24.03.1970
Neðri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Öllum hv. þm. er væntanlega kunnugt um það, að nú stendur yfir endurskoðun á lögum um Landnám ríkisins. En ég hef bara litið svo á, að það hafi verið og sé í raun og veru nægilegt svigrúm innan ramma laganna, eins og þau eru núna, til þess að nota það fé, sem Landnámið hefur haft til umráða, en skert var með þeim ákvæðum, sem hér eru til umræðu. En sé nú ekki að dómi stjórnarvalda nægilegt svigrúm til þess, innan ramma laganna, eins og þau hafa verið, þá álít ég, að það hefði tvímælalaust verið réttara af hæstv. landbrh. eða ríkisstj. að afla sér nauðsynlegra heimilda til þess að framkvæma skynsamlegar aðgerðir í þá átt, sem ég vék að áðan. Ég held nefnilega, að það dragi enginn það í efa, að nægileg verkefni séu fyrir hendi við skynsamlegar framkvæmdir í þeim tilgangi að tryggja búrekstraraðstöðu manna á þessu eða hinu svæðinu. Og ég endurtek: Ef það var skoðun ríkisstj., að heimildir væru ekki nægilegar innan ramma laganna, eins og þau eru núna, sem ég álít að sé, þá hefði verið eðlilegra að afla sér slíkra heimilda — miðað við þörfina — heldur en að ganga í það að skera framlög til Landnámsins niður. Mér finnst það skjóta skökku við, ef við, sem nú vinnum að endurskoðun þessara laga, áreiðanlega með þeim huga að færa út starfssvið Landnámsins á öðrum sviðum um leið og nýbýlastofnunin dregst saman, ef við ættum nú að stuðla að því að skerða framlögin, ef við höfum það svo í hyggju að efla starfsemina strax aftur á næsta ári. Og ég á erfitt með að trúa því, að það verði auðveldara að ná framlögunum upp, eftir að einu sinni er búið að skera þau niður.