30.04.1970
Neðri deild: 94. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessu frv. um Húsnæðismálastofnun ríkisins var vísað til heilbr.og félmn. 9. apríl. Við 1. umr. málsins hér í hv. þd. kom fram allmikil gagnrýni á þetta frv., og sömuleiðis eftir að það kom til fundar í n., þá kom þar bæði hjá nm. mikil gagnrýni á frv. og sömuleiðis komu margar umsagnir og áskoranir frá ýmsum félagasamtökum, þó alveg sérstaklega í sambandi við tölul. 3 í 6. gr. frv. um, að lífeyrissjóðir og eftirlaunasjóðir skyldu leggja fram sem svarar 1/4 af árlegu ráðstöfunarfé sínu, en með ráðstöfunarfé samkv. þessum tölul. er átt við tekjur af iðgjöldum, framlögum og vöxtum, afborganir af lánum að frádregnum bótagreiðslum og rekstrarkostnaði. Þessi félagasamtök mótmæltu því að skylda lífeyrissjóðina til þess að láta 1/4 af sínu ráðstöfunarfé í húsnæðismálakerfið, og fulltrúar lífeyrissjóða áttu viðræður við heilbr.- og félmn. Enn fremur ræddi n. ítarlega við þá, sem sömdu þetta frv., og spurði þá um fjölmörg atriði í sambandi við frv. og fékk hjá þeim ýmsar upplýsingar.

Þegar svo var komið, að almenn mótmæli höfðu komið fram, einkum gegn 3. tölul. 6. gr., þá sá n. ekki ástæðu til að halda áfram vinnu sinni við að afgreiða frv., nema þess væri freistað að ná samkomulagi um afgreiðslu þessa máls. Ríkisstj. tók málið til athugunar, og það hefur samizt um það nú fyrir nokkrum dögum á milli lífeyrissjóðanna og ríkisstj., eða réttara sagt hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkisstj., að lífeyrissjóðirnir legðu húsnæðismálakerfinu til á þessu ári 90 millj. kr., en jafnframt verði felldur niður 3. tölul. 6. gr. og auk þess ákvæði til bráðabirgða í frv., sem leiðir af því, að þessi tölul. er felldur niður.

Eftir að þetta var ákveðið, má segja, að ágreiningur um frv. hafi mjög minnkað. Hins vegar hefur n. farið ítarlega yfir frv. og gert á því allverulegar breyt., eins og sést á þskj. 798. N. í heild stendur að þessum brtt., en eins og fram kemur í nál., tekur Jón Kjartansson fram, að hann sé efnislega samþykkur öllum brtt., sem n. flytur, að undanskildum 3. og 4. lið í ákvæðum til bráðabirgða, en áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. við frv. Hannibal Valdimarsson áskilur sér rétt til að flytja og fylgja brtt., er fram kunna að verða bornar, og Jónas Árnason áskilur sér sömuleiðis rétt til þess að fylgja og flytja brtt. við frv.

Vegna þess að tími er mjög takmarkaður og það er hugur í þm. að ljúka störfum þessarar hv. d. nú í dag, ætla ég að reyna að stytta mál mitt eins og frekast er kostur, en annars hefði ég farið nánar efnislega út í frv. í heild. Ég ætla að leitast við að skýra þær brtt., sem fram eru bornar á þskj. 798.

1. brtt. er við 1. gr. um stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar. Breytingin er fólgin í því, að í staðinn fyrir 6 menn í stjórn samkv. frv. leggur n. til, að þar eigi sæti 8 menn, þar af 7 kosnir hlutbundinni kosningu af Sþ. og einn skipaður af félmrh. samkv. tilnefningu Landsbanka Íslands eða réttara sagt veðdeildar Landsbanka Íslands. Skýringin á því, að fjölgað er í stjórninni, er sú, að við teljum eðlilegt, til þess að hlutfall flokka njóti sín betur, að fjölga í stjórninni, og það má segja, að það sé í framhaldi af því, sem gert var hér á hv. Alþ., þegar fjölgað var í n. þingsins úr 5 mönnum í 7. Þá teljum við einnig rétt að bæta við í 1. gr., að félmrh. skipi Húsnæðismálastofnuninni framkvæmdastjóra og skrifstofustjóra að fengnum till. húsnæðismálastjórnar.

