11.11.1969
Efri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

75. mál, framfærslulög

Flm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt og er nú flutt aftur. Í grg. með frv. kemur það fram, í hvaða skyni það er flutt, en fyrir nokkrum árum fór fram endurskipulagning á félagsmálum Reykjavíkurborgar, og voru þá ýmis mál, sem höfðu heyrt undir mismunandi nefndir, falin félagsmálaráði og felld undir Félagsmálastofnun borgarinnar. Þetta var skipulagsbreyting, sem hafði nokkuð lengi verið á döfinni og allir voru sammála um, að væri mjög æskilegt að kæmist í framkvæmd. Í framhaldi af því var svo aflað lagaheimildar til þess að fella ýmsa þætti félagsmála undir Félagsmálastofnunina og félagsmálaráð, og eins og sjá má í grg., var á ráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga um félagsmál, sem var haldin seint á s. l. ári, gerð sú ályktun, sem í grg. er frá skýrt. Í framhaldi af þeirri ályktun og þeirri ósk Sambands ísl. sveitarfélaga er frv. flutt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um frv. eða efni þess, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.