15.12.1969
Neðri deild: 25. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

24. mál, sala Ytra-Krossaness til Akureyrarkaupstaðar

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um að heimila ríkisstj. að selja Akureyrarbæ Ytra-Krossanes í Eyjafirði var flutt hér í fyrra, þegar leið að þinglokum, og var flutt að beiðni bæjarstjórnarinnar á Akureyri. Málið var ekki útrætt á því þingi og er nú endurflutt að ósk sömu aðila.

Fyrir u. þ. b. hálfum öðrum áratug voru gerðar þær breytingar á bæjarmörkum Akureyrar, að undir lögsagnarumdæmið voru lagðar nokkrar jarðir úr Glæsibæjarhreppi. Þ. á m. var jörðin Ytra-Krossanes. Ytra-Krossanes hefur verið talin allstór jörð og þar hefur verið nokkur búskapur fram undir þetta, en nú er þar aldraður ábúandi, sem er talinn vera við það að hætta og orðinn með lítið bú. Þar af leiðandi er talið, að ekki verði mikil breyting á búsetu, þó að jörðin verði seld, enda ekki af bóndanum tekin. Akureyrarbær telur sig skipta nokkru máli að fá eignarumráð yfir þessari jörð, þar sem hún er innan bæjarmarkanna og liggur auk þess fast upp að landi því, sem Krossanesverksmiðjan stendur á.

Yfirleitt hefur það verið samþykkt, að selja bæjarfélögum lönd, þar sem svipað stendur á og með þetta, ef ekkert sérstakt er í vegi. Jarðeignadeildin telur, að ríkissjóði sé enginn vinningur að því að eiga jörðina hér eftir, og mælir með að hún verði seld. Einnig hefur landnámsstjóri, Árni Jónsson, talið að þannig væri nú komið búsetu á jörðinni, að það væri engin ástæða til að mæla gegn sölunni, og mælir hann því einnig með sölunni.

Landbn. hefur athugað þetta mál á tveimur fundum og orðið sammála um að mæla með, að frv. verði samþ.