09.04.1970
Neðri deild: 70. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Utanrrh. (Emil Jónson):

Herra forseti. Mér hefur náttúrlega aldrei dottið það í hug, að með þessu frv. hafi verið fundið allt púður, því að þetta mál er erfiðara en svo, að hægt sé að búast við því, að í þessari tilraun felist möguleikar til þess að afnema alla galla eða bæta stjórn og framkvæmd þessara mála, eins og frekasta nauðsyn er fyrir. Það er náttúrlega alveg augljóst, að þetta frv. uppfyllir ekki allar óskir manna. En ég hef haldið fram og talið, að það mundi vera veruleg breyting til lagfæringar frá því, sem er, og alveg sérstaklega á því sviði, sem hér hefur verið mest talað um, og er það, sem kallar mest að, það er um fjármagnsútvegun til húsnæðismálakerfisins og rentur af þeim lánum.

Ég skal leyfa mér að fara nokkrum orðum um sumt af því, sem ég hef getað skrifað hjá mér og minnzt hefur verið á í þessum umr. Skal ég þá fyrst minnast á það, sem síðast var talað hér af hv. 9. þm. Reykv., sem taldi, að með þessu frv. væri seilzt allt of djúpt niður í vasa verkalýðsfélaganna, sem flest eða mörg a. m. k. væru búin að stofna til lífeyrissjóða, og þau væru ómegnug á þessu stigi til þess að lána úr sínum sjóðum eins og þau, sem lengur hafa verið við lýði og eiga meira fé úr að spila. Þess vegna væri ranglátt að láta eitt yfir þau ganga eins og þessi, sem sterkari eru og stærri. Þetta lítur vel út, þegar það er sagt. En við þetta er það að athuga, að þau verkalýðsfélög eða þeir lífeyrissjóðir, sem nýstofnaðir eru, eru ekki þess umkomnir að lána, eins og þeir þyrftu að lána. En með því að taka 25% af ráðstöfunarfé allra lífeyrissjóðanna er með nokkrum hætti verið að hjálpa þeim, sem ekki geta fengið fulla fyrirgreiðslu úr þessum yngstu lífeyrissjóðum, sem stofnaðir hafa verið. Það er náttúrlega augljóst, að þeir lífeyrissjóðir, sem eru gamlir og sterkir, eiga meira fé til þess að lána sjóðfélögum sínum. En þeir, sem nýstofnaðir eru, eiga það ekki. En með því að taka í heild þessi 25% af ráðstöfunarfé, sem lífeyrissjóðirnir í heild hafa safnað sér, þá er verið að safna fé til þess að geta fjölgað almennum lánum hjá húsnæðismálastjórn og þar með hjálpað þeim, sem eru meðlimir í verkalýðsfélögunum og í verkalýðsfélagalífeyrissjóðunum og geta ekki fengið þar þá fyrirgreiðslu, sem aðrir fá úr stærri lífeyrissjóðunum. Ég held þess vegna, að það sé ekki rétt að orða þetta svo, að það sé verið að seilast ofan í vasa lífeyrissjóða verkalýðsfélaganna með þessu frv., heldur sé þvert á móti verið að gera ráðstafanir til þess að gera mögulegt að auka almennu útlánin, sem þá náttúrlega þeir njóta, sem í lífeyrissjóðum verkalýðsfélaganna eru. Þetta held ég, að sé vert að taka með í reikninginn, þegar verið er að tala um lífeyrissjóði verkalýðsfélaganna.

Mér þótti ánægjulegt, að hv. þm. skyldi minnast á afskipti sín af skyldusparnaðarmálinu og þeim ráðstöfunum, sem hafa verið gerðar til þess að fá unga fólkið til þess að leggja í það að geyma nokkurn hluta af öflunarfé sínu og safna þannig til þess tíma, þegar að því kæmi, að það þyrfti m. a. að byggja. Hann sagði, að hann hefði verið með í því að stofna til 6% skyldusparnaðar unga fólksins til þess að leggja í húsnæðismálastjórnarpúlíuna. Nú eru þessi 6%, sem hann byrjaði með, orðin að 15%, og það er að vísu nokkru þyngra fyrir unga fólkið að leggja til hliðar 15% en 6% áður, en „prinsipið“ er þó hið sama. Og ég tel, að það hafi verið vel ráðið á sínum tíma, hvort sem það var fyrir forgöngu hans eða annarra, að til þessa skyldusparnaðar var stofnað, það sé gott fyrir unga fólkið, að þetta hafi verið gert, og það hafi náðst árangur með því að gera þetta.