Það kom fljótt fram í umr. í heilbr.- og félmn. mikil óánægja með 3. gr. frv., og töldu menn almennt í n., að það ætti ekki að falla frá því, sem nú er í 3. gr. gildandi laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins, og má segja, að 2. brtt. við 3. gr. frv. sé að verulegu leyti eins og hún er nú í gildandi lögum. Þó skal það tekið fram, að nokkur atriði eru gerð fyllri og þeim breytt vegna aðgerða, sem síðar hafa verið gerðar, og tvö atriði eru felld niður, sem við töldum ekki ástæðu til að setja inn í 3. gr. Sömuleiðis er felld niður heimild húsnæðismálastjórnar að láta undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum með því að láta gera skipulagsuppdrætti af þeim í samráði við Skipulagsnefnd ríkisins. Það má segja, að síðan þessi ákvæði voru sett í lög 1965, eru komin ný skipulagslög, og þess vegna teljum við ekki ástæðu til að halda þessum hluta 3. gr. í frv. Eins og fram kemur í brtt., er hér mjög ítarleg framsetning á því, hverju Húsnæðismálastofnunin á að vinna að í umbótum í byggingarmálum og lækkun á byggingarkostnaði, og ætla ég ekki að fara frekar út í þessa liði, nema tilefni gefist frekar til, til þess að spara hér frekar tíma, því að ég hygg, að þdm. muni ekki þurfa frekari skýringar á þessari gr., því að hún skýrir sig sjálf.

Á 4. gr. gerum við nokkra breyt., að vísu ekki efnislega breyt., heldur þá, að hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins skuli vera að annast lánveitingar til íbúðabygginga annarra en þeirra, sem Stofnlánadeild landbúnaðarins lánar fé til, svo og að standa straum af framkvæmdum, sem húsnæðismálastjórn kann að ráðast í til lausnar á húsnæðisvandamálum almennings. Sömuleiðis hefði ég talið ástæðu til að gera d-lið þessarar gr. fyllri eða hafa á honum skýrara orðalag en er í frv., en efnislega er ekki um neina breyt. að ræða, og við leggjum til, að hann orðist þannig: „Afborganir og vextir lána, sem veitt hafa verið af eigin fé, eða veitt verða af framlögum ríkisins til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis.“

Þá gerum við till. við a-lið 6. gr., að orða upphaf 6. gr. nokkru mildar en gert er í frv., þannig að eftirtaldir aðilar kaupi skuldabréf (bankavaxtabréf) samkv. 5. gr. o. s. frv. í staðinn fyrir „skylt er“, og svo að 3. tölul. þessarar gr. falli niður, sem ég gat um í upphafi máls míns.

Þá flytjum við brtt. við D-lið 7. gr., en þar segir: „Erlend lán, sem Byggingarsjóður ríkisins eða veðdeild Landsbanka Íslands kunna að taka til íbúðabygginga.“ Við leggjum til, að niður falli orðið „Erlend“, og það komi: „Lán, sem Byggingarsjóður ríkisins“, o. s. frv. Við teljum ekki ástæðu til að miða þetta við erlend lán.

Við 8. gr. leggjum við til, að allmikil breyting verði gerð frá frv. og það er þá sérstaklega í sambandi við a-lið þessarar gr., en þar leggjum við til, að niður falli frá því, sem er í frv.: „Lán skal þó að jafnaði því aðeins veita, að loforð um lánveitingu hafi verið gefið áður en hlutaðeigandi byggingarframkvæmd hófst eða kaup á nýjum íbúðum eru gerð.“ Við teljum enga ástæðu til þess að hafa þessi ákvæði í lögum, þó að það sé sagt „að jafnaði“, því við teljum enga ástæðu til þess, að mönnum sé refsað fyrir það, ef þeir hefja húsbyggingu, eftir að umsóknarfrestur um lán húsnæðismálastjórnar er úti, — að þeir, sem hefja húsbyggingu án þess að hafa sótt um til húsnæðismálastjórnar, e. t. v. vegna þess að þeir hafi ekki verið ákveðnir í að byggja fyrr en það, þurfi að sækja undir högg hjá stórri n., hvort þeir fái síðar lán til byggingar, vegna þess að þeir sýna framtakssemi að byrja byggingu, en bíða ekki næsta árs, eftir að slíkt opinbert leyfi er fengið.

