24.03.1970
Neðri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vesturl. sagði, að hann hefði von til þess, að veðdeildin mundi fá einhverja fjármuni eða einhverja úrlausn á næstunni, og það gleður mig mjög, að hann skuli segja það hér á Alþ. Vonandi er, að það verði fljótlega sem við fáum að heyra eitthvað frekar um það.

En í sambandi við það, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði áðan, að lögin væru í endurskoðun og það væri þess vegna ekki hægt að gera neitt í þessu máli, þá verð ég bara að benda hv. þm. á það, að á árunum frá 1957 til 1964, á 7 ára tímabili, var þessi styrkur hækkaður þrisvar sinnum, en frá 1964 hefur hann staðið í stað, þó að byggingarvísitalan háfi tvöfaldazt á þessu tímabili. Árið 1957 voru lagðar í þessa starfsemi 6.5 millj. kr. 1962 voru þetta rúmlega 9 millj., sem hækkuðu 1964 upp í 11.9 millj. kr. Þetta frv., sem hér er til umr., felur í sér heimild til að lækka þessa greiðslu um enga smámuni. Þannig er á þessum málum haldið núna.

Ég verð að ítreka þær spurningar, sem ég lagði áðan fyrir hæstv. landbrh., hvort það séu virkilega ekki væntanlegar neinar till. eða neinar breytingar á styrkveitingu til íbúðarhúsabygginga í sveitum nú á þessu þingi. Ég hafði líka vænzt þess, að hann svaraði þeirri spurningu, sem ég lagði fram hér áðan, um það, hvort ekki væri von á fjármunum í veðdeildina. Þó að hv. 4. þm. Vesturl. hafi að vísu svarað þessu, þá lagði ég þessar spurningar fyrir hæstv. ráðh., og vil ég endurtaka ósk mína um að fá svör við þeim.