25.11.1969
Efri deild: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

2. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út á s.l. sumri, en aðalefni þessara brbl, var að breyta lánakjörunum á 1. áfanga hinna svonefndu Breiðholtsíbúða til hagsbóta fyrir kaupendur. Þessu frv. var vísað til heilbr.– og félmn. og hefur n. athugað það og varð sammála um, að mæla með samþykkt þess, þó með breytingu á fyrirsögn frv., en í fyrirsögn þess hafði aðeins verið vísað til heildarlaganna um Húsnæðismálastofnun ríkisins, en láðst hafði að vísa einnig til þeirra breytinga á þessum heildarlögum, sem voru þó forsendur fyrir byggingu þessara svonefndu Breiðholtsíbúða, þar sem kveðið var á um hin sérstöku lánakjör til þeirra. Einstakir nm. áskildu sér þó rétt til þess að flytja brtt. við frv. eða styðja brtt., er fram kynnu að koma.

Upphaf þessa máls má rekja til yfirlýsingar, sem ríkisstj. gaf út um húsnæðismál hinn 9. júlí 1965, en í þessari yfirlýsingu segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir meðlimir verkalýðsfélaga, sem fá kost á að kaupa nær 200 íbúðir á ári, sem að framan greinir, skulu eiga kost á allt að 80% lánum út á verðmæti íbúðanna að meðtöldu gatnagerðargjaldi. Útborgun sé þannig hagað, að 5% greiðast ári áður en inn er flutt, en síðan 5% á ári í 3 ár. Lán húsnæðismálastjórnar út á íbúðir þessar sé afborgunarlaust, meðan á útborgunartíma stendur.“

Þetta ákvæði var síðan lögfest, að vísu ekki orðrétt, en mjög svipað efnislega. Það var síðan lögfest með lögum frá því í des. 1965, l. nr. 97 frá 27. des. Þegar svo kom að því, að 1. áfangi Breiðholtsíbúðanna var byggður og það þurfti að fara að beita þessu ákvæði, kom í ljós, að það var ekki heppilegt að skipta þannig lánunum, að útborguninni væri ekki lokið, þegar íbúðarkaupandinn flytti inn. Eftir að hann hafði fengið íbúðina afhenta og afsal fyrir henni, þá var hann eiginlega með tvenns konar skuldir. Annars vegar þurfti hann að greiða 5% á ári tvö fyrstu árin og auk þess að borga stóra lánið. Þá var þetta auðvitað mjög erfitt fyrir íbúðarkaupandann, að þurfa fyrstu tvö árin að borga 5% af íbúðarverðinu hvort ár og auk þess að greiða vexti af stóra láninu til húsnæðismálastjórnar, þó að hann þyrfti ekki að borga afborganir á meðan. Þetta kom auðvitað mjög illa við þetta fólk og það sýnir náttúrlega eftir á, að það væri miklu æskilegra að hafa þetta alveg á hreinu, þannig að útborgun sé lokið, þegar kaupandinn fær íbúðina afhenta og þá taki bara eitt lán við. Þegar svo ofan á þetta bættist, að fólkið átti auðvitað við erfiðleika að etja, eins og aðrir, af völdum þeirra efnahagsörðugleika, sem hér hafa steðjað að, minni atvinnu og lægri tekna, þá var þetta sérstaklega þungbært og þurfti að gera ráðstafanir til þess að létta undir með greiðslu þessara 5% í 2 ár, eftir að inn var flutt. Því voru gefin út þessi brbl., en í þeim segir, að lán þau, sem íbúðareigendum höfðu verið veitt samkv. 2. mgr. c–liðar 7. gr. l. og eiga að greiðast upp á árunum 1969–1970, sem sagt þessi tvennu 5%, skuli greiðast upp með jöfnum afborgunum á næstu 6 árum, 1970–1975, og er það auðvitað aðgengilegra fyrir fólkið að fá þessu dreift á fleiri ár. Reynslan, sem af þessu hefur fengizt, leiðir hugann að því, á hvern hátt sé eðlilegast að standa að lánveitingum út á íbúðir til láglaunafólks. Kemur þá í ljós, að ef mjög há lán eru veitt út á íbúðir, svo sem 80–90%, þá er alltaf einhver hluti af þessu fólki, jafnvel í venjulegu árferði, sem á erfitt með að standa undir þessu, því að auðvitað verður þungi afborgana og vaxta þeim mun meiri því hærra sem lánið er. Af þessu má álykta, að það sé æskilegt, að grípa í sumum tilfellum til þeirra ráða, að leysa húsnæðisvandamál þess fólks, sem á við erfiðust kjör að búa, með leiguíbúðum, húsaleigustyrk eða einhverju þess konar, en það sé mjög örðugt að hjálpa því á þann hátt, að veita mjög há lán út á íbúðirnar. Þetta er e.t.v. miklu stærra mál og ég skal ekki fara að gera það hér að umtalsefni, aðeins drepa á, að þessi reynsla, sem af þessu hefur fengizt, vekur mann til frekari hugleiðinga um þetta efni.