En skyldusparnaðurinn er að sumu leyti ekki óskyldur þeirri ráðstöfun, sem nú er verið að gera á lífeyrissjóðunum. Þar er verið að flytja fé í bili til húsnæðismálastjórnarinnar frá unga fólkinu, sem hefur aflað þessara tekna, til þess að leggja í sjóðinn. Það er líka verið á sama hátt að taka nokkuð af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna til þess að leggja húsnæðismálastjórninni til í viðleitni sinni til þess að halda uppi sterkari lánastarfsemi. Þetta er rétt og þetta er hvort tveggja að mínu viti sjálfsagðir hlutir.

Það var sagt hér áðan, að þessar ráðstafanir á lífeyrissjóðunum væru eignaupptaka. Þetta er fjarri lagi. Það er engin eignaupptaka, sem gerð er í þessu frv. Það er fé fengið að láni, það er ekki tekið, eins og annars er gert, þegar um eignaupptöku er að ræða. Það er ekki skertur sjóðurinn. Hann er fenginn að láni til annarra hluta, en um eignaupptöku er þar alls ekki að ræða.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 9. þm. Reykv., minntist líka á vextina af skyldusparnaðarfénu, sem hann taldi vera of lága, þó að þeir væru 4% plús vísitölutrygging, en ég ætla, að í flestum tilfellum sé þessi vaxtafótur, 4% plús vísitölutryggingin, hærri en er hjá bönkunum með almennum vaxtafæti. Ég hygg það, þó að það hafi verið dregið í efa hér. Vísitöluhækkunin er mjög veruleg á þessu tímabili. (Gripið fram í.) Já, rýrnunin verður sú sama, hvort sem féð er lagt í banka eða það er lagt í þetta. Þegar vísitöluuppbæturnar koma frá húsnæðismálakerfinu, þá bætir það upp verðrýrnun að verulegu leyti og leggst við vaxtafótinn, þannig að heildarútkoman úr því ætti að vera ekki lakari en ef féð væri lagt í banka og fengnir af því almennir vextir.

Það hefur líka verið minnzt á í sambandi við verkamannabústaðina, að það væri ekki nægilega mikil trygging fyrir því, að þeir gætu fengið aðstoð hjá sveitarfélögunum, og þau mundu jafnvel koma í veg fyrir, að þessi samtök, eða hvað maður á að kalla það, yrðu stofnuð. Ég þori náttúrlega ekki að fullyrða neitt um þetta, en ég tel ákaflega ólíklegt, þegar sveitarfélag verður þess vart, að það getur fengið úr ríkissjóði jafnmikið framlag til bygginga á staðnum og sveitarfélagið leggur fram sjálft, að þá muni verða mörg sveitarfélög, sem komi í veg fyrir þetta framlag úr ríkissjóði til bygginga verkamannabústaðanna á þeim stað. Það mætti vera undarlega innrætt sveitarstjórn, sem gerði það, að mínu viti.

Nú vil ég geta þess í sambandi við verkamannabústaðina og þá breytingu, sem verður á kerfinu með þessu frv., að það er gert ráð fyrir, að byggingarfélögum verkamanna, sem hafa haft með höndum byggingar á umliðnum árum og ekki hafa lokið þessum byggingum sínum, verði veitt viðbótarfé, 200 þús. kr. á hverja einustu íbúð. Hv. alþm., sem hafa minnzt á verkamannabústaðakerfið, hafa ekki minnzt á þetta. En þetta er vissulega hjálp, því að það er svo á þó nokkrum stöðum, sem ég veit um, og má þó vera, að sé á fleiri stöðum einnig, að ekki hefur verið hægt að ljúka verkamannabústaðabyggingunum eftir gamla kerfinu, vegna þess að þeir, sem þar koma til greina að eignast íbúð, hafa alls ekki haft efni á því að leggja fram þá miklu upphæð, sem þurfti til þess að hægt væri að ljúka byggingunum, sem stofnað var til. Það var komið svo, að framlag til þessara verkamannabústaða þurfti að vera, frá eigendum sjálfum, byggjendunum, 40–50% af heildarkostnaði íbúðanna. Og það var náttúrlega greinilegt, að það er ekki hægt að gera með þeim tekjum, sem verkamenn nú hafa.

