04.05.1970
Efri deild: 91. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að tala hér langt mál, enda eru menn orðnir fúsir til þess að fara heim af þingi, en ég hafði hugsað mér að flytja ásamt hv. 11. þm. Reykv. tvær brtt. við frv., og það er aðaltilefnið til þess, að ég kom hér upp í ræðustólinn.

Þó vildi ég aðeins, áður en ég vík að þessum brtt., segja það, að ég tel það að vísu ákaflega fjarri lagi, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þetta frv. væri stórt spor í framfaraátt, því að ég held, að fyrir því sé ekki hægt að færa nein rök, að svo sé, þó að sjálfsagt sé að viðurkenna það, sem rétt er, að sitthvað í þessu frv. horfir til bóta frá því, sem áður hefur verið, sérstaklega eftir að búið er að sníða af því í meðferð þingsins verstu vankantana, sem á því voru, og á ég þar sérstaklega við þann harkalega leik, er leika átti lífeyrissjóðina.

Ræðumaður sagði, að það væri röng stefna hjá lífeyrissjóðunum að ætla að verða einhvers konar ríki í ríkinu, slíkur „prívat-kapítalismi“ gengi ekki, þeim eigi að verja til þjóðarheilla. Nú er það svo, að flestir lífeyrissjóðirnir hafa það að sínu meginverkefni að verja fé sínu til þess að lána það til húsnæðismála, og sé ég ekki, að neinn sé bættari með því að bæta þar inn í neinum milliaðila til að afhenda það fé. Það er auðvitað margt, sem þarna kemur fleira til greina, t. d. það, sem snýr að okkur landsbyggðarmönnum á þeim stöðum í landinu, þar sem ekki er þörf bygginga, þar sem fólki fjölgar ekki, en þarfirnar eru aftur á öðrum sviðum gífurlega miklar, og mér finnst ákaflega eðlilegt, að fé lífeyrissjóðanna, sem þar til fellur, verði fyrst og fremst notað til þess, en ekki til byggingarmála hér á höfuðborgarsvæðinu. En það er náttúrlega ekki nein ný stefna, að þessi fjárfesting fari fram. Öll lög um Húsnæðismálastofnunina stefna að stórfelldum flutningi fjármagns úr byggðum landsins og inn á höfuðborgarsvæðið. Það er kannske ekkert mikið við því að segja, en á það hygg ég þó ekki vera bætandi. Hitt er svo allt annað mál, að ég tel það vera rétta stefnu og sjálfsagða, að þegar fleiri en einn aðili fást við slík mikilvæg verkefni eins og húsnæðismálin, þá taki þeir a. m. k. mið hver af öðrum og hafi um þau nauðsynlega samvinnu.

Það, sem mér finnst höfuðgallinn við þetta frv., er það í fyrsta lagi, að í því felst í raun og veru sáralítil eða jafnvel engin aukning á ráðstöfunarfé til byggingamála í landinu. Og annað það, sem ég tel ekki minni galla, að í frv. felast engar úrbætur, sem draga verulega úr húsnæðiskostnaðinum. Ég held, að ein mesta nauðsyn í sambandi við húsnæðismálakerfið væri að finna því tekjustofn, sem ekki væri ætlaður til að auka eigið fé sjóðsins, heldur miklu fremur til þess að greiða niður vextina og lækka þannig með þeim hætti húsnæðiskostnaðinn. Það er í raun og veru eina leiðin, sem við höfum, ef við eigum ekki að halda áfram að búa við þann óhæfilega húsnæðiskostnað, sem öðru fremur hefur verið verðbólguvaldurinn í okkar þjóðfélagi. Það verður að beina fjármagni til þess að bæta þessi kjör. Ekkert slíkt felst í þessu frv. Ég hefði t. d. talið fullkomlega frambærilegt núna, miðað við þá afkomu, sem atvinnuvegirnir í þjóðfélaginu hafa, að launaskattur hefði verið hækkaður um 1/2 til 1% og það fé látið renna til að lækka vextina með einhverjum hætti, annaðhvort með því að hverfa frá vísitölulánakerfinu, sem ég tel vera ákaflega ósanngjarnt, sérstaklega vegna þess að engin önnur lán í landinu eða svo til engin eru veitt með slíkum hætti, eða þá að bæta kjörin á annan hátt.

Hér á síðustu stundu þýðir kannske ekki mikið um þetta að tala, og læt ég útrætt um það, en ég legg áherzlu á það, að ég held að þetta frv. leysi alls ekki vandann með fullnægjandi hætti, jafnvel þó að sagt sé, að hér sé um gagngerða endurskoðun á frv. að ræða. Sannleikurinn mun vera sá, að húsnæðismálastjórn hafi unnið alllengi að endurskoðun laganna, en málið síðan verið tekið úr höndum hennar og aðrir — ég er ekki að segja óhæfir menn, — hafi tekið verkefnið að sér og haft mjög skamman tíma til þess að ljúka því, enda ber meðferð þingsins á frv. þess greinileg merki, að það hefur ekki verið um vandaða vinnu að ræða.

En sem sagt, ég hef ekki fyrst og fremst ætlað að tala hér til þess að ræða almennt um frv., heldur um þessar tvær till., sem við hv. 11. þm. Reykv. ætlum að biðja forseta að leita afbrigða fyrir.

