30.04.1970
Neðri deild: 95. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ætla nú, að við hv. 5. þm. Norðurl. e. höfum ekki ýkja-ólíkar skoðanir á landbúnaðarmálum, þó hann skammaði mig hér þéttingsfast í gær fyrir það, að ég væri á móti landbúnaðarmálum og sveitunum, af því að ég væri hræddur við ríkisstj. En það tek ég ekki nærri mér. En ég ætla, að þessar umr. um þetta frv. hafi orðið næsta gagnlegar. Ég lýsti skoðun minni hér í gær á því atriði, sem mjög er nú rætt um í þjóðfélaginu, sérstaklega í þéttbýlinu, að landsbyggðin, hin gisna byggð, eigi næsta lítinn rétt á sér. Hún sé of dýr fyrir þjóðlífið.

Til staðfestingar á því, að þessar raddir séu allháværar, tók ég t. d. glefsu úr þskj., sem liggur hér á borðum okkar, þar sem vitnað er beinlínis í Efnahagsstofnunina sjálfa, og ég taldi, að það hlyti að vera góð heimild. Undir þessa álitsgerð, sem er að finna í þessu þskj. um olíuhreinsunarstöð, rita Jón Arnalds, Sigurður R. Helgason og Kristinn Zimsen. Þetta munu allt vera menn, sem vinna á stofnunum, sem eru a. m. k. í nánum tengslum við sjálfa Efnahagsstofnunina, ef ekki einhver þeirra vinnur hreinlega í henni. Ég dró fram mynd af því, hvernig útlits mundi verða hér á landi eftir 15 ár, ef þessi „veðurspá“, — ég held að ég hafi viðhaft það orð, — frá Efnahagsstofnuninni, sem ég taldi að mundi vera rétt eftir höfð, yrði að veruleika. Og það var og er ekkert glæsileg mynd.

Nú hefur það gerzt, að forstjóri Efnahagsstofnunarinnar kannast ekki við, að þetta sé frá henni komið. Þetta er auðvitað talsvert furðulegt. En ég skal ekki fara út í það. En hitt vil ég segja, að ég fagna því, að Efnahagsstofnunin hefur svarið fyrir þennan króga. Og ég vil vænta þess, að hennar störf, hennar leiðbeiningar, hennar till. og hennar álitsgerðir hnígi frekar í þá átt að koma í veg fyrir, að svona hörmulega fari fyrir hinni dreifðu byggð, eins og maður ætlar eða verður að ætla að fari, ef þessi „veðurspá“ þeirra er rétt.

Svo hef ég ekki meira um þetta að segja. Ég tel, að þessar umr. hafi orðið gagnlegar og vakið athygli góðra manna á því, að hér er um töluvert alvarlegt mál að ræða.