Sömuleiðis finnst okkur í heilbr.- og félmn. það heldur ströng ákvæði að verða að hafa fengið áður loforð um lánveitingu, vegna kaupa á nýjum íbúðum. Ég hygg, að ef menn ætluðu að kaupa nýjar íbúðir í trausti þess að fá lán frá Húsnæðismálastofnuninni, mundu þeir missa af kaupunum, sem ættu að bíða eftir svari frá opinberri stofnun, og þeir mundu þá frekar geta keypt húsin, sem þyrftu ekki á láni að halda. Þess vegna teljum við, að þetta eigi tvímælalaust að falla niður úr 8. gr., eins og við gerum með okkar brtt.

Ég vil biðja hv. þdm. afsökunar á því, að það hefur fallið niður við þennan a-lið 8. gr. eitt orð í vélritun, sem ég vil leiðrétta hér. Það er í 2. málsgr. hér: „Húsnæðismálastjórn er heimilt, meðan á byggingartíma stendur, að veita lán“, — það á að vera:

„að veita framkvæmdalán til byggingarsamvinnufélaga, byggingameistara, byggingafyrirtækja, sveitarfélaga og annarra byggingaraðila, sem byggja íbúðir, er seldar verði fullgerðar til einstaklinga, sem fullnægja lánareglum húsnæðismálastjórnar.“

Frá frv. höfum við bætt hérna inn í „og annarra byggingaraðila“. Það er gert vegna þess, að athugasemd kom fram, m. a. frá Öryrkjabandalagi Íslands, að með þessu ákvæði, eins og það væri í frv., mundu þeir ekki njóta þessara framkvæmdalána, og sömuleiðis gæti verið um að ræða fleiri aðila, góðgerðafélög og ýmis félög, sem auðvitað ættu ekkert síður en byggingameistarar og byggingarsamvinnufélög að njóta þessara framkvæmdalána. Við teljum, að með þessu orðalagi nái þetta ákvæði til allra, eins og til er ætlazt.

Þá höfum við sett inn í þessa gr., að ráðh. setji nánari ákvæði í reglugerð að fengnum till. húsnæðismálastjórnar. Við teljum eðlilegt, að húsnæðismálastjórn geri till. um reglugerðir, sem ráðh. staðfesti, en ráðh. láti ekki einn semja reglugerðir, án þess að hafa um það samráð við húsnæðismálastjórn.

Í frv. er nýmæli, að húsnæðismálastjórn er heimilt að verja allt að 25 millj. kr. árlega til lánveitinga til kaupenda eldri íbúðarhúsa. Við leggjum til, að þetta ákvæði verði óbreytt að öðru leyti en því að hækka þessa upphæð úr 25 millj. kr. í 50 millj. Persónulega er ég þeirrar skoðunar, að þetta ákvæði hefði átt að vera í byrjun. Það hefði kannske orðið frekar til þess, að margir þeir, sem efnalitlir eru, hefðu ekki farið út í of stórar framkvæmdir og of dýrar, heldur haldið betur við gömlum húsum, og sérstaklega er það mikilvægt atriði fyrir ungt fólk, sem er að stofna til heimilis og á lítið til, að fá á þennan hátt stuðning hins opinbera að kaupa á þennan hátt ódýrari eignir, sem koma því þó að sömu notum, en að ráðast í dýrar byggingaframkvæmdir, sem það ef til vill hefur ekkert ráð á að ráðast í.