Þá er tekjumarkið, sem var minnzt á að væri of lágt. Það hefur nú verið hækkað úr 140 þús. upp í 200 þús., þannig að nú getur hver maður, sem hefur 200 þús. kr. á ári, fengið að komast að í þessi verkamannabústaðakerfi. Og þó er þessi upphæð sjálfsagt í flestum tilfellum hærri, því að í frv. segir líka, að það skuli vera 200 þús. kr. mark plús 20 þús. kr. fyrir hvert barn innan 16 ára, sem viðkomandi maður á. Og ef maður gerir ráð fyrir, að hann hafi tvö börn á sínu framfæri, 16 ára og yngri, þá verður þetta a. m. k. 240 þús. kr. og ýmsir eru það, sem eiga fleiri börn, og þeir náttúrlega hafa meiri þörf fyrir þessi verkamannabústaðakerfislán en þeir, sem eiga færri eða engin börn. Ég held, að með þessum 240 þús. kr. lánum sem viðmiðun, sé gengið mjög á móti þeim, sem þurfa á þessum verkamannabústaðalánum að halda. Það hefur verið sagt hér og meira að segja vitnað í Hagstofuna, — hv. 2. þm. Reykn. var með það í ræðu sinni hér í upphafi í kvöld, — að tekjur verkamanna væru miklu hærri en þetta. En ég vil nú segja, að það kemur mér á óvart, ef svo er. Þá eru tekjur verkamanna hærri en ég hafði haldið, ef meðaltalið hjá þeim er yfir 240 þús., ef ég reikna með tveimur börnum, sem er ekki óeðlilegt að gera. Og þeir, sem hafa minni tekjur en það eða allt upp í 240 þús. kr., hafa möguleika til þess að komast inn í verkamannabústaðakerfið, í staðinn fyrir að grunntalan í gamla kerfinu var 140 þús. kr., þannig að ég sé ekki betur en þarna sé um verulega bót að ræða frá því, sem var.

Þá var minnzt á Breiðholtskerfið svokallaða úti um landsbyggðina og talið hæpið, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, að halda því ekki áfram úti á landsbyggðinni. Ég sagði í frumræðu minni hér í dag, að ég teldi, að kerfi eins og Breiðholtskerfið kæmi fyrst til að njóta sín verulega, ef þetta væri byggt í mjög stórum stíl og miklu stærri stíl en víðast er mögulegt úti á landsbyggðinni. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, þó að það séu byggðar milli 10 og 20 íbúðir á hverjum stað þar, að þá verði að því mikill hagnaður að byggja þennan íbúðafjölda í einu lagi. Hagnaðurinn á fyrst að koma til greina, þegar byggðar eru nokkur hundruð íbúðir, eins og var ráðgert að gera hér í Reykjavík.

Ýmisleg önnur atriði hafa verið hér til umr. Hv. 5. þm. Norðurl. e. vildi halda því fram, fyrir utan þessi orð hans um eignaupptökuna, og fannst mér það merkilegast í hans máli, að hann gerði ráð fyrir og næstum því að segja fullyrti, að þetta frv. mundi ekki ná fram að ganga. Ég veit nú ekki, hvaðan honum kemur sú vizka. Ég fyrir mitt leyti er mjög vongóður um, að frv. nái fram að ganga, og vona, að það geri það, af því að ég tel, að í frv. felist ýmislegt til verulegra bóta.

Ég skal taka það fram sérstaklega út af því, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 9. þm. Reykv., minntist á í lok ræðu sinnar, þ. e. a. s. að það hafi verið afnumin 75 þús. kr. lánaviðbótin til meðlima verkalýðsfélaganna, að hugsunin við það að fella þetta í burt var sú, að þeir, verkalýðsfélagsmenn, sem kæmu til greina við úthlutun þessara íbúða, fengju aðild að verkamannabústaðabyggingum og gætu þar fengið miklu betri kjör en almenna lánið plús 75 þús. kr., því að það er óumdeilanlegt, að í verkamannabústaðakerfinu kemur ríkissjóður eða Alþ. til með að sjá um það, að lánin í því nema um 80% af kostnaðarverði og sennilega þá í kringum 960 þús. kr.

Ég bið afsökunar á því, ef ég hef farið skakkt með í frumræðu minni. Það var ekki lánsupphæðin, eins og ég sagði, sem var 1200 þús. kr., heldur var það áætlað kostnaðarverð íbúðanna. Það er alveg rétt.

