30.04.1970
Efri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

13. mál, hægri handar umferð

Frsm. 1. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þá eru komin fram þskj. um þetta mál, svo að það er nokkru hægara um þau að tala en þegar menn verða að renna svolítið blint í sjóinn um það, hvað fyrir liggur.

Um þetta mál er í skemmstu máli það að segja, að til þess að akvegurinn umhverfis Ísland nái saman og myndi heilan hring, vantar um það bil 50 km kafla yfir erfitt svæði, þar sem vegagerð er ekki annmarkalaus og hlýtur að koma til nokkurrar brúargerðar. Það er langt síðan farið var að hreyfa þessu máli hér í þingi, og allir hafa, hvenær sem á það hefur verið minnzt, viðurkennt, að það væri hin mesta nauðsyn að koma þessu í verk. Og sannast að segja er nú liðinn svo langur tími miðað við það, að tæknilega getur það ekki talizt til neinna verulegra stórvirkja að koma því í kring að gera hringveg um Ísland. Það eru að vísu ýmsar leiðir í því hugsanlegar, og þó eru tvær helztar: Annars vegar að þarna verði byggðar yfir fljótin á Skeiðarársandi og Núpsvötnin svo traustar og varanlegar brýr, að þær komi ekki til með að haggast í jökulhlaupum. Um jökulhlaupin er hins vegar það að segja, að býsna erfitt er að rannsaka þau, því að þau hafa farið mjög minnkandi á síðustu árum, en auðvitað eru menn ekkert vissir um það, nema þau geti komið í stækkaðri mynd, svipað og áður var, hvenær sem vera skal. Það geta þess vegna orðið ár og aldir að bíða eftir því, að fullrannsakað sé eitthvað í þessum efnum, því að hér eru svo breytilegar aðstæður, að þær verða máske aldrei fullrannsakaðar. Á hinn bóginn hefur komið upp sú hugmynd, og hún mundi einfalda málið verulega, að byggja þarna ódýrar brýr og lofa þeim þá að fara lönd og leið, þegar stór jökulhlaup kæmu, því að það er engan veginn svo stórkostlegt mál að endurbyggja slíkar brýr að einhverju eða öllu leyti, þegar úr jökulhlaupi hefði fjarað, að réttlætanlegt sé af þeirri hugsanlegu hættu einni saman að láta það dragast árum og jafnvel áratugum saman að ljúka þessari hringleið, þ. e. a. s. að fullbyggja þessa hringleið, þannig að hún verði fær, a. m. k. að sumarlagi, en mestar líkur eru nú til þess, að hún yrði fær árið um kring.

Það hafa ýmsir verið að gera því skóna, að þessi till. mín, þótt hún hljóði ekki upp á það, mundi verða til þess að festa þetta gjald í sessi um óákveðinn og þá væntanlega nokkuð langan tíma. En ég vil nú spyrja: Eru einhverjir hv. alþm. svo bjartsýnir að halda það, að það verði nokkurn tíma létt af þeim skatti, sem búið er að leggja á í nokkur ár? Ég tel frekar litlar líkur til þess, og ég tel heldur ekki, að það sé endilega nauðsynlegt að leggja allt kapp á að afnema þennan skatt, ef honum er varið til þeirra hluta, sem bifreiðaeigendum á Íslandi og vegakerfi Íslands er til mestra nytja. Og það held ég, að sé óumdeilanlegt, að þessi ráðstöfun, sem lögð er til í þessari till., taki flestu því fram, sem landsmenn hafa verulegan áhuga fyrir, að verði betrumbætt í íslenzka þjóðvegakerfinu á næstu árum. Þess vegna tel ég, að það væri illa farið, ef menn sæju ekki nauðsynina á því að grípa einmitt þetta gjald, sem engin réttlæting er fyrir, að tekið verði sem skattur af bifreiðaeigendum. Úr því að heildarkostnaður við breytinguna í hægri handar akstur reyndist hærri en áætlað var, þá er ekki sanngjarnt að leggja það gjald á bifreiðaeigendur, heldur á það að borgast úr sameiginlegum sjóði, ríkissjóði, eins og bent hefur verið á. En það væri hins vegar til mikils hagræðis, ef skattur þessi, sem mér skilst, að muni nema einhvers staðar á milli 20 og 30 millj. kr. á ári, rynni óskiptur til þess að hraða þessari vegaframkvæmd, sem ekki hefur komið fram neinn ágreiningur um, að vert sé að leggja allt kapp á. (Gripið fram í: Í hve mörg ár?) Eins og til þarf. Svo geta menn lesið það. (Gripið fram í.) Þeir sérfræðingar ríkisstj., sem gerðu áætlunina um kostnaðinn við að breyta í hægri handar akstur, eru ekkert líklegir til þess að áætla það öllu vitlausar, hve mörg ár þetta gjald þyrfti að standa, til þess að hringvegurinn væri byggður að fullu, þ. e. a. s. byggður þannig, að hann væri fær alla leið. Auðvitað get ég ekki sagt um, hve mörg ár það yrðu. Fyrir mér er það heldur ekkert aðalatriði, heldur hitt, að þessi vegur komist á hið allra fyrsta.