30.04.1970
Efri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

13. mál, hægri handar umferð

Frsm. 1. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég vildi í fyrsta lagi mælast til þess við forseta, að hann láti athuga það, hvort þessi þskj. með nál. mundu vera tilbúin þegar. Að öðru leyti er það, sem ég hef að segja, að hér hefur stórkostlegur misskilningur komið fram í ræðum tveggja hv. ræðumanna, þar sem þeir gera ráð fyrir því, að till. mín sé um að gera þetta að föstum skatti til langframa. Svo er ekki. Till. mín, ef menn vildu draga fram þskj., þ. e. a. s. frv., sem málið er um, 13. mál, frv. til l. um breyt. á 1. nr. 65 13. maí 1966, um hægri handar umferð. Þar segir í 1. gr.: „Á árunum 1967–1972 skal greiða í ríkissjóð sérstakan skatt“ o. s. frv. Ég geri enga brtt. við þetta, þannig að skattgreiðslan lengist ekkert við þá till., sem ég hef gert, þó að hún yrði samþ. Brtt. mín er eingöngu við stafl. b, sem er síðar í gr., þar sem segir: „Skatti þessum skal varið til að greiða kostnað, sem leiðir af framkvæmd laga þessara, svo og kostnað vegna starfsemi umferðarmálaráðs.“ Það er þessi gr., sem ég legg til að falli niður, en önnur komi í staðinn, sem efnislega er um það, að skatti þessum skuli varið til að leggja þann hluta af hringveginum um Ísland, sem enn er ólagður. Ég vildi bara leiðrétta það, að till. mín er ekki um að gera þennan skatt lengri en frv. gerir ráð fyrir.