30.04.1970
Efri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

13. mál, hægri handar umferð

Frsm. 2. minni hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá fyrri ræðumönnum um mál þetta, varð allshn. ekki sammála um afgreiðslu þess. En ég hef sömu sögu að segja og síðasti ræðumaður um það, að nál. hefur enn ekki verið lagt fram hér af hálfu 2. minni hl., sem ég skipa ásamt hv. 11. þm. Reykv.

En í stuttu máli leggjum við til, að frv. verði fellt. Við teljum, að frá upphafi hafi ekki verið eðlilegur grundvöllur að þessari skattálagningu og skattheimtu, þar sem eigendum bifreiða skyldi gert að greiða skatt til þess að standa undir kostnaði þeim, sem varð vegna umferðarlagabreytingarinnar frá 1968. Og þegar löggjöfin var til meðferðar um þetta hægri handar akstursgjald, þá a. m. k, greiddi ég atkv. gegn því og taldi rétt og eðlilegt og annað ekki réttlátt en að þessi kostnaður yrði greiddur úr sameiginlegum sjóði landsmanna, ríkissjóði. En samt sem áður var skatturinn samþykktur og hefur verið innheimtur hjá bifreiðaeigendum síðan.

Það frv., sem hér liggur fyrir, gengur út á það, að þessari skattálagningu og innheimtu verði fram haldið um skeið. Og eins og ég hef sagt, lítum við þannig á, að þetta sé með öllu óeðlilegt og því beri að fella þetta frv.

Hv. frsm. 1. minni hl. allshn. gat í ræðu sinni um till., sem hann flytti í sambandi við þetta frv., á þá leið, skildist mér, að gjaldið skyldi halda áfram að greiðast úr hendi bifreiðaeigenda um ótakmarkaðan tíma, en gjaldið skyldi renna til að standa undir kostnaði við lagningu hringvegar um landið. Að því er varðar þessa till., erum við í 2. minni hl. á móti því, að þessi skattálagning verði með þessum hætti og henni ætlað að standa undir þessum kostnaði. Við teljum, að ríkissjóður eigi að standa undir þessum kostnaði eins og kostnaði við aðra vegalagningu í landi okkar og brúargerðir.

Ég vil geta þess, að á gildandi vegáætlun, þ. e. a. s. áætlun þeirri, sem gildir um vegaframkvæmdir á tímabilinu 1969–1972, er veitt fé, hartnær 8 millj. kr., til rannsókna á Skeiðarársandi í sambandi við þann mesta farartálma, sem er í vegi þess, að fullkominn hringvegur megi verða lagður í landi okkar. Og ég tel einmitt, að þær framkvæmdir, sem verið er að gera á vegum vegamálaskrifstofunnar á þessum slóðum, þ. e. a. s. á Skeiðarársandi og í sambandi við Skeiðará og Brúará þar, séu rétta leiðin, og kostnaður greiddur með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í vegáætluninni, og svo eigi að verða framvegis. Mér hefur verið tjáð, að rannsóknir eða athuganir hafi verið gerðar á þessum slóðum undir stjórn vegamálaskrifstofunnar, og nú sé beðið eftir því, að flóð komi, jafnvel hlaup í Skeiðará, til þess að fá úr því skorið, hvernig eigi að standa að framkvæmdum þarna og verkfræðingar vegamálastjóra gera ráð fyrir því, að nægilegt flóð komi á þessu tímabili, sem eftir lifi til ársins 1972, þannig að á því ári verði með nokkurri vissu hægt að gera áætlun um það, hvort með viðráðanlegu móti sé hægt að byggja brú á Skeiðarársandi, svo að yfirvinna megi þennan mikla vegartálma. Mér sýnist það vera alveg rétt aðferð, sem við hefur verið höfð, þ. e. að málið eigi að leysa á vegum ríkissjóðs og vegagerðarinnar eins og önnur brúa- og vegamál í þessu landi yfirleitt. Og einnig með hliðsjón af þessu leggjum við til, að till. 1. minni hl. nái ekki samþykki hv. deildar.

Þá vil ég geta þess í þessu sambandi, að framsóknarmenn hafa lagt fram í Sþ. fyrir ekki alllöngu till. til þál. um lagningu vandaðrar hringbrautar um landið. Og þar er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að ríkið hafi þar alla forgöngu og þá um það fyrst og fremst að gera áætlanir um nauðsynlegar framkvæmdir á þessari leið, framkvæmdakostnað og áætlaðan framkvæmdatíma, og enn fremur að athuga um lánsöflunarleiðir til þess að standa undir þeim mikla kostnaði, sem hér hlýtur óumflýjanlega til að falla.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að lengja mál mitt öllu frekar og læt því þess vegna lokið.