14.04.1970
Neðri deild: 72. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

12. mál, umferðarlög

Frsm. minni hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þegar ég ræddi um fyrra frv., þ. e. a. s. um breyt. á l. um hægri handar umferð, þá gat ég um það, að ég ætlaði ekki að tala sérstaklega í sambandi við þetta frv. En þar sem frsm. lét þau orð falla, að við værum á móti frv., þá verð ég að leiðrétta það. Ef við hefðum verið á móti frv., þá hefðum við náttúrlega ekki verið flm. að þessari brtt., sem hann svo lýsti. Ég veit ekki, hvernig við hefðum átt að geta verið það. Það, sem við erum á móti í þessu efni, er ekki að setja á stofn nokkurs konar umferðarmálaráð, þ. e. a. s. að þeir aðilar, sem eru taldir upp í 2. gr., reyni að skipuleggja þessi mál og athuga og komast að niðurstöðu um, hvernig þeim sé bezt fyrir komið. Við erum á móti því að setja upp nýja stofnun í þessu tilliti til þess að framkvæma þau mál, sem löggæzlan í raun og veru hefur nú með höndum. Við teljum það óþarft. Þær brtt., sem við erum hér með, eins og ég gat um, miðast eingöngu við það. En við eigum auðvitað ýmislegt ógert í umferðarmálum okkar, og þessir aðilar, sem hér eru upp taldir í 2. gr., eru einmitt líklegir, ef þeir vinna saman, til að finna ýmsar leiðir og benda á það, sem betur mætti fara. En að fara að setja upp stofnun, sem kostar fleiri millj., eins og ætlazt er til, það getum við ekki fallizt á.