30.04.1970
Neðri deild: 94. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú orðið þannig, eins og hér hefur komið fram í umr., að tími er ekki til að ræða þetta mál ítarlega, og verður það því að eiga sig að þessu sinni, en það hefði vissulega verið ástæða til þess að ræða allítarlega um efni þessa frv.

Mér sýnist ljóst, að þær breyt., sem hv. heilbr.- og félmn. gerir till. um að gera á frv., séu mjög mikilsverðar og séu allar til bóta. Ég verð að segja, að ég hefði gjarnan óskað eftir því, að sumar þær till. hefðu verið nokkuð á annan veg, nokkru fyllri, en um það þýðir ekki að fást úr því sem komið er.

Ég stend hér að því að flytja nokkrar till. til viðbótar þeim, sem fulltrúi Alþb. í heilbr.- og félmn. stendur að. Ég flyt hér á þskj. 816 þrjár brtt. með hv. 6. landsk. þm., Geir Gunnarssyni. Þær till. eru í fyrsta lagi við 3. tölul. 6. gr., en þar gerum við ráð fyrir, að Seðlabanki Íslands verði skyldaður til þess að kaupa skuldabréf Húsnæðismálastofnunarinnar fyrir 100 millj. kr. á ári. Það er skoðun okkar, að það sé eðlilegt, að það sé hlutazt til um það, að nokkur hluti af sparifjármynduninni í landinu gangi á hverju ári til kaupa á skuldabréfum Byggingarsjóðs ríkisins, og við teljum, að þessi upphæð sé sízt of há, af því að það þarf að tryggja byggingarsjóði meiri tekjur en gert er ráð fyrir í þessu frv. að okkar áliti.

Í öðru lagi leggjum við til í brtt. okkar, að sú breyt. verði gerð á 24. gr. frv., að tekjumarkið fyrir þá, sem lán geta fengið úr verkamannabústaðakerfinu, verði hækkað í 250 þús. kr. árstekjur, en heilbr.- og félmn. hefur nú gert till. um að hækka markið úr 200 þús. í 220 þús., sem er vissulega í áttina. En við teljum, að það ætti að hækka þetta a. m. k. í 250 þús. kr. árstekjur, ef það ætti að vera tryggt, að flestir verkamenn og sjómenn gætu átt þess kost að fá lán úr þessu kerfi.

Þriðja till. okkar er við 25. gr. frv. En þar leggjum við til, að 4. málsl. gr. verði orðaður á annan veg en segir í frv. Í frv. er þessi liður orðaður þannig:

„Að úthlutunarfresti liðnum úthlutar stjórnin [þ. e. a. s. stjórn verkamannabústaða á hverjum stað] íbúðunum til væntanlegra kaupenda, enda liggi fyrir staðfesting húsnæðismálastjórnar á því, að fullnægt sé skilyrðum samkv. 24. gr.“, þ. e. a. s. um tekjumarkið.

Við leggjum til, að þessi málsliður verði orðaður þannig:

„Að úthlutunarfresti liðnum úthlutar stjórnin [þ. e. a. s. stjórnin í verkamannabústaðafélaginu á hverjum stað, verkamannabústaðarstjórnin á hverjum stað] íbúðunum til væntanlegra kaupenda, enda liggi fyrir, að þeir fullnægi skilyrðum samkv. 24. gr.

Við sjáum enga ástæðu til þess, að þurfa að fara að senda þetta enn einu sinni suður til húsnæðismálastjórnar frá byggðarlögum úti á landi. Það er gert ráð fyrir því, að húsnæðismálastjórn eigi fulltrúa í hverri einstakri nefnd, og því álítum við, að hver n. fyrir sig eigi að gæta þess að fara að lögum og reglum og það þurfi ekki að hafa þennan hátt á.

Þá flyt ég eina brtt. með hv. 2. landsk. þm., Eðvarð Sigurðssyni. Er sú brtt. við brtt. á þskj. 798 frá heilbr.- og félmn. Í 15. brtt. heilbr.- og félmn. er undir tölul. 5 lagt til, að húsnæðismálastjórn verði heimilt til ársloka 1970 að veita viðbótarlán úr Byggingarsjóði ríkisins til efnalítilla meðlima verkalýðsfélaga, allt að 75 þús. kr. á íbúð. Við leggjum til, að þetta: „til ársloka 1970“, verði fellt niður, sem sagt að heimild húsnæðismálastjórnar verði ótímabundin til þess að veita þessi viðbótarlán. Þessi viðbótarlán eru nú veitt samkv. sérstöku samkomulagi, sem gert var á milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna á sínum tíma. Þessi viðbótarlán til meðlima verkalýðsfélaga voru hugsuð þannig, að þarna ætti að vera nokkurt jafnvægi á móti þeim viðbótarlánum, sem fjöldamargir aðrir aðilar hafa, eða þeir, sem eru í lífeyrissjóðum. Nú er alveg sýnilegt, að félagar í verkalýðsfélögum munu ekki fá lán úr lífeyrissjóðum sínum til húsbygginga fyrst um sinn. Það tekur nokkur ár að vinna sér rétt í þeim lífeyrissjóðum eins og öðrum til slíkra lána: Því álítum við það, að þessi viðbótarlán eigi að halda áfram, ekki aðeins á þessu ári, heldur einnig í nokkur ár enn. Ég hefði viljað vænta þess, að hv. heilbr.- og félmn. hefði tekið það til sérstakrar athugunar að veita þessa heimild handa húsnæðismálastjórn lengri tíma en aðeins á þessu ári.

Ég skal svo ekki vegna þess tímaskorts, sem hér er um að ræða, hafa um þetta fleiri orð að sinni, en vissulega hefði ég kosið, að gerðar yrðu enn þá fleiri breyt. á þessu frv. en hér liggja fyrir. Ég tel, að það séu allmörg ákvæði enn í frv., sem raunverulega kalli á breyt., en það verður varla um það að ræða, eins og tíma Alþ. er komið nú, að fá þær breyt. fram. Geri ég þær því ekki frekar að umtalsefni nú að þessu sinni.