30.04.1970
Neðri deild: 93. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég verð að lýsa því yfir, að ég er á móti þessum brtt., vegna þess að ég tel, að það sé þegar búið að ráðstafa þeim peningum, sem þær fjalla um, við afgreiðslu fjárlaga.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. fór um það nokkrum orðum í gær, að ekkert væri við það að athuga, þó þetta mál væri fellt, þó áður væri búið að afgr. það jákvætt í vetur í sambandi við fjárl. Ég tek undir það með honum, að þetta muni vera möguleiki. Hins vegar tel ég, að það fari ákaflega illa á því, ef Alþ. kemur þannig á móti sjálfu sér nokkrum mánuðum eftir að það hefur fallizt á að samþykkja þetta í fjárl. Það var athugað, hvernig þetta var afgr. við fjárlagaatkvgr. Með þeim lið, sem þetta er fólgið í, voru 38 þm. Er því augljóst, að nokkrir fleiri en stjórnarliðar hafa samþ. þetta. Maður veit ekki hve margir og ekki heldur einu sinni, hvort allir stjórnarliðar hafi verið með þessu. Það kom ekki fram nein brtt., svo að ég muni, við þennan lið við afgreiðslu fjárl., ekki einu sinni sú að taka árið 1971 út úr, sem við meirihlutamenn nú höfum flutt till. um og er búið að samþykkja.

Þá fór hv. þm. nokkrum orðum um það, að mikið hafi verið um bændafækkun nú hin síðustu ár. Ég hef því miður ekki fullgildar tölur um það, hvernig þessi mál standa nú, miðað við fyrri hluta áratugsins, en samkvæmt þeim skýrslum, sem ég hef náð í, hafa bújarðir á landinu verið taldar 4875 árið 1962 eftir skýrslum frá 1965 eða 1966. En núna eru þær 4660. Þetta er talsverð fækkun, en þó er þess að geta, að mikill hluti af þessum 215 jörðum mun hafa runnið saman við aðrar jarðir, þ. e. a. s. þetta hafa verið smájarðir, sem hafa runnið saman við aðrar. Þetta er því ekki ýkjamikil breyting, þó hún sé að vísu ekki í þá áttina, sem ég hefði óskað að hún væri. Bændur eru nú taldir 4917, en þeim þó sleppt, sem hafa minnstu búin, þ. e. a. s. 4–6 kúgildi. Þar af leiðandi lítur út fyrir, að bændur séu þó enn nokkuð yfir 5000. Sambærilegar tölur við þetta hef ég ekki frá því fyrr á áratugnum, því sannast að segja er ákaflega örðugt að taka svona tölur upp, vegna þess að það er mjög á reiki, hverjir eru kallaðir bændur. Það gera samvinnubúin eða félagsbúin, sem eru mjög mörg í landinu, og það er sitt á hvað, hvort þar er talinn einn bóndi á búi, tveir eða jafnvel þrír.

Svo hef ég lítið meira um þetta að segja, nema það, að ég tók eftir því í ræðu hv. þm. í gær, að hann sýndi mér alveg sérstaka virðingu. Hann nefndi mig hæstv. hvað eftir annað og það er náttúrlega gott að taka við virðingarheitum, en hæstv. er nú notað hér aðeins um ráðh. og forseta, og ég er alveg úrkula vonar um, að ég verði nokkurn tíma ráðh. eða forseti, ekki einu sinni varaforseti.

Hissar sér og hækkar sig

hann á lofti og borði

og hefur tekið að heiðra mig

sem hæstvirtan í orði.