En eigi að síður, þó að lánin verði ekki nema 960 þús. kr., þá er mikill munur á þeirri upphæð og venjulegu íbúðalánunum upp á 600 þús. kr. plús 75 þús. kr. til meðlima verkalýðsfélaganna. Með þessari 75 þús. kr. viðbót í almenna kerfinu fá þeir 675 þús., en ekki 960 þús., eins og þeir geta fengið í verkamannabústaðakerfinu. Og þetta hélt ég að gæti dugað til þess að vega á móti afnámi þessa 75 þús. kr. viðbótarláns. Hins vegar skal ég ganga inn á það fúslega, að ef talið verður, að þetta sé einhver brigð við verkalýðsfélögin, þá skal ég verða fyrstur manna til þess að fallast á að taka þetta upp aftur, ef það er talið nauðsynlegt. En ég taldi ekki, þegar var verið að breyta láni úr 675 þús. og upp í 960 þús., þá væri þar um neina brigð að ræða, heldur þvert á móti. Það hefur verið vitnað í þetta af öðrum eins og hv. 3. þm. Norðurl. e., sem taldi, að þarna væri um raunverulega lækkun að ræða, þar sem þessi 75 þús. væru tekin burt, sem áður voru veitt. En ég skil þetta þannig, að það sé ekki um lækkun að ræða, heldur þvert á móti sé hér um hækkun að ræða upp á nærri 300 þús. kr. á láni, af því að þeir munu komast flestir undir verkamannabústaðahámarkið, sem gert er ráð fyrir að sé 240 þús. með tveimur börnum, árstekjumarkið.

Þá voru ýmsir, sem hafa fett fingur út í 3. gr. frv., þ. e. a. s. þeir telja, að hún hafi verið skert með því að stytta hana, eins og gert hefur verið, og það séu ekki eins full ákvæði þar nú og í gömlu 3. gr. voru um starfsemi húsnæðismálastjórnar. Ég tel, að með þessari gr. sé ekki skert starfsemi húsnæðismálastjórnar, þar sem í núv. 3. gr. sé tekið upp allt það, sem máli skiptir. Það segir í henni, að Húsnæðismálastofnun ríkisins skuli vinna að umbótum í byggingarmálum, lækkun á byggingarkostnaði og almennri fræðslu um byggingarmálefni. Þó að um þetta sé fjallað með nokkru fleiri orðum í lögunum, sem nú eru í gildi, þá tel ég, að það sé ekki neitt aðalatriði. Aðalatriðið er, að þetta verði gert og fullnægt verði þeim ákvæðum, sem í gr. eru. Stofnunin getur starfrækt teiknistofu, eins og hún hefur gert áður, og hún getur fengið, sem er alveg nýtt í málinu, aðstoð Iðnaðarmálastofnunar ríkisins og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og annarra opinberra aðila, sem sérþekkingu hafa á málum þessum, til þess að gegna hliðstæðum hlutverkum hver á sínu sviði.

Meginatriðið og það, sem mest hefur verið rætt um, og það, sem að eðlilegum hætti mest veltur á, er um fjáröflun til kerfisins, bæði til almenna kerfisins og til verkamannabústaðakerfisins. Það hefur verið vefengt, að það væri nokkurt viðbótarfé fengið með þessari tilfærslu, eins og það hefur verið orðað, á fjármagni lífeyrissjóðanna, heldur væri það bara flutt frá einum lánveitandanum til annars, en viðbót kæmi þar engin. Ég vil í því sambandi endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að það er gengið út frá því, að þessi ákvæði til fjáröflunar verði ekki öll komin til framkvæmda á þessu ári, 1970, en ég sagði líka, að ég hefði loforð fyrir því frá bankakerfinu og Seðlabankanum, að það væri lánað úr þessum stofnunum til þess að brúa bilið, a. m. k. nokkuð á annað hundrað millj. til þess að setja inn í kerfið. Þetta er loforð, sem liggur fyrir, og þetta sýnir, hvers virði þetta kerfi er metið. Það eru 127 millj., held ég að ég megi segja, sem er gert ráð fyrir að bankakerfið láni á þessu ári, ef til kemur, að tekjustofnarnir komi ekki allir fram strax. Og þá þýðir það, að þetta fé a. m. k. kemur fram frá bankakerfinu og Seðlabankanum, á meðan hitt féð er ókomið, og þá þýðir það, að hitt féð muni verða af svipaðri stærð.

