígur því, að frv. verði samþ., og skilar séráliti, en meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., að í stað orðsins „1972“ á þremur stöðum í 1. málsgr. komi: 1971, svo og að í stað orðanna „svo og kostnað vegna starfsemi umferðarmálaráðs“ í 2. málsgr. komi: svo og kostnað vegna starfsemi umferðarráðs til ársloka 1970.

Í grg., sem fylgdi frv. til 1. um hægri handar umferð, var gert ráð fyrir því, að kostnaður vegna umferðarbreytingarinnar yrði tæpar 50 millj. kr., eða 49.4 millj. kr., miðað við þáverandi verðlag. En nú er gert ráð fyrir því, að heildarkostnaður vegna umferðarbreytingarinnar verði um 71 millj. kr., en helztu ástæður þess, að kostnaður varð þetta meiri en upprunalega var gert ráð fyrir, eru þær, að framkvæmdanefnd hægri umferðar var heimilað að verja allt að 10 millj. kr. til fræðslu- og upplýsingarstarfsemi, sem ekki var gert ráð fyrir í upphaflegri áætlun. Kostnaðarauki vegna gengisbreytinga er áætlaður u. þ. b. 3 millj. kr., og bótagreiðslur vegna breytinga á sérleyfisbifreiðum utan þéttbýlis urðu heldur meiri en áætlað hafði verið, og er sá kostnaðarauki talinn vera 5 millj. kr. Auk þess varð nokkur kostnaður við breytingu á vega- og gatnakerfinu nokkru hærri en upprunalega var áætlað. Hins vegar varð nokkur lækkun, sérstaklega á einum áætlunarlið, sem voru breytingar á strætisvögnum, sem varð mun lægri en upprunalega var áætlað. Í áætlun um innheimtu umferðarbreytingargjaldsins er reiknað með því, að rauntekjur af breytingunni, bæði miðað við lög, sem eru í gildi, og við þetta frv., eins og gert er ráð fyrir að það verði, muni nema frá árinu 1967–1972 rúmlega 88 millj. kr. Því má segja, að um 17 millj. kr. séu umfram það, sem umferðarbreytingin kostar.

Brtt. meiri hl. allshn. miðar að því að fella skattinn niður frá og með árinu 1971 í stað ársins 1972, og með því móti er allur kostnaður reiknaður, sem verður af umferðarbreytingunni, en til þess að standa undir starfssemi umferðarráðs leggur n. til, að það verði gert út þetta ár. Allir þeir aðilar, sem leitað var umsagna hjá, eru sammála um það, að greiða beri kostnaðinn af umferðarbreytingunni að fullu og öllu. Sumir þessir aðilar sætta sig við kostnað af umferðarmálaráði, en aðrir eru andvígir því, að það sé greitt með sérskatti. Ég hygg, að meiri hl. n. hafi komið mjög til móts við óskir allra þeirra, sem til var leitað, með því að flytja þá brtt., að gjaldið verði ekki framlengt nema til ársloka 1971.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, nema frekari tilefni gefist til.