29.04.1970
Neðri deild: 91. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Frsm. minni bl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það er nú raunar þýðingarlítið að ræða mál hér á hv. Alþingi, þegar svona er að unnið. Hér á að setja nýjan fund eftir tæpan klukkutíma og flestir eru farnir af þeim sökum. Þess vegna mun ég ekki halda langa ræðu núna, en geyma hana til 3. umr.

Ég vil fagna þeim orðum, sem hæstv. síðasti ræðumaður sagði hér á þessum stað áðan. Það leyndi sér ekki af orðum hans, að það voru þung spor fyrir hann að þurfa að ganga upp í þennan stól til þess að mæla með samþykki þessa frv. Hann leyndi því ekki heldur. Og það er fullvíst, að það munu fleiri af þeim mönnum, sem styðja ríkisstj., sem greiða ekki atkv. með þessu frv. með glöðu geði, þó þeir láti hafa sig til þess. Hins vegar lít ég svo á, að það sé engin afsökun fyrir afstöðu þessara manna, þó að fjárl. hafi verið afgreidd á þann hátt, sem þau voru afgreidd hér fyrir jólin, vegna þess að hér eru ekki þeir fjármunir miðað við heildarupphæðina, að þeir skipti miklu máli. Við heyrðum það hér í gær, að hæstv. menntmrh. lýsti því yfir, að ríkisstj. ætlaði sér að borga úr sameiginlegum sjóði til að standa undir hallanum af Þjóðleikhúsinu, þó að engin heimild sé fyrir því í fjárlögum þessa árs. Þegar viljinn er fyrir hendi, þá eru allir hlutir framkvæmanlegir hjá hæstv. ríkisstj. En það, sem við leggjum til, hæstv. 5. þm. Austf. og ég, er að þetta frv. verði fellt, en verði svo ekki og verði það afgr. til 3. umr., þá munum við koma fram með ýmsar brtt. við stofnlánadeildarlögin.

Í fyrsta lagi munum við leggja til, að þetta fjármagn, sem þarna er um að ræða, fari til veðdeildarinnar, þessar 7.5 millj. kr. Í öðru lagi munum við leggja til að hækka styrkinn til íbúðarhúsa í sveitum úr 60 þús. kr. í 120 þús., sem er til samræmingar við það, sem hann ætti að vera miðað við verðgildi peninganna nú og miðað við setningu laganna frá 1964. Og í þriðja lagi munum við koma með brtt. um, að vextir af lánum til íbúðarhúsa verði lækkaðir úr 6% niður í 2% til samræmingar því, sem er verið að gera nú í sambandi við verkamannabústaðina. En eins og hv. alþm. vita, þá er nú bæði í lögum um verkamannabústaði og eins Stofnlánadeildarinnar, að það er Seðlabankinn, sem ákveður vextina, en þeir eru 6% í báðum tilfellunum. Þetta munum við leggja til við 3. umr.

Frsm. meiri hl. landbn., hæstv. þm. Bjartmar Guðmundsson, gat um þá spá, sem Efnahagsstofnunin hefur gert. En þó að ég ætli ekki í þetta sinn að tala langt mál, þá vil ég bara benda hæstv. þm. á það, að þetta frv. er m. a. flutt til þess, að þetta rætist. Það framlag, sem við fengum nú í Stofnlánadeildina, sem er það sama og í fyrra, þrátt fyrir það að framkvæmdamáttur hverrar krónu hafi minnkað, er til þess, að þessi spá rætist, og einnig hitt, að veðdeild Búnaðarbankans er orðin algjörlega vanmegnug og hefur ekki nú á þessu ári nema 6.6 millj. kr. til útlána, þó hún borgi ekkert af þeirri skuld, sem hún er í við Búnaðarbankann, þ. e. 15 millj. kr. Það hefur ekkert verið gert í þessum málum, og það er til þess líka, að þessi áætlun rætist. En hefur hv. þm. tekið eftir því, hvernig þetta hefur verið á undanförnum árum? Eftir þessum sömu þskj. og hann vitnaði í voru bændurnir 6 700 fyrir 15–16 árum, en eru taldir 5 þús. í dag. Og miðað við þessa spá væri enginn landbúnaður til á Íslandi um aldamótin. En þessi þróun er fyrst og fremst á valdi þessara manna, hæstv. þm., sem ræddi hér áðan, og annarra. Ef þeir létu svona frv. og ýmislegt annað, sem er verið að koma hér fram, ekki komast í gegn hér á Alþ., þá mundi þessi spá ekki rætast.

Herra forseti. Að þessu sinni sé ég ekki ástæðu til að teygja þessar umr. langt fram á matartíma. Ég mun ræða þetta mál við 3. umr., þegar við leggjum fram þær till., sem ég lýsti, ef hv. þd. verður ekki við till. okkar um að fella þetta frv.