Fyrri till. er við 1. gr., þ. e. a. s. um skipun húsnæðismálastjórnar. Það gæti orðið ærið tilefni til umræðna, hvernig slík stjórn á að vera skipuð, og inn í þær umr. gæti gjarnan borizt ómurinn af því umtali, sem hefur að undanförnu farið fram hér á hv. Alþ. um nefndir. En það er ekki einasta, að nefndunum fjölgi, og ætla ég ekkert að ræða um það. Stundum kann það að vera nauðsyn, stundum ekki. En það er annað, sem er að gerast og hefur verið að gerast á seinni tímum, að það er ekki nægilegt, að nefndunum sé fjölgað, heldur er alltaf verið að fjölga í nefndunum. Yfirleitt eru þær nefndir, sem fyrir fáum árum voru 5 manna n., nú orðnar 7 manna n., og nú með þessu frv. er farið í það að gera þessa úthlutunarnefnd að 8 manna n. Ég held, að þessi þróun geti ekki talizt til neinna bóta, það út af fyrir sig að fjölga stöðugt í n. í þeim eina tilgangi, að gömlu pólitísku flokkarnir geti með sæmilegum friði skipt störfum í n. á milli sín. Ég held, að þar þurfi að hafa önnur sjónarmið.

En það, sem meginmáli skiptir í sambandi við þá till., sem við erum hér með, er, að við teljum, að það sé a. m. k. tilraunanna vert að hverfa frá því pólitíska úthlutunarkerfi, sem ríkt hefur í húsnæðismálunum og hefur vægast sagt reynzt misjafnlega, oft illa og í annan tíma misjafnlega. Ég vil þó taka það skýrt fram, að þar á ég ekki á nokkurn hátt við það, að starfsmenn þessarar stofnunar hafi ekki unnið störf sín af kostgæfni og ævinlega verið gott til þeirra að leita, jafnt þeirra, sem þar starfa nú, og annarra. Og auðvitað hefur það verið svo, að í þessari n. hafa verið mætir menn, a. m. k. innan um, skulum við segja, og það ber ekki heldur að skoða þessa till. sem sérstaka árás á þá persónulega. Hins vegar er það mín skoðun a. m. k. og ég hygg líka hv. meðflm. míns, að þessu mætti skipa með betri hætti, ekki kannske fyrst og fremst ódýrari hætti, því að það er kannske minnst á mununum í þeirri súpu, sem þarna er hrært í, hvort nm. eru 5 eða 8, heldur hitt, að við teljum, að þessi mál ættu fremur að vera í höndum annarra en beinna fulltrúa pólitísku flokkanna.

Ef við athugum málið aðeins lauslega, þá sýnist auðsætt, að þetta er auðvitað mál allrar þjóðarinnar. Það er vissulega rétt að reyna að lækka húsnæðiskostnað og þeim málum sé skipað á sem hagkvæmastan hátt. En á engum hvílir þetta þó þyngra, hvernig fer um þessi mál, en annars vegar almenningi, launafólkinu í landinu, og hins vegar þeim, sem við atvinnurekstur fást. Og það er skoðun okkar, að þessum málum væri betur borgið á margan hátt í höndum þessara aðila og þá undir forustu ríkisvaldsins en í því pólitíska kerfi, sem við höfum haft slæma reynslu af og ég ætla ekki að fara að efna til umr. um með því að taka einstök dæmi, en þar er vissulega af nógu að taka, því misferli, sem hefur átt sér stað bæði fyrr og síðar.

En meginefni þessarar till. okkar er sem sagt það, að í stjórninni skuli eiga 5 menn sæti, eins og nú er, og með því að spara að bæta þar 3 við algerlega að óþörfu. Skulu tveir þeirra vera skipaðir samkv. sameiginlegri tilnefningu Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þ. e. a. s. launamannanna, stærstu samtaka launamanna annars vegar, og hins vegar tveir eftir tilnefningu fjögurra stærstu samtaka atvinnurekstrarins í landinu, og loks sé einn skipaður af ráðh., og sé hann formaður n. Varamenn skulu vera jafnmargir og valdir á sama hátt.

Það er öllum ljóst, að hér er auðvitað um gagngerða breytta skipan á þessum málum að ræða. En ég er sannfærður um það, að þessum málum verður naumast skipað, svo að vel fari til frambúðar, öðruvísi en um þessi grundvallarmál, vil ég segja, í okkar hagkerfi sé mjög mikið og náið samband á milli hagsmunasamtakanna, bæði atvinnurekenda og launþega, og í þá átt gengur þessi till. að koma þeirri skipan á, að hverfa frá pólitíska úthlutunarkerfinu.

Ég ætlaði mér að verða stuttorður, og ég skal efna það, enda skýrir till. sig sjálf. Ég hygg, að það þurfi ekki að útlista hana fyrir hv. dm. með mörgum orðum, til þess að þeir skilji, hvaða hugsun liggur þar á bak við og hver meining okkar flm. er.

En við erum einnig með aðra till., að vísu ekki stórvægilega. Hún er við 15. gr., þar sem í frv. er svo kveðið á nú, að þegar sveitarfélag hefur ákveðið að byggja bústaði samkv. verkamannakerfinu, skuli þar skipuð stjórn, tveir frá húsnæðismálastjórn, tveir frá sveitarfélögum og einn frá verkalýðsfélaginu. Ég tel, að þegar horfið er frá því að hafa þessi mál í höndum samtaka þeirra, sem húsin og íbúðirnar byggja, þá sé hlutur þeirra, sem byggja eða þeirra, sem gætu skoðazt hinir eðlilegu fulltrúar, gerður lítill samanborið við fulltrúa bæjarfélagsins og húsnæðismálastjórnar, þannig að till. okkar er um það, að í stjórninni eigi aðeins sæti þrír menn, það verði jafnræði milli þessara þriggja aðila, sveitarstjórnarinnar, húsnæðismálastjórnarinnar og verkalýðsfélaganna á viðkomandi stað.

Ég hef þessi orð mín ekki fleiri, herra forseti, en vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari till.