Við höfum talið rétt líka að setja hér inn í, að ráðh. setji með reglugerð ákvæði um úthlutun, lánstíma og tryggingar slíkra lána að fengnum till. húsnæðismálastjórnar. Við teljum auðvitað, að lánstími til kaupa á eldri húsum geti ekki verið jafnlangur og lánstími út á ný hús, og sömuleiðis verður það að ráðast, á hvern hátt á að vera um tryggingar fyrir þessum lánum. Öll lán húsnæðismálastjórnar út á ný hús eiga að vera tryggð með 1. veðrétti í viðkomandi fasteign, en við kaup á eldri húsum er rétt að hafa það í huga, að veðdeild Landsbanka Íslands hefur hafið lán vegna endurbóta á gömlum húsum, að vísu ekki há lán, 150 þús. kr., og til tiltölulega skamms tíma, og ég hygg, að það sé rétt munað hjá mér, að lögum samkv. má veðdeildin ekki lána nema út á 1. veðrétt í þessum húsum. Þess vegna tel ég, að það sé hægt með þessu ákvæði að setja í reglugerð, að fólk geti fengið þessi lán samhliða láni, sem hvílir á viðkomandi eign hjá veðdeild Landsbanka Íslands, en auðvitað sjálfsagt að setja í reglugerð, hve hátt þetta lán á að vera, og þá eðlilegt að miða við t. d. brunabótaverð viðkomandi fasteignar.

B-liður brtt. við 8. gr. er aðeins leiðrétting á málfari í frv., ekki annað.

Við 10. gr. leggjum við til í sambandi við kaflann um sparnað til íbúðabygginga, að „nemi hin innlagða upphæð minnst 20 þús. á ári, er skylt að láta þá, er taka þátt í innlögum þessum, sitja fyrir um lán til íbúðabygginga frá húsnæðismálastjórn, að öðru jöfnu, og mega þau lán vera allt að 25% hærri en almennt gerist.“ Við teljum ekki ástæðu til að hafa þetta „að öðru jöfnu“, heldur skilyrðislaust og leggjum því til, að þau orð falli niður.

Við 11. gr. leggjum við til, að komi til viðbótar: „kaupir eða byggir íbúðir til eigin þarfa“. Það er til þess að átta sig á því, að þegar sá, sem sparað hefur fé og lagt í sjóð samkv. 1. málsgr. 11. gr., hefur náð 26 ára aldri eða stofnað til hjúskapar, verði það fyrr, að það komi til viðbótar: „kaupir eða byggir íbúðir til eigin þarfa“. Og svo neðst í þessari sömu gr., að í staðinn fyrir 100 þús. komi 150 þús., en þessi forgangsréttur til þess að fá þessi 25% hærri lán er bundinn því skilyrði, að sparifjársöfnun þeirra, sem að byggingu hlutaðeigandi íbúðar standa, nemi samanlagt 100 þús. kr. í frv. og eldri lögum. Við hækkum þá upphæð um 50%.

Í sambandi við 12. gr., d-lið, þá hefur ekki verið breytt upphæðinni, að þeir, sem hafa börn eða aðra skylduómaga á framfæri sínu, þó ekki þeir, sem hafa yfir 30 þús. kr. skattskyldar tekjur, eru undanþegnir sparnaðarskyldu. Við förum með þetta upp í 75 þús. kr., sem er auðvitað eðlileg breyting, eins og orðið hefur á verðgildi peninga, því þessi upphæð er búin að vera lengur í lögum en frá 1965.

Þá leggjum við til, að í e-lið 12. gr. falli niður orðið „nýjar“, en í sambandi við undanþágu sparnaðarskyldu hefðu verið samkv. frv. undanþegnir þeir, sem kaupa eða byggja nýjar íbúðir til eigin þarfa, en við teljum auðvitað enga ástæðu til þess að undanþiggja ekki þann, sem kaupir, þótt íbúðin sé eitthvað notuð, og leggjum því til, að þetta orð falli niður.

Í upphafi 16. gr. segir:

„Stjórn verkamannabústaða skal, þegar eftir að hún hefur verið skipuð, rannsaka þörfina fyrir byggingu verkamannabústaða í sveitarfélaginu. Í því skyni getur hún auglýst eftir væntanlegum umsækjendum“ o. s. frv.

