27.10.1969
Neðri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

24. mál, sala Ytra-Krossaness til Akureyrarkaupstaðar

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er flutt, um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Akureyrarkaupstað jörðina Ytra-Krossanes við Akureyri, var flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki afgreiðslu, sökum þess hve það kom seint fram. Málið er hér flutt að beiðni Akureyrarkaupstaðar og fylgir sú skýring með, eins og í fyrra, að orsökin er sú, að fyrirhuguð olíuhöfn Akureyrarkaupstaðar er hugsuð í landi þessarar jarðar, og þannig stendur nú á með hana, að þarna býr aldraður ábúandi, sem senn hættir búskap, og þótti því tilvalið tækifæri til þess að ganga frá þessum málum, um það bil sem ábúandinn mundi hætta, sem yrði annaðhvort í ár eða á næsta ári.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar, það skýrir sig að mestu leyti sjálft, en legg til, að því verði að umr. lokinni vísað til landbn.