30.04.1970
Neðri deild: 95. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ein af till. þeim, sem við fluttum við 2. umr. um þetta frv., við hv. 6. landsk. þm., Geir Gunnarsson, kom ekki til atkv. Það var sú till. okkar, sem gerði ráð fyrir því, að í staðinn fyrir 3. tölul. 6. gr. frv., þar sem gert var ráð fyrir því, að skylda lífeyrissjóðina til þess að kaupa skuldabréf húsnæðismálakerfisins, þar kæmi grein, sem gerði ráð fyrir að skylda Seðlabanka Íslands til þess að kaupa skuldabréf lánakerfisins fyrir 100 millj. kr. á ári. Þar sem þessi till. kom ekki til atkv., þá leyfi ég mér að flytja hana hér við 3. umr., og hún verður að vera skrifleg. Er þá till. þannig, að við 6. gr. komi nýr tölul., svo hljóðandi: „Seðlabanki Íslands 100 millj. kr. á ári.“ Ég hef áður gert grein fyrir efni till. og sé því ekki ástæðu til að ræða hana frekar, en óska þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir henni.