Það hefur líka verið talið, að það væri eiginlega ekki neitt og ósköp lítils virði, að viðbótarfjármagn ríkisins væri hækkað um 35 millj. eða úr 40 millj. og upp í 75. 35 millj. eru þó nokkurt fé, og ég vil segja, að þegar annað fé bætist við, sem ríkissjóður líka leggur fram til verkamannabústaðakerfisins, þá verður framlag ríkissjóðs miklu meira en þetta. Þegar fullt framlag ríkissjóðs er komið til verkamannabústaðanna, ef út í þá verður farið, og að byggðir verði 350, eins og hér er gert ráð fyrir í frv., sem ég efast um að vísu, að verði á fyrsta ári, þá er framlag ríkissjóðs og framlag sveitarfélaganna um 126 millj. Það þýðir, að ríkissjóður þyrfti að leggja fram helminginn af þeirri upphæð, eða 63 millj. þannig að þegar þetta er komið til framkvæmda, þá er heildarframlag ríkissjóðs til byggingarkerfanna beggja orðið yfir 100 millj., sem hv. 4. þm. Austf. taldi, að væri nákvæmlega sú upphæð, sem ríkissjóður þyrfti að leggja fram nú. Hann leggur þetta fram í þessa báða sjóði til samans. Þegar byggingaframkvæmdir verkamannabústaðakerfisins eru komnar til framkvæmda upp í þetta, sem í grg. segir, þá verður framlagið 35 millj. plús 63 millj. eða 98 millj. kr. (Gripið fram í.) Hann hefur lagt áður fram bara brot af þessari upphæð. Hann hefur lagt fram venjulegast kringum 60 kr. á mann í sveitarfélaginu, en það hækkar nú upp í 200–400 kr. á mann, svo að það er greinilegt, að þetta fé margfaldast með þessu nýja fyrirkomulagi.

Á yfirstandandi ári, taldi hv. 4. þm. Austf., að ekki væru teljandi viðbótargreiðslur, sem kæmu, og það er að vísu rétt. Það eru ekki teljandi viðbótargreiðslur frá ríkissjóði. En greiðslurnar koma þó frá lífeyrissjóðunum, eftirlaunasjóðunum, þannig að mat manna á því, hvað okkur hafi vantað til að fá þessar tekjur allar á árinu, nemur, eins og ég sagði áðan, um 127 millj. kr. Þá sagði hv. þm. í sambandi við þetta, og það hafa raunar fleiri sagt, að það væri röng aðferð að taka þetta fé af lífeyrissjóðunum og eftirlaunasjóðunum. Ég tel, að þetta sé ekkert ranglátara en skyldusparnaðurinn t. d. Það er engin eignaupptaka, síður en svo. Það er lán, sem er fengið hjá þessum sjóðum, og alveg eins og hefur verið gert ráð fyrir hjá skyldusparnaðarkerfinu.

En mér er nú spurn: Ef það er rangt að leita til lífeyrissjóðanna og eftirlaunasjóðanna með fjárframlag í þessu skyni, hver á þá að borga og hvar á að afla teknanna? Ríkissjóður, sagði hv. 4. þm. Austf., en ég er þá anzi hræddur um, að ríkissjóður teldi sig ekki geta gert þetta, nema hann teldi sig geta fengið einhvern tekjustofn á móti, og þá er maður kominn út í það að skattleggja almenning í landinu til þess að standa undir þeirri fjáröflun.

Þá er annað atriði, sem minnzt hefur verið á og ég að nokkru leyti get fallizt á, og það er, að það hefur verið talið ranglátt að hafa vísitölubindingu á þessum lánum. Þegar vísitölubindingin var fyrst lögð á, þá var gengið út frá því, að vísitölubinding yrði sett á öll eða flest lán til lengri tíma. Úr þessu hefur ekkert orðið, og ég get vel hugsað mér, að þetta verði tekið til endurskoðunar, og skal sannarlega ekki hafa á móti því, að það verði tekið til endurskoðunar, hvort ekki verði unnt að losna við vísitölubindinguna vegna þess, mundi ég segja, að hliðstæð ákvæði hafa ekki verið sett á önnur langtímalán, sem veitt hafa verið á þessu tímabili. Ég vildi gjarnan, að sú n., sem fær málið til athugunar, athugaði þetta, því að ég tel þetta hreint ekki fráleitt, heldur þvert á móti að með því mæli nokkur sanngirni.

Þetta eru, held ég, aðalatriðin í því, sem ég hef a. m. k. skrifað hjá mér. Það getur vel verið, að eitthvað hafi farið fram hjá mér, ég skal ekki mæla á móti því. En ég vil vona, að hugmyndir um það, að málið nái ekki fram að ganga, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., reynist ekki réttar, og vildi þess vegna leyfa mér að vonast eftir því, að hv. n., heilbr.- og félmn. þessarar d., taki málið til mjög gaumgæfilegrar skoðunar og kveði upp um það sinn dóm, svo að ekki verði um það villzt, hvort hér er um nokkra framför að ræða frá því, sem er, eða ekki. Hinu skal ég ekki halda fram og hef aldrei haldið fram, að þetta leysti allan vanda, heldur væri þetta spor í þá átt og gæti talizt til bóta.