30.04.1970
Neðri deild: 95. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við það, sem síðasti ræðumaður sagði áðan. Hann stóð að því áðan að breyta vöxtunum á lánum til verkamannabústaða, sem voru 6% áður, niður í 2%. Þeir voru jafnháir á lánum til íbúðarhúsa í sveitum og til verkamannabústaðanna, og ef réttlætistilfinning hans er eins og hann vill vera láta, þá vonast ég til þess, að hann skoði hug sinn, áður en hann greiðir atkv. með frv.

Annars er það ekki fyrir það, að við séum með nein yfirboð, heldur skoraði ég á hæstv. landbrh. að koma sjálfur fram með þessar till. og boðaði það fyrir löngu, að við mundum gera það annars. En það hefur nú ekki gerzt, heldur hefur hann viljað láta strikið sitt vísa rétt, eins og stefnan hefur verið undanfarið. En nú sjáum við, hvort hv. þm., sem hér var að tala áðan, vill rétta hlut þeirra, sem eru að byggja í sveitunum, á sama hátt og hann hefur staðið að í kvöld að rétta hlut hinna, sem eru að byggja eða munu byggja í bæjunum, því að það liggur fyrir skjalfest, sem hann reynir sjálfsagt ekki að mæla á móti, að bændastéttin er lægst launaða stétt landsins.