25.11.1969
Efri deild: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

2. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Hér eru aðeins örfá orð. Það frv., sem hér um ræðir, er staðfesting á brbl., sem ríkisstj. sá sig tilneydda til þess að setja vegna fjárhagsörðugleika þess láglaunafólks, sem íbúðirnar við Breiðholt voru byggðar fyrir. Það er vissulega full ástæða til þess og allt rétt, sem hv. frsm. sagði um það, að það er auðvitað ofviða þessu fólki að greiða stuttu lánin, eða fimm plús fimm %, á svo skömmum tíma sem ráðgert var, til viðbótar við vextina af háa láninu. Og hv. frsm. sagði það réttilega, að eins og nú hagar til, væri það mjög mikil spurning, hvort hægt væri að gera því skóna yfirleitt, að ýmsu af þessu láglaunafólki tækist að eiga sína eigin íbúð, hvort þessi mál þyrfti ekki að leysa með öðru móti, með leiguíbúðum, húsaleigustyrkjum eða e.t.v. einhverju enn öðru. Nú er það vitað, að nokkuð er gert af því að leysa þessi mál, hér í Reykjavík a.m.k., með leiguíbúðum, þar sem ég hygg, að Reykjavíkurborg leigi einstaklingum ýmsar íbúðir, þ.á.m. í Breiðholtshverfi, en selji ekki og hafi af því nokkurn kostnað. En þetta finnst mér leiða hugann að því, hvort ekki sé nauðsynlegt fyrir Íslendinga að gera sér grein fyrir því í raun og veru, hvort við eigum að gefast upp í glímunni við það vandamál, að hlutfallið milli launa og húsnæðiskostnaðar sé þannig, að það sé stór hópur fólks í landinu, sem sé gengið út frá að geti ekki átt sitt eigið húsnæði. Ég hygg, að allir flokkar, nema e.t.v. Alþb., hafi haft það sem stefnuskráratriði að vilja stuðla að því, að sem allra flestir einstaklingar gætu búið í eigin íbúðum og reynslan sýnir það, að langflestir landsmanna vilja eiga sitt eigið húsnæði. Nú hefur það komið fram, að fjöldi þeirra getur það ekki vegna þess, að launin eru of lág og vegna þess, að húsnæðið er of dýrt, eða réttara sagt, hlutfallið milli byggingarkostnaðarins og launanna er svo óhagstætt, að þetta verður mörgum ofviða. Hér er þó verið að tala um fólk í starfi. Hér er ekki verið að tala um öryrkja og annað fólk, sem af einhverjum ástæðum hefur ekki venjulegar tekjur. Hér er verið að tala um það fólk, sem hefur venjulegar tekjur, verkamenn og iðnaðarmenn og aðra launþega. Mér finnst þetta vera mjög alvarlegur hlutur, þegar það er orðið viðurkennt af opinberri hálfu, að þetta fólk geti raunverulega ekki átt sínar eigin íbúðir. Nú væri e.t.v. hægt að halda því fram, að þessar íbúðir í Breiðholtinu væru t.d. óeðlilega stórar, þannig að þetta fólk gæti átt íbúðir, ef þær væru bara minni. Ég hef heimsótt fólk í nokkrum íbúðum þarna og ég get ekki meint, að þessar íbúðir séu óhæfilega stórar. Ef við tökum t.d. tveggja herbergja íbúðirnar, þá eru þar hjón með tvö börn í tveimur herbergjum. Það þýðir náttúrlega það, að svefnherbergið er aðeins eitt. Getum við gert öllu minni kröfur? Í fjögurra herbergja íbúð kom ég um daginn. Þar eru hjón með fimm börn. Þarna er stofa og svefnherbergi hjóna og tvö lítil herbergi fyrir fimm börn. Eigum við að fara neðar í kröfugerðinni? Ég get nefnt mörg fleiri dæmi. Ég kom þarna í margar íbúðir og niðurstaðan verður nokkurn veginn sú sama. Ég vildi vekja athygli á þessu, því þetta er mjög háskaleg þróun, ef við þurfum að viðurkenna það, að svo sé komið, að laun þessa fólks dugi ekki til þess að standa undir því að eiga svona íbúðir jafnvel þó að 80% af byggingarkostnaðinum sé lánað til 33 ára. Og nú á að lána 10% í viðbót til 6 ára. Annað hvort hlýtur að vera, að launin hérna eru of lág eða þessar íbúðir eru of dýrar. Nú ætta ég ekki að gera verð þessara íbúða, sem mér finnst geysilega hátt, eftir að hafa skoðað þær, að umtalsefni hér né ástand þeirra, sem mér finnst satt að segja hrikalegt. Ég geri það kannske síðar og við annað tækifæri.

Erindi mitt hingað nú var ekki að benda á þetta, þó að ærin ástæða væri til, heldur hitt, sem ég hef áður sagt, að það er ömurleg staðreynd, ef það þarf að viðurkenna það hér, að fólk, sem hefur fulla atvinnu, hafi svo lág laun, að það geti ekki staðið undir þessum litlu íbúðum, sem ég hef hér verið að lýsa, þó að það fái 80% lán til 33 ára og 10% til 6 ára.