30.04.1970
Efri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

13. mál, hægri handar umferð

Frsm. 1. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Það er að vísu dálítið óhægt um vik að mæla fyrir því nál., sem ég vil hér mæla fyrir, með því að ég er ekki einasta alveg viss um, hvaða nr. er á þskj., en hins vegar vil ég ekki tefja störf þingsins með því að krefjast þess, að það sé leitað uppi, heldur mun ég efnislega greina frá því, hvaða till. þar liggur fyrir og í hverja átt frv. fer.

Á nefndarfundi í morgun í allshn. var þetta frv. afgr., og eins og frsm. hv. meiri hl. hefur gert hér grein fyrir, mælir meiri hl. n. með samþykkt þess, eins og það liggur fyrir. Ég hef hins vegar skilað séráliti sem 1. minni hl. allshn., en álit mitt er efnislega þannig: Ég legg að vísu til, að frv. verði samþ., en á því gerð ein breyting. Í frv. segir, að gjald þetta skuli renna til þess að greiða upp það, sem á vantar, að fengizt hafi með gjaldi á bifreiðar, vegna kostnaðar, sem varð við framkvæmd umferðarlagabreytingarinnar úr vinstri handar akstri í hægri handar akstur á árinu 1968. En ég legg til, að ríkissjóður taki á sig þennan kostnað, þegar gjaldið hefur verið innheimt í tvö ár, en að það, sem inn kemur fyrir gjaldið, renni framvegis til þess að leggja þann hluta af hringveginum umhverfis Ísland, sem oft hefur verið hér á dagskrá í Alþ., en af honum er ólagður um það bil 50 km langur kafli úr Öræfasveit yfir í Fljótshverfi í Vestur-Skaftafellssýslu, og til brúargerðar á þau vötn, sem þarf að brúa til þess að leggja akfæran veg þessa leið. Með þessari breytingu, ef samþykkt yrði að láta gjaldið renna til þess arna, á meðan þessi vegur er í byggingu, þá legg ég til, að frv. verði samþ.