Við breytum því. Í stað „í því skyni getur hún“ komi: í því skyni skal hún auglýsa eftir væntanlegum umsækjendum.

Við 22. gr. frv. segir, að þegar sveitarfélag hefur byggingarframkvæmdir samkvæmt 15.–21. gr., þá skal fjár aflað til þeirra, eins og þar segir og a-liður er svo: „Væntanlegur íbúðareigandi skal leggja fram 20% byggingarkostnaðar án opinberrar aðstoðar.“ Við teljum ekki ástæðu til að hafa í lögunum: „án opinberrar aðstoðar“, og leggjum til, að það falli niður.

Við 23. gr. leggjum við til, að gerðar verði nokkrar breyt. frá frv., en þar segir, að íbúðir í verkamannabústöðum skuli vera 2–4 herbergja auk eldhúss og byggðar í fjölbýlishúsum, og síðar í þessari gr. segir, að íbúð í verkamannabústað megi eigi vera stærri en 100 fermetrar. Við teljum ekki ástæðu til að hafa herbergjafjölda þarna, fólk eigi frekar að fá að ráða sjálft eftir fjölskyldustærð, hvað bezt hentar í þeim efnum, og því leggjum við til, að þessi 3. málsgr. 23. gr. orðist svo:

„Íbúðir í verkamannabústöðum mega ekki vera stærri en 100 fermetrar og byggðar í fjölbýlishúsum. Heimilt er þó að byggja íbúðirnar í sambýlishúsum, raðhúsum eða einbýlishúsum, ef um litla byggingaráfanga er að ræða eða gildandi skipulag krefst slíkra frávika. Ráðh. getur með reglugerð sett nánari ákvæði um stærð íbúða miðað við fjölskyldustærð.“

Þegar talað er um litla byggingaráfanga, þá er auðvitað fyrst og fremst átt við hina minni staði, þar sem ekki er þörf á að byggja nema fáar íbúðir.

Við 24. gr. leggjum við til, að í sambandi við rétt til þess að kaupa verkamannabústað, þá hafi hann þeir einir, sem fullnægi ákveðnum skilyrðum, eins og þar kemur fram. Í fyrsta lagi: „Eiga lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi og hafa átt það síðustu tvö árin fyrir úthlutun.“ Við leggjum til, að það falli niður og liðurinn orðist aðeins þannig: Eiga lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi. Til skýringar á þessari till. n. skal ég geta þess, að þá höfðum við í huga, að ef fjölskylda hefði flutt lögheimili sitt og býr þar við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu, en hefur ekki dvalizt í því lögsagnarumdæmi í full tvö ár, þá væri hún sett hjá við úthlutun íbúða í verkamannabústöðum. Það hygg ég, að flestir muni telja ranglátt, og því leggjum við til, að þessi breyting verði gerð. Þá leggjum við til, að í stað 200 þús. kr. árstekna miðað við meðaltal þriggja síðustu ára hækki í 220 þús. kr., en í núgildandi lögum er þessi upphæð 120 þús. að viðbættum 10 þús. kr. fyrir hvert barn innan 16 ára, en sú upphæð er samkv. þessu frv. hækkuð í 20 þús. kr.

Þá teljum við rétt, og það er samkv. ábendingu ráðuneytisstjóra félmrn. að breyta í 26. gr. tilvísuninni „samkv. 22. gr. C“ í 2. og 4. málsl. 3. mgr., að það sé fyllra, að í stað þess komi: úr Byggingarsjóði verkamanna. Það er í rauninni engin efnisbreyting.

Þá höfum við lagt til, að nokkur breyt. verði gerð á ákvæðum til bráðabirgða, 1. lið, en 2., 3. og 4. liður haldast óbreyttir, en 5. og 6. liður í frv. eru samkv. okkar till. felldir niður, sem er afleiðing af því að fella niður 3. tölul. 6. gr.