Tveir af hv. nm. í heilbr.– og félmn. hafa flutt hér brtt. við frv., sem fram kemur á þskj. 113. Hún er í tvennu lagi. A–liður þeirrar brtt. hljóðar á þá leið, að í staðinn fyrir „nýr stafliður“ komi nýir töluliðir. Vissulega getur þessi till. verið sjálfstæð og er hún eiginlega sjálfsögð, því að þegar um tölustaf er að ræða, er réttara að kalla þetta tölulið heldur en staflið. Þess vegna er þessi leiðrétting í alla staði eðlileg. En það er b–liður þessarar brtt., sem ég vildi gera frekar að umtalsefni, en þar segir, að aftan við gr. skuli koma nýr tölul., svo hljóðandi:

„Heimilt skal veðdeild Landsbanka Íslands að veita lántakanda gjaldfrest í eitt ár, ef hlutaðeigandi hefur orðið fyrir fjárhagslegum áföllum vegna atvinnuleysis eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum.“

Hér er að vísu aðeins um heimild að ræða til handa veðdeildinni, ef þetta yrði samþ. Ég bar þetta undir forstöðumann veðdeildarinnar, hvort það væri æskilegt að fá slíka lagaheimild og spurði hann, hvernig háttað væri innheimtu hjá veðdeildinni, þegar um það væri að ræða, að menn lentu í vanskilum vegna fjárhagslegra örðugleika. Forstöðumaðurinn taldi, að í þeim tilfellum, þegar sannanlega væru slíkar ástæður fyrir hendi, þá væri vægilega á þessu tekið og menn fengju þá í reynd nokkurn gjaldfrest, til þess að reyna að afla sér fjár, og þeir tækju yfirleitt vægilega á því eftir öllum atvikum. – Hann myndi aldrei til þess, að í slíkum tilfellum hafi ein einasta íbúð verið sett á nauðungaruppboð. Hins vegar var forstöðumaðurinn heldur andvígur því að gera þetta beinlínis að lagaheimild, af óttanum við það, að þá mundu nú e.t.v. fleiri fara að sækja um slíkan gjaldfrest, heldur en hefðu fyllstu ástæðu til og það væri alltaf hætta á misnotkun og óhæfilega mikilli ásókn í slíkan gjaldfrest, ef þetta væri beinlínis sett í lög. Hans niðurstaða varð því sú, að þarna hefði fólk ekki undan neinu að kvarta í sambandi við innheimtuaðgerðir veðdeildarinnar, en hins vegar, ef beinlínis væri farið að setja þetta í lög, væri hætta á misnotkun. Þetta vildi ég láta koma hér fram.

Ég ítreka þá afstöðu heilbr.– og félmn. að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. með þeirri breytingu við fyrirsögn frv., sem ég gat um áðan, en að öðru leyti hafa nm. óbundnar hendur til að flytja brtt. eða styðja till., sem fram kunna að koma.