Þá höfum við bætt við 5. lið í ákvæði til bráðabirgða, að „húsnæðismálastjórn er heimilt til ársloka 1970 að veita viðbótarlán úr Byggingarsjóði ríkisins til efnalítilla meðlima verkalýðsfélaga, allt að 75 þús. kr. á íbúð.“ Við teljum rétt, að þetta falli ekki niður við gildistöku laganna, heldur sé þetta látið gilda til ársloka, teljum það sanngjarnt og eðlilegt eftir atvikum.

Eins og ég sagði í upphafi var mikill ágreiningur um þetta frv., og þó auðvitað alveg sérstaklega í sambandi við lífeyrissjóðina. Það er búið að leysa það mál fyrir þetta ár, en fyrir næsta ár á eftir að leysa mikið og erfitt mál í sambandi við fjáröflun til húsnæðismála, því að þá hækka samkvæmt þessu frv., ef það verður að lögum, lánveitingar húsnæðismálastjórnar og fjármagnsþörfin heldur áfram að aukast.

Eitt af því, sem kom til umr. í n. og einn úr minni hl. n. kom nokkuð inn á, var vísitöluákvæði húsnæðislánanna. Á það getum við, fulltrúar stjórnarflokkanna, ekki fallizt að afnema vísitöluákvæðin, en ég vil í sambandi við það minna á, að það er rétt, að þau rök hafa komið fram, að vísitöluákvæði á útlánum eiga sér eiginlega ekki stað annars staðar en í sambandi við þessi mál. Þó eru til ákveðnar, smávægilegar undantekningar frá því, en þá verðum við að hafa í huga, að þegar vísitöluákvæðið var tekið upp, þá voru vextir af húsnæðismálalánum lækkaðir mjög verulega. Ég hygg, að það sé rétt munað hjá mér, að vísitöluákvæðið var tekið upp árið 1964, en þá voru vextir frá 71/4% upp í 91/4% af húsnæðismálalánum, og má segja, að vextir á þeim tíma hafi verið að meðaltali um 81/4%. Vextirnir lækkuðu við þessa breytingu niður í 4%, þannig að í raun og veru eru engir vextir lægri en vextir af húsnæðismálalánum. Það þyrfti því, ef á að fara inn á þær brautir að afnema vísitöluákvæði, auðvitað að hækka vexti verulega, því að hvort sem fénu er varið í þessu skyni eða öðru, á tímum útþenslu og á þeim tímum, þar sem peningar verða alltaf verðminni, — og það er ekki eingöngu í okkar þjóðfélagi, heldur í raun og veru öllum þjóðfélögum, sem við þekkjum til, — þá verða þessir peningar með tímanum að engu. En þessar eignir, sem lán eru tekin út á, hækka að sama skapi. Og ég verð nú að segja fyrir mitt leyti, að ég hef nú aldrei sjálfur tekið húsnæðismálalán, en ég keypti hús eða íbúð með húsnæðismálaláni, ég held, að það sé rétt munað, að það sé eitthvað um 190 þús. kr., og greiðslan á ári er milli 15 og 16 þús. kr., þar með talin afborgun, liðugar 5 þús. kr. Hitt eru vextir og vísitöluákvæði, og ég tel enga ástæðu til þess að vera að sleppa mönnum með góðar tekjur við þetta ákvæði. Það má segja, að til séu menn, sem mættu mjög gjarnan sleppa við þetta, en út frá þessu get ég ekki fallizt á þessa röksemd og gerði þetta hér að umræðuefni, vegna þess að þetta kom til tals við 1. umr. málsins hér í hv. þd.

Ég sé ekki á þessu stigi ástæðu til þess að fjölyrða frekar um efni frv. eða þessar brtt. Ég vona, að mér hafi tekizt að skýra þær fyrir hv. þdm., og eins og ég tók fram í upphafi, þá hefði ég e. t. v. kosið að ræða húsnæðismál almennt og miklu ítarlegar en ég hef gert, ef þingið hefði nógan tíma. En þar sem að því er stefnt að ljúka störfum þessarar hv. þd. nú í dag, þá ætla ég ekki að hafa þessi